Sýnir færslur með efnisorðinu ólesnar bækur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu ólesnar bækur. Sýna allar færslur

3. maí 2012

Af leslistanum langa

Garnsafnið mitt er reyndar ekkert miðað við þetta. Sjá hér
Líkt og flestir sem ég þekki er ég þjökuð af stressi og samviskubiti yfir öllu því sem ég kem ekki í verk þrátt fyrir fullan vilja og löngun. Ég á matreiðslubækur fullar af uppskriftum sem ég kem aldrei í verk að prófa og eitthvað svipað gildir um uppskriftir í prjónabókunum mínum, svo ekki sé minnst á allar uppskriftirnar á netinu og allt sem mig langar að prófa mig áfram með sjálf. Ég á birgðir af garni sem ættu að geta dugað síprjónandi (sem ég er svo sannarlega ekki þessa dagana) manneskju í einhver ár, flíkur í poka sem ég ætla einhvern tímann að laga og breyta, hálffulla óhreinatauskörfu af fötum sem þarf að handþvo (og sem hafa verið þar líklega síðan fyrir hrun), geisladiska í stöflum sem ég gleymi að hlusta á, dvd-diska sem ég á eftir að horfa á og svo eru það allar bækurnar. Já, þessar ólesnu. Fleiri Druslubókadömur hafa gert ólesnar bækur að umtalsefni, til dæmis Salka og Erna.

Samviskubit eða óþreyja vegna ólesinna bóka virðist hrjá flesta þá sem áhuga hafa á bókum. Sólarhringurinn er hreinlega ekki nógu langur til að hægt sé að komast yfir að lesa allt sem skemmtilegt og/eða gagnlegt og/eða forvitnilegt væri að lesa og mörgum hættir til að vera helst til bjartsýnir í að áætla lestrartíma sinn fram í tímann og útvega sér mun fleiri bækur en þeir komast svo yfir að lesa. Stundum hef ég heyrt fólk segja að það sé eitthvað svindlkennt við að vera með ólesnar bækur uppi í hillu því þá gefi maður í skyn að maður hafi lesið ýmislegt sem maður hefur svo bara ekkert lesið. Ég vil meina að þeir sem halda þessu fram geti varla verið mikið bókaáhugafólk. Þegar ég sé vel búnar bókahillur hvarflar ekki að mér eitt augnablik að eigandinn hafi lesið allar bækurnar. Áður fyrr þegar fólk eignaðist fáar bækur kann það að hafa átt við að það læsi allar bækurnar sínar og mig minnir reyndar að ég hafi lesið flestar bækurnar mínar þegar ég var barn.

Sem sagt tel ég það ljóst að ég mun aldrei lesa allar bækurnar mínar, hvað þá allar hinar bækurnar sem mig langar að lesa sem ég hef látið vera að reyna að eignast vegna þess að þær eru auðfengnar á bókasöfnum. Samt finnst mér alltaf spennandi að eignast nýjar bækur; nýrri bók fylgja einhver fyrirheit og spenna. Í gær sótti ég tvær á pósthúsið sem ég hafði pantað og á reyndar von á fleirum. Önnur heitir New Waves in Metaphysics og ég er reyndar þegar byrjuð á henni og búin að lesa eina grein. Hin heitir Out from the Shadows. Analytical Feminist Contributions to Traditional Philosophy. Núna á næstunni þarf ég líka að endurlesa eða rýna betur í bækur sem ég hef þegar lesið auk þess sem ég þarf að líta á sem ég á eftir að lesa. Og svo reyni ég að laumast í það sem ég les mér til ánægju. Reyndar á þetta tvennt til að renna saman; margt af því sem ég les fellur (sem betur fer) bæði í flokk þess sem ég les vegna vinnu og þess sem ég les mér til ánægju en svo er sumt sem fellur bara í annan flokkinn. Meðal þeirra bóka sem eru í lesstaflanum um þessar mundir má nefna (auk þessara tveggja nýju) After Finitude, Making the Social World, Sexual Solipsism, Primary and Secondary Qualities, Truth Matters, The Grand Design og The Dispossessed. Já, ég geri mér grein fyrir því að þetta er allt á ensku og bara ein skáldsaga í bunkanum. Best að ég reyni að bæta úr því og nái mér í einhverja af ólesnu íslensku skáldsögunum sem eru til í hillunum hjá mér.

22. mars 2012

Land hinna ólesnu bóka

Kannast lesendur bloggsins við það að eiga ólesnar bækur upp í hillu sem horfa á mann ásökunaraugum ár eftir ár, en aldrei druslast maður til þess að taka þær úr hillunni og lesa?

Kannski myndi ég frekar nenna að lesa
Kommúnistaávarpið á velsku
Nýlega áskotnaðist mér lítið og huggulegt vinnuherbergi á heimili mínu þegar við sambýlingarnir breyttum skipulaginu á íbúðinni og framkvæmdum alls kyns tilfærslur. Af því tilefni fóru fram talsverðir bókaflutningar hjá mér; þótt ég sé aðeins með brotabrot af bókunum mínum hér í þessari íbúð eru þetta þónokkrir hillufermetrar og skemmtilegt púsluspil að ákveða hvað á að vera hvar, leggja höfuðið í bleyti, velja besta fyrirkomulagið, rölta með bækur úr stofu inn í svefnherbergi, þaðan inn í vinnuherbergi og jafnvel aftur inn í stofu á endanum. Eins og alltaf þegar ég fikta í hilluskipulaginu tók ég eftir bókum sem ég hafði svo gott sem gleymt. Þótt ég hafi haft þær fyrir augunum á hverjum degi í tvö ár var ég einhvern veginn hætt að taka eftir þeim. Slíkt er kærkomið og ég er t.d. núna að lesa tvær bækur sem ég var búin að steingleyma að væru til á heimilinu.

Hins vegar virðist ég ferðast hús úr húsi og jafnvel milli landa með ákveðnar bækur í farteskinu sem ég hef keypt eða fengið að gjöf en einfaldlega kem mér ekki í að lesa. Ástæðan er ekki alltaf ljós. Stundum er kápan ljót og fráhrindandi (já, ég er jafnhégómleg og aðrir þegar kemur að estetík lesefnis), stundum er eitthvað óárennilegt við bókina eða efni hennar. Nokkrar bækur á ég ókláraðar í sérstakri "þarf að klára"-hillu - eins og fleiri druslubókadömur er ég ófær um að hætta að lesa bók og finn mig knúna til að klára hverja einustu þótt stundum líði mörg ár frá fyrstu blaðsíðu til þeirrar síðustu. Þar er t.d. að finna To the Lighthouse eftir Virginiu Woolf, sem mér þykir óbærilega leiðinleg bók (fyrirgefið, þið sem tengið betur við stream of consciousness en ég og hafið dálæti á Woolf) en las ca. 4/5 af þegar ég var í mastersnámi í Glasgow; þar var hún á leslista. Ég er alltaf að reyna að mana mig upp í að klára hana en fyllist einhverjum ógurlegum pirringi í hvert sinn sem höndin nálgast kjölinn á kiljunni sem vinkona mín lánaði mér og neitaði að taka við aftur (álíka mikill aðdáandi og ég).

Mikið var ég vitlaus að geyma þennan
gullmola uppi í hillu svona lengi
Svo eru bækur sem ég er alltaf á leiðinni að lesa en verða bara aldrei fyrir valinu þegar eitthvað meira freistandi stendur til boða. Ein sem mér dettur í hug er Kommúnistaávarpið sem er hér í enskri þýðingu uppi í hillu; reyndar hef ég lesið hluta af því en finnst samt að ég verði að lesa hana alveg í gegn, varla geta ungkommar verið þekktir fyrir annað? Marabou Stork Nightmares eftir Irvine Welsh er önnur; ég fékk hana að gjöf fyrir nokkrum árum og veit ekki alveg af hverju ég hef ekki lesið hana ennþá, kannski er það ljóta kápan (einhver mjög billeg útgáfa frá tíunda áratugnum, sem verður að teljast versti áratugurinn í bókakápubissnessinum). Mér hefur fundist margt fínt eftir Welsh þannig að það er ekki óbeit á höfundinum sem veldur. Kannski er bókin bara búin að vera svo lengi í hillunni að ég er orðin eitthvað pirruð á henni.

Málið er samt að oft þegar ég loksins tek mig til og les einhverja af þessum ólesnu, ásakandi, bitru bókum reynast þær iðulega afskaplega góðar. Ég til dæmis átti Cloud Atlas ólesna uppi í hillu í örugglega hálft ár eftir að ég fékk hana í jólagjöf árið 2005, en síðan ég las hana hefur hún verið ein af mínum eftirlætisskáldsögum. Ég hafði lengi hörfað undan Ivanhoe eftir Sir Walter Scott, þótti hún eitthvað óárennileg, en hafði heilmikið gaman af henni þegar ég tók mig til og las hana í fyrra. Það sama á við um nokkrar fræðibækur og pólitískar skruddur.



Ef ég ætti þessa bók væri hún örugglega
í ólesnu, bitru hillunni
Sennilega er best að grípa einhverja úr hillunni áður en ég skríð upp í rúm ...

11. september 2011

Bókmenntahátíð og ólesnar bækur

Bókmenntahátíð minnir mig stundum á hegðunarvandamál í eigin fari: Að kaupa bækur og lesa þær ekki. Tilfellið er nefnilega að ef ég les bækur ekki fljótlega eftir að ég kaupi þær, þá geta liðið ár og dagar án þess að ég opni þær. Þegar dagskrá bókmenntahátíðar er kynnt er ekki óalgengt að ég sjái a.m.k. einn höfund, stundum fleiri, á listanum sem ég á ólesna bók eftir. Kosturinn er að þetta ýtir þá á mig að gera eitthvað í málinu. Ég hafði t.d. keypt Drömfakulteten eftir Söru Stridsberg fyrir löngu en las bókina loksins helgina fyrir bókmenntahátíð og heillaðist af frumlegum textanum og margbrotinni frásagnaraðferðinni. Það má lesa meira um bókina í pistli eftir Þórdísi sem birtist á þessari síðu í hitteðfyrra.

Áminningar sem þessar um ólesnar bækur eru einn af mörgum kostum bókmenntahátíðar. En hátíðin getur samt líka magnað vandann. Nú þegar er ég t.d. búin að kaupa fjórar bækur eftir höfunda á hátíðinni til viðbótar við þær sem ég átti fyrir og óttast að það muni frestast óhóflega lengi að lesa þær, þrátt fyrir mikinn vilja. Þar kemur að annars konar klemmu sem hátíðin getur komið lesanda í. Er tímanum best varið í að sækja dagskrána á bókmenntahátíð og hlusta á áhugaverða höfunda (og einstöku sinnum óáhugaverða höfunda) lesa úr verkum sínum og segja frá? Eða er sniðugra að hanga bara heima og lesa? Ef maður sækir bókmenntahátíð nefnilega að einhverju ráði er veruleg hætta á að lesturinn sjálfur sitji á hakanum. Samt vel ég yfirleitt fyrri kostinn og sé sjaldnast eftir því.