Sýnir færslur með efnisorðinu trúarbrögð. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu trúarbrögð. Sýna allar færslur

9. nóvember 2015

Paradísarmissir í Breiðholtinu - um ævisögu Mikaels Torfasonar

Bókaforlagið Sögur gaf nú nýverið út Týnd í paradís eftir Mikael Torfason. Á kápu er gefið upp að Mikael segi hér sögu sína, foreldra sinna og forfeðra – en þetta er ekki ævisaga í hefðbundnum skilningi orðsins (eins og fæstar ævisögur eru raunar núorðið).

Í grófum dráttum segir Mikael hér söguna af því þegar hann sem ungabarn og síðar ungur drengur lá ítrekað fyrir dauðanum á Landspítalanum vegna meðfædds sjúkdóms en mátti ekki þiggja blóðgjafir þar sem fjölskyldan var innvígð í Votta Jehóva og það stríðir gegn trúarsannfæringu þeirra að fá blóð. Hann lýsir baráttu foreldra sinna – og þá sérstaklega föður síns - gegn heilbrigðiskerfinu og útlistar þær þjáningar sem hann, barnið, mátti þola í kjölfar hverrar orrustu sem faðir hans sigraði. Nú væri höfundi (og um leið lesanda) í lófa lagið að afgreiða foreldra hans með einu pennastriki en hér er kafað dýpra en svo og bókin er ekki síður saga kornungra foreldra af brotnum eða fátækum heimilum, saga alþýðufólks sem aldrei hafði ástæðu til að treysta stofnunum. Síðast en ekki síst er þetta saga Votta Jehóva – bæði hér á landi og erlendis – og er sú saga ekki síður áhugaverð en persónuleg fjölskyldusaga Mikaels.

19. október 2013

Flöskuskeyti berst til Köben

Daninn Jussi Adler-Olsen hefur oftar en einu sinni komið við sögu hér á blogginu, og þá í mínu boði enda hef ég eins og raunar fleiri druslubókaskrifarar verið afskaplega svag fyrir bókaflokki hans um Carl Mørck, Assad og Rose í deild Q í Kaupmannahafnarlögreglunni. Við erum aldeilis ekki einar um það; bækurnar hafa notið mikilla vinsælda á Norðurlöndunum og víðar, og nú um helgina er einmitt verið að frumsýna hérlendis bíómynd sem gerð er eftir fyrstu bókinni, Konunni í búrinu. Þótt ég hafi snúið dálítið upp á mig þegar ég sá þann sem á að vera Assad á plakatinu (virðist vera orðinn einhver ungur foli), og finnist sömuleiðis frekar skrítið að setja Nikolaj Lie Kaas í þetta hlutverk - frábær leikari en alltof ungur - þá er ég alveg til í að tékka á henni. Og auðvitað má alveg búa til nýjan heim fyrir aðlögun í öðru formi.
Það vill þannig til að ég var einmitt að ljúka við lestur þriðju bókarinnar í flokknum, en sú heitir Flöskuskeyti frá P og á einhvern dularfullan hátt missti ég af henni þegar hún kom út og vissi ekki af tilvist hennar fyrr en seint og um síðir, sem útskýrði ýmsar undarlegar gloppur í hinu stærra samhengi. Eins og í svo mörgum glæpasagnaflokkum fylgjast lesendur nefnilega með einkalífi rannsakendanna og auk þess er í gangi eins konar rammaplott sem tengist skotárás sem Carl lendir í ásamt tveimur félögum sínum úr lögreglunni áður en hin eiginlega frásögn hefst. Ég hef raunar kvartað yfir því áður að mér finnst Jussi skammta okkur upplýsingarnar helst til of hægt og lítið, og það sama má segja um bakgrunn Assads sem er eilífðarráðgáta. Ég vil endilega fara að fá meira að vita, enda forvitin með eindæmum!

Á fyrstu síðum bókarinnar hittum við fyrir tvo unga drengi sem haldið er í prísund á ótilgreindum stað og við undarlegar aðstæður; við vitum það eitt að líf þeirra er í hættu og að þeir hafa alist upp við stranga trúariðkun. Flöskuskeytinu sem nefnt er í titlinum skolar upp við Skotlandsstrendur; það lendir síðan fyrir tilviljun í höndum lögreglumanns og berst þannig inn á lögreglustöð í smábæ þar sem það liggur í nokkur ár áður en það rekur á fjörur Carls og félaga. Í fyrstu virðist það bæði vonlaust og tilgangslítið verkefni að ráða í þetta gamla, máða krot, en þegar maverick-gengið góða í deild Q áttar sig á alvöru málsins er ekki aftur snúið.

5. ágúst 2013

Að lesa eða lesa ekki?

Þeir sem fylgjast með bókmennta- og kvikmyndaumræðunni í Bandaríkjunum gætu hafa rekið augun í umfjöllun um Orson Scott Card á síðustu vikum. Þessi bandaríski vísindaskáldsöguhöfundur hefur verið að í þrjátíu og fimm ár og er líklega þekktastur fyrir bókaflokkinn vinsæla um Ender, en kvikmynd sem byggð er á fyrstu bókinni - Ender's Game - er væntanleg í bíó fyrir næstu jól. Það er óbeint þess vegna sem Orson Scott Card er nú ræddur fram og til baka á hinum ýmsu vefsíðum - margir hafa nú uppi háværar kröfur um að fólk sniðgangi myndina og hætti að kaupa bækur höfundarins. Ástæðan er ógeðfelld hómófóbísk orðræða Scott Card, sem hefur ítrekað haldið því framsamkynhneigð sé óeðli eða erfðafræðileg brenglun, og lýsti því m.a. yfir að kollsteypa ætti hverri þeirri ríkisstjórn sem samþykkti ein hjúskaparlög öllum til handa, auk þess sem hann er þess fullviss að samkynhneigðir karlmenn hafi upp til hópa verið misnotaðir kynferðislega sem börn og séu þess vegna með "brenglaða" kynvitund. Jebbs, svona frekar viðbjóðslegur málflutningur heilt á litið. Scott Card er mormónatrúar og reyndar hvorki meira né minna en afkomandi Brigham Young.
Ender's Game hefur selst í bílförmum
Þessi umræða tengist spurningu sem hefur verið mér hugleikin síðustu misserin; hvort persónuleiki eða skoðanir höfunda hafi, eigi að hafa eða eigi ekki að hafa áhrif á viðbrögð manns við verkum þeirra. Það er að segja, hvort hið ytra skarist við verkið sjálft. Hvort heimurinn sem er skapaður í bók geti staðið einn og sjálfur eða hvort maður lesi alltaf í stærra samhengi. Er maður að kvitta undir skoðanir sem manni þykja ógeðfelldar ef maður kaupir, les og jafnvel nýtur bóka eftir fólk sem vafasöm viðhorf? Þessar pælingar eiga að sjálfsögðu líka við um annað listafólk, kvikmyndagerðarfólk (barnanauðgarinn Roman Polanski kemur strax upp í hugann), tónlistarmenn og svo framvegis.

Stundum fæla yfirlýsingar rithöfunda mann frá bókum sem maður hefur ekki lesið. Mig til dæmis langar ekki að lesa neitt eftir enska höfundinn Martin Amis því ég hef aldrei lesið svo mikið sem hálfa grein eftir hann eða viðtal við manninn án þess að langa til að sparka í vegg. Ég get ekki ímyndað mér að maður sem hefur jafnhaturs- og hrokafullar skoðanir um alla aðra en hvíta forréttindakarlmenn geti haft neitt sniðugt eða merkilegt að segja mér um mannfólkið, hvort sem það er uppskáldað eður ei. En ég hafði heldur aldrei lesið neitt eftir hann þegar ég komst að því hvað mér þykir hann hroðalegur - hvernig hefði mér liðið ef bækurnar hans hefðu verið í uppáhaldi hjá mér?

Það er nefnilega aðeins flóknara með höfunda sem maður heldur þegar upp á.

13. júní 2012

Persónur og lesandi reyndir

Nýverið komst ég loksins yfir skáldsöguna Abide With Me eftir bandaríska rithöfundinn Elizabeth Strout. Loksins segi ég þar sem ég hef fyrir löngu lesið og endurlesið fyrstu bók hennar, Amy and Isabelle sem og nýjusta verk hennar, hina mögnuðu Olive Kitteridge sem Strout hlaut Pulitzer verðlaunin fyrir árið 2009. Ég hef áður lofað því að skrifa um Olive Kitteridge enda ein af mínum uppháldsbókum og ítreka það loforð en hér verður hins vegar talað um aðra bók Strout, áðurnefnda Abide With Me.

12. mars 2012

Staður og stund

Ég fór í miklum sparnaðargír á nýafstaðinn bókamarkað í Perlunni og keypti bara tvær bækur, báðar hræódýrar. Þá sem er til umfjöllunar hér fékk ég á 160 krónur. Hún heitir Amazon og er eftir Barböru G. Walker, gefin út í íslenskri þýðingu Eddu R.H. Waage hjá bókaútgáfunni Ísfólkinu 1993. Bókin er í svona sjoppukiljubandi en það var eitthvað við hana sem vakti forvitni mína þegar ég rak augun í hana. Kannski var það nafn höfundarins sem mér fannst hljóma kunnuglega. Þegar ég las aftan á hana virtist mér hún að minnsta kosti nógu áhugaverð til að fjárfesta í henni og lesa. Þegar heim var komið fór ég að grennslast betur fyrir um höfundinn og fékk grun minn staðfestan: Barbara G. Walker er þekkt nafn úr prjónabókaheiminum, ekki síst fyrir að hafa safnað sérstaklega hinum ýmsu mynstrum og gefið út á bókum. Þrátt fyrir prjónabókasafn mitt á ég ekkert af prjónabókunum hennar en bækurnar hennar ber oft á góma í þaraðlútandi kreðsum. Við þessa nánari athugun mína komst ég að því að Walker hefur ekki einskorðað sig við skrif um prjónaskap heldur hafa femínismi, gyðjutrú, umfjöllun um ýmiss konar mystík og gagnrýni á kristna trú verið henni hugleikin líka. Þótt hún hafi skrifað um gyðjutrú sem einhvers konar femíníska vitundarvakningu virðist hún þó ekki aðhyllast slíkt sjálf heldur hefur hún verið gallharður trúleysingi. Og hún hefur skrifað um hluti eins og alls konar steintegundir og symbólisma þeim tengdan en leggur í þeim skrifum (eftir því sem sagt er, ég hef ekki lesið þetta sjálf) áherslu á að í rauninni sé ekkert yfirnáttúrulegt við steina.