14. janúar 2013

Stúlka kynnist gagnrýnni hugsun

Mitt eigið Harmagedón eftir Önnu Heiðu Pálsdóttur segir frá nokkrum vikum í lífi Dagbjartar Elísabetar Davíðsdóttur. Hún er nýbúin með 10. bekk, er í sumarvinnu á leikskóla og ætlar að byrja í FB um haustið, helst á einhverri heilbrigðisbraut svo hún geti undirbúið sig undir læknanámið sem hún hyggur á í framtíðinni. Hún ætlar að verða barnalæknir – það er að segja ef pabbi hennar og nokkrir aðrir karlar í Brooklyn leyfa henni það. Dagbjört er nefnilega vottur Jehóva og þarf að lúta reglum safnaðarins sem stýrt er frá Bandaríkjunum og það að vera læknir samrýmist engan veginn hugmyndum vottanna um hvernig menn helga líf sitt trúnni eða séu Jehóva þóknanlegir. Hversu ákveðin sem Dagbjört er í að láta drauma sína rætast áttar hún sig smám saman á að það geti verið erfitt ef hún ætlar að halda sínum sessi í þúsund ára ríkinu sem vottar Jehóva trúa að bíði sín eftir lokaátök góðs og ills, Harmagedón. Þetta sumar kynnist hún líka systkinunum Fríðu og Benna sem ekki „lifa í sannleikanum“, besti vinur hennar verður alvarlega veikur og svo fær hún nýjar upplýsingar um mömmu sína sem dó nokkrum árum áður. Allt verður þetta til þess að Dabjört tekur líf sitt til rækilegrar endurskoðunar og afleiðingarnar verða afdrifaríkar.

Þótt ég þekki ekki sérstaklega vel til samfélags votta Jehóva er ljóst að Anna Heiða hefur unnið alla heimildarvinnu afar vel. Þarna er mýgrútur af athyglisverðum upplýsingum, ekki bara þeim sem hver sem er getur lesið í Varðturninum eða látið votta sem ganga hús úr húsi fræða sig um heldur líka úr innstu kimum safnaðarins. Það er kannski til marks um þetta að best heppnaða persóna bókarinnar er sú sem virðist staðföstust í trúnni, pabbi Dagbjartar. Hann iðkar sína trú af heilum hug, er einn af öldungum safnaðarins og þrátt fyrir að þar sé illa séð að sækjast eftir metorðum er augljóst að hann er áhrifamikill bæði meðal trúsystkina sinna og innan veggja heimilisins. Myndin sem dregin er upp (hvort sem það er ætlunin eða ekki) er af manni sem beitir trúarbrögðum nánast sem valdatæki. Í rauninni sér maður fyrir sér að hefði hann ekki gerst vottur og getað nýtt regluverk þeirra til að stjórna fólki hefði hann sennilega bara komið sér í einhverja aðra stöðu þar sem hann hefði yfir öðrum að segja. Fyrir vikið er pabbinn ekki bara vel heppnuð persóna heldur er í honum fólgin ein möguleg skýring á því hvers vegna fólk sækir í trúarsöfnuð sem mörgum finnst öfgakenndur og þvingandi.


Um söguhetjuna Dagbjörtu gildir auðvitað annað. Hún er fædd inn í söfnuðinn og það virðist vera innbyggt í starfsemi hans að loka augum og eyrum meðlima fyrir utanaðkomandi gagnrýni. Lesandinn þarfnast í raun engra frekari útskýringa á því hvers vegna hún sé vottur Jehóva. Hins vegar finnst mér að það hefði kannski mátt gefa skýrari mynd af afstöðu hennar, ekki síst áður en heimsmynd hennar tekur að molna. Dagbjört segir öll „réttu“ orðin, hún segir að hún hafi verið svo stolt að fá að ganga hús úr húsi að boða trúna eða að hún hafi óttast refsingu Jehóva þegar hún hafi brotið gegn vilja hans en ég upplifði þessar tilfinningar ekkert sérstaklega sterkt. Þvert á móti fannst mér hún eiga tiltölulega auðvelt með að brjóta reglurnar og stofna öllu í voða, til dæmis með því að umgangast Fríðu og Benna. Það getur vel verið að þetta gefi í raun ágæta mynd af því hvernig það er að fæðast inn í sértrúarsöfnuð, að þar snúist í raun allt um að læra réttu orðin og þurrka út gagnrýna hugsun, að innri trúarsannfæring sé því undirskipuð. En sem skáldsaga held ég að bókin hefði grætt á því að hafa dýpri togstreitu milli viðhorfs Dagbjartar fyrir og eftir sumarið örlagaríka.

Það er til marks um hvað Önnu Heiðu hefur tekist vel að setja sig inn í hugarheim og aðstæður vottanna að veikustu persónurnar eru hinir hversdagslegu unglingar Fríða og Benni. Í samanburði við aðra viðast þau svolítið einföld og flöt, jafnvel ósjarmerandi. Þótt Dagbjört sé skotin í Benna er ég það svo sannarlega ekki. Á köflum langaði mig meira að segja að æpa á hana að hætta nú að hugsa um þennan lúða og snúa sér frekar að vottavinum sínum sem virtust töluvert meira spennandi og margbrotnari karakterar. Á hinn bóginn skipti þetta í raun ekkert sérstaklega miklu máli. Það er nefnilega ekki hin ungæðislega ástarsaga sem er hér í forgrunni heldur frásögn af sjálfstæðisbaráttu ungrar konu. Það sem er merkilegast við þetta sumar í lífi söguhetjunnar er ekki að hún kynnist ástinni heldur að hún kynnist gagnrýnni hugsun. Hún áttar sig á því að hún kærir sig ekki um að aðrir segi henni hvernig hún eigi að hugsa, tala og haga sér heldur verði hún sjálf að taka völdin yfir lífi sínu og líkama. Það er ekki pláss fyrir neinn riddara á hvítum hest í því ferli. Dagbjört reynist líka hafa nægan kjark til að takast ein og óstudd á við þetta risavaxna verkefni og horfast í augu við afleiðingarnar þótt þær séu sárar og ósanngjarnar. Að þessu leyti er efnið nýtt á afar spennandi hátt. Það hefði verið auðvelt að einblína bara á félagslegu hliðarnar, að vottar mættu ekki fara í afmælisveislur, hversu vandræðalegt það hlyti að vera fyrir ungling að ganga hús úr húsi með foreldrum sínum og svo framvegis. En ég les þetta fyrst og fremst sem umfjöllun um mikilvægi þess að hafa frelsi til eigin skoðana, tilfinninga og langana – og rétt til að fylgja þeim eftir.

Þótt annað megi kannski skilja af því sem á undan er sagt eru persónurnar sýndar frá mörgum hliðum, enginn er algóður eða alvondur. Það er helst að draumaprinsinn Benni sé einum of fullkominn en því er naumlega reddað fyrir horn með því að láta hann eiga pabba með skuggalega fortíð. Pabbi Dagbjartar er aftur á móti æði margbrotinn. Ég hef kannski lýst honum sem valdasjúkum öfgamanni hér að framan, og það má vissulega til sanns vegar færa, en hann á líka sínar mjúku hliðar, kærleikur hans í garð Dagbjartar er áþreifanlegur og um margt finnst mér sannfæringarkraftur hans og sjálfsöryggi sjarmerandi. (Ég sé það núna að ég er sennilega dálítið skotin í pabbanum! Ef Anna Heiða myndi vilja gera „spin-off“ þá gæti hún auðveldlega gert úr honum einhverja svona Fimmtíu gráir skuggar-týpu og selt bílfarma af bókum!) Það kemur hins vegar í ljós að hann á sér leyndarmál sem Dagbjört kemst að og gæti kollvarpað lífi hans og stöðu innan safnaðarins ef upp kæmist. Hér er erfitt að ljóstra ekki of miklu upp en framan af taldi ég fyrirsjáanlegt hvernig sá þráður yrði spunninn. Ég var viss um að hann yrði nýttur til að jafna valdahlutföllinn milli þeirra feðgina í lokauppgjöri, verða til þess að pabbinn neyddist til að standa með dóttur sinni og allt félli í ljúfa löð. Ég reyndist hins vegar ekki hafa rétt fyrir mér því Dagbjört (eða Anna Heiða öllu heldur) velur að notfæra sér leyndarmálið ekki. Það er ekki bara góð leið til að sýna réttlætiskennd og innri styrk persónunnar heldur veitir það frásögninni aukna vídd. Það er nefnilega fátt eins áhrifamikið í bókmenntum og atburðir sem gerast ekki. Þótt endirinn sé vissulega á nokkuð ljúfum nótum er hann ekki kjánalega einfaldur og fyrir það var ég afskaplega þakklát. Svo bíð ég bara spennt eftir næstu bók – sérstaklega þessari um pabbann.

Engin ummæli: