17. júní 2013

Fyrirtaks austfirskt bókakaffi

Nú er sumarferðatími landans runninn upp og ég búin að þvælast dálítið um Austfirði af því tilefni. Auk þess að skoða í hótelbókahillur á Breiðdalsvík fór ég á bókakaffihúsið á Hlöðum í Fellabæ (eða Egilsstöðum, ef maður vill vera ókórréttur) sem ég hafði ekki áður vitað af en sem reyndist þessi líka prýðis staður og sem ég vil endilega vekja athygli ferðalanga á:
Á kaffihúsinu eru fullar hillur af skáldsögum, reyfurum, ljóðabókum, ævisögum, þjóðlegum fróðleik og fleiru á allavega þremur tungumálum, sem hægt er að glugga í á staðnum og/eða kaupa, undir afskaplega vel völdum tónum sem berast frá plötuspilaranum. Ég rak augun til dæmis í tvö eintök af þeirri ágætu bók Ástin og dauðinn við hafið eftir Jorge Amado, tvö eintök af öðru bindi Breiðfirzkra sagna eftir Bergsvein Skúlason og eintak af Vegurinn heim eftir Olgu Guðrúnu Árnadóttur, svo ég nefni bara það djúsí stöff sem ég man eftir í svipinn.

Að sjálfsögðu er svo hægt að fá sér kaffi og meððí meðan maður les. Semsagt: Fyrirtaks bókakaffi að heimsækja á ferðum sínum um Hérað.

Engin ummæli: