Bókmenntahátíð minnir mig stundum á hegðunarvandamál í eigin fari: Að kaupa bækur og lesa þær ekki. Tilfellið er nefnilega að ef ég les bækur ekki fljótlega eftir að ég kaupi þær, þá geta liðið ár og dagar án þess að ég opni þær. Þegar dagskrá bókmenntahátíðar er kynnt er ekki óalgengt að ég sjái a.m.k. einn höfund, stundum fleiri, á listanum sem ég á ólesna bók eftir. Kosturinn er að þetta ýtir þá á mig að gera eitthvað í málinu. Ég hafði t.d. keypt Drömfakulteten eftir Söru Stridsberg fyrir löngu en las bókina loksins helgina fyrir bókmenntahátíð og heillaðist af frumlegum textanum og margbrotinni frásagnaraðferðinni. Það má lesa meira um bókina í pistli eftir Þórdísi sem birtist á þessari síðu í hitteðfyrra.
Áminningar sem þessar um ólesnar bækur eru einn af mörgum kostum bókmenntahátíðar. En hátíðin getur samt líka magnað vandann. Nú þegar er ég t.d. búin að kaupa fjórar bækur eftir höfunda á hátíðinni til viðbótar við þær sem ég átti fyrir og óttast að það muni frestast óhóflega lengi að lesa þær, þrátt fyrir mikinn vilja. Þar kemur að annars konar klemmu sem hátíðin getur komið lesanda í. Er tímanum best varið í að sækja dagskrána á bókmenntahátíð og hlusta á áhugaverða höfunda (og einstöku sinnum óáhugaverða höfunda) lesa úr verkum sínum og segja frá? Eða er sniðugra að hanga bara heima og lesa? Ef maður sækir bókmenntahátíð nefnilega að einhverju ráði er veruleg hætta á að lesturinn sjálfur sitji á hakanum. Samt vel ég yfirleitt fyrri kostinn og sé sjaldnast eftir því.
Það er oftast gaman að heyra í höfundum sem maður þekkir fyrir af verkum sínum en ekki síður skemmtilegt að uppgötva nýja höfunda sem maður vissi lítið eða ekkert um fyrir. Ég hafði t.d. aldrei heyrt um Alberto Blanco fyrir hátíðina og fylltist engum sérstökum áhuga á honum við að fletta kynningarefninu en síðan var hann svo skemmtilegur á upplestrinum á föstudagskvöldið að ég dauðsá eftir að hafa misst af viðtali við hann daginn áður. Afbragðs viðtal Hauks Ingvarssonar við Piu Tafdrup fyrr í dag fyllti mig líka löngun til að lesa ljóðin hennar. Það var t.d. heillandi að hlusta á hana lýsta hugmyndum sínum um að skáldskapurinn ætti upptök í „ordløsheden“ – að vera orða vant. Annar eftirminnilegur punkur úr viðtalinu var frásögn hennar af því þegar hún byrjaði að nota tölvu og áttaði sig allt í einu á því að ljóðin sem hún orti á tölvuna í fyrstu áttu það sameiginlegt að passa innan marka skjásins. Áhugavert dæmi um hvernig tæknin getur mótað hugsun og framsetningu. Ég hlakka til að heyra Piu Tafdrup og fleiri góða höfunda lesa upp í Iðnó í kvöld.
En það var þetta með ólesnu bækurnar. Ég hef lengi ætlað að lesa eitthvað eftir Hertu Müller og fyrr á árinu keypti ég bók eftir hana sem ég ætlaði svo sannarlega að vera búin að lesa fyrir hátíðina. Tíminn hljóp frá mér en allt sem ég hef séð og heyrt til Hertu Müller á núna á hátíðinni hefur magnað upp löngunina til að sökkva mér á kaf í verk hennar. Á vef Ríkisútvarpsins er hægt að hlusta á íslenska þýðingu á ræðu sem hún hélt við setningu hátíðarinnar og undir lok Víðsjár á föstudaginn voru spiluð brot úr alltof stuttu viðtali við Hertu sem var á dagskrá hátíðarinnar í hádeginu á daginn áður. Þar sagði hún m.a. frá því hversu seint hún kynntist bóklestri, það hefði ekki verið til ein einasta bók í bændaþorpinu þar sem hún ólst upp. Einnig var hún spurð töluvert um tungumál og eigin málnotkun – og hafði margt afar áhugavert til málanna að leggja – en fannst á endanum greinilega komið nóg af þeim spurningum og sagði að það sem mestu skipti væri innihaldið, það sem hún vildi segja með verkum sínum. Þetta hindraði spyrilinn samt ekki í að halda áfram að gera tungumálið að umtalsefni. Minnisatriði fyrir spyrla: Passið ykkur á fyrirframákveðnu spurningalistunum og munið að hlusta á viðmælendurna!
Ég er annars rétt byrjuð á áðurnefndri bók eftir Hertu sem ég keypti fyrr á árinu. Hún heitir Heute wär ich mir lieber nicht begegnet eða Í dag hefði ég helst ekki mætt mér. Þar segir kona frá í fyrstu persónu, hún hefur verið boðuð í yfirheyrslu, ekki í fyrsta skipti. Í þetta skiptið stingur hún handklæði, tannkremi og tannbursta í töskuna sína ef hún skyldi ekki eiga afturkvæmt heim til sín og í sporvagninum á leiðinni rifjar hún upp ónotalega handkossa majórsins sem er vanur að yfirheyra hana. Lýsingarnar miðla ógninni áþreifanlega til lesandans, strax þarna á fyrstu síðunum birtist þéttur texti á mörgum plönum og ég hlakka mikið til að halda áfram.
Meira síðar – þegar ég verð búin með bókina!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli