24. janúar 2013

Finnsk skáldsaga grundvölluð í íslenskum veruleika: Ariasman Tapios Koivukari

Íslenska þýðingin.
Rithöfundinn, guðfræðinginn og þýðandann Tapio Kristian Koivukari hafa sumir Íslendingar þekkt sem Kidda Finna, aðrir einfaldlega sem Tapio. Meðal annarra starfa á ferli hans má nefna byggingarvinnu í Reykjavík og smíðakennslu á Ísafirði, en á síðarnefnda staðnum kynntist hann eiginkonu sinni og búa þau nú ásamt syni í heimabæ Tapios, Rauma við vesturströnd Finnlands. Auk þess að skrifa eigin verk hefur Tapio þýtt íslenskar bókmenntir á finnsku, m.a. verk Vigdísar Grímsdóttur, Gyrðis Elíassonar og Gerðar Kristnýjar.
Í október 2011 birtu Druslubækur og doðrantar viðtal við Tapio hér á síðunni. Þar kom meðal annars til tals skáldsaga hans Ariasman – kertomus valaanpyytäjistä sem þá var nýútkomin í Finnlandi, en íslensk þýðing Sigurðar Karlssonar á sögunni kom út hjá Uppheimum nú fyrir jól; hlaut góðar viðtökur og tilnefningu til íslensku þýðingarverðlaunanna, en íslenskur titill bókarinnar er Ariasman – frásaga af hvalföngurum.

Sögusvið Ariasman eru Vestfirðir á öndverðri 17. öld og hverfist sagan um þá atburði er í íslenskum annálum hafa verið nefndir Spánverjavígin, en sem mætti líklega eins vel og jafnvel með meiri rétti nefna fjöldamorð á baskneskum hvalföngurum, svo ég vitni í eftirmála höfundar. Við söguna koma ýmsar sögufrægar íslenskar persónur á borð við Jón lærða Guðmundsson og Ara Magnússon í Ögri (en nafn hins síðarnefnda tók á sig myndina Ariasman í munni Baskanna). Tiltölulega lítið hefur farið fyrir þessum atburðum á Íslandi – sjálf man ég til dæmis ekki eftir að hafa lært neitt að ráði um þá í skóla og kom að bókinni með litla vitneskju aðra en það eitt sem nafnið gefur til kynna.

Tapio ásamt konu sinni, Huldu Leifsdóttur.
Ariasman er semsagt söguleg skáldsaga og ljóst að mikil heimildavinna liggur að baki verkinu. Höfundi tekst afar vel að nýta sér þann grunn til að byggja sannfærandi söguheim upp af. Að því marki sem maður getur á annað borð gert sér í hugarlund hvers konar samfélag fjölskyldur vestfirskra fiskimanna hafa átt fyrir fjögur hundruð árum, fann ég þann heim rísa ljóslifandi upp af síðunum við lesturinn; þótt Ariasman sé tæknilega séð finnsk skáldsaga finnst mér hún að öðru leyti eins íslensk og frekast má vera. En líkt og undirtitillinn bendir til er það þó ekki saga Vestfirðinganna sem hér er sögð, heldur fyrst og fremst hinna basknesku hvalfangara sem sóttu þá heim með skelfilegum afleiðingum.


Finnska útgáfan.
Persóna Ara Magnússonar sýslumanns í Ögri fannst mér einkum áhugaverð. Að vissu leyti er hann „vondi karl“ sögunnar, en verður á endanum fyrst og fremst ákaflega mannlegur. Ari varði um áratug af æsku sinni við nám í Hamborg og þótti Ísland heldur litlaust og menningarsnautt í samanburði: „Annað mál var það ef í rauninni stóð vilji til að leita uppi galdrakindur sem Ara þótti sjálfum ekki sérlega áríðandi því í þessu vesæla og fátæka landi var fordæðuskapurinn líka fátæklegur og vesæll, eitthvert kukl með lambaspörð og að stærstum hluta eintóm vanþekking og hindurvitni.“ (428) Viðvarandi spenna í samskiptum yfirvalda og undirsáta rennur sem rauður þráður gegnum söguna. Íslendingar eru ofurseldir Danakonungi og einokunarverslun hans, en á Íslandi eru einnig ráðamenn sem í umboði Dananna eru hin æðstu yfirvöld í sínu umdæmi. Meðal lægra settra stétta bænda og fiskimanna eru margir engu minna stoltir en sýslumenn og biskupar, sem eiga stundum erfitt með að sitja og standa eins og yfirvaldinu þóknast. Þó deila Íslendingarnir sömu siðum svo langt sem það nær, auk tungumálsins, og háir sem lágir telja komu hinna framandlegu Baska til mikilla tíðinda. Klerkarnir geta með latínukunnáttu greitt fyrir samskiptum og ólöglegri verslun milli Baska og heimamanna, en í hefðbundnum skilningi eru prestar einnig tengiliðir manna við Guð á himnum. Sá er eins og gefur að skilja allfyrirferðarmikið afl í sálarlífi sögupersóna frá sautjándu öld – en þar er hinsvegar komið yfirvald allra annarra; æðra vestfirskum sýslumönnum og kaupinhöfnskum kóngum, sem þó telja sig deila og drottna í umboði himnaföðurins – og það er reyndar klassísk taktík meðal jarðneskra höfðingja að nýta sér þannig hliðstæðuna við yfirvaldið á himnum, brýna fyrir undirsátunum mikilvægi þess að hlýða Guði/prestunum/húsbændum af öllu tagi og treysta sjálfa sig í sessi um leið. Það eru þó ekki aðeins kirkjunnar menn sem hafa latínuna á sínu valdi heldur einnig alþýðumaðurinn Jón lærði. Hann hagar þó sínum viðskiptum við Baskana á annan hátt og á öðrum forsendum en fyrirmennin, sem kannski er til marks um að ekki fer það alltaf saman að predika boðskapinn hæst og fara eftir honum í raun.

Þýðing Sigurðar Karlssonar er með miklum ágætum og á góðu og blæbrigðaríku máli. Ég byrjaði að lesa bókina á finnsku þegar hún kom út, en entist ekki þolinmæði gegnum sértækan orðaforðann og, ja, blæbrigðaríkara mál en ég hef átt að venjast – eftir lestur þýðingarinnar renndi ég þó í gegnum hana og sé ekki betur en Sigurði hafi tekist stórvel upp að fanga stíl sögunnar og andrúmsloft á íslensku. Auk þess að vera vel skrifuð og skemmtileg er Ariasman afar fróðleg bók, svo óhætt er að mæla með henni við fróðleiksþyrsta lesendur ekki síður en unnendur góðra skáldsagna.

Engin ummæli: