
Faust, kvikmynd Alexanders Sokurovs, er t.d. sprottin af samnefndu verki Goethes en samkvæmt kynningu í prógrammi er kvikmyndin þó „ekki aðlögun á harmleik Goethes í hefðbundnum skilningi, heldur túlkun á því sem má lesa milli línanna“. We Need to Talk About Kevin er byggð á samnefndri skáldsögu. Í pistli hér á síðunni fyrir allnokkru mælti Æsa alls ekki með því að fólk bókina, m.a. því hún gæti valdið andvökum með óbærilegum hugsunum um vonsku heimsins. Ég hef heyrt vel látið af myndinni en jafnframt hefur fylgt sögunni að hún henti ekki viðkvæmum. Önnur skáldsögukvikmynd sem sjá má á RIFF er ný mynd Andreu Arnold eftir Wuthering Heights, sögu Emily Brontë. Á dagskrá hátíðarinnar er síðan líka bókamynd af allt öðru tagi: Að búa til bók með Steidl sem snýst um bækur en ekki bókmenntir því þetta er heimildamynd um bókaútgefandann Gerhard Steidl og útgáfu hans á ljósmyndabókum. (Ef lesendur vita um fleiri kvikmyndir á RIFF sem tengjast bókum á einhvern hátt má gjarnan láta vita í kommentakerfinu.)
Ég er búin að sjá tvær síðastnefndu myndirnar, þær gætu vart verið ólíkari en voru báðar mjög fínar.


Merkimiðinn sem flestum kemur í hug þegar Wuthering Heights er sennilega „rómantísk ástarsaga“. Það má reyndar til sanns vegar færa – en það er bara önnur tegund af rómantík og ást en oftast er tengd við hugtakið ástarsögur. Rómantíkin í Wuthering Heights er ekki af því tagi sem einkennist af ástarvellu heldur sú tegund sem kennd er við „Sturm und Drang“. Meðal þess sem kom mér á óvart þegar ég las bókina var hversu margt annað var þar að finna en beina sögu Heathcliffs og Cathyar, og eftir lesturinn var ég líka forviða á því að Heathcliff væri iðulega nefndur í sömu andrá og Mr. Darcy sem eftirlætispersóna ástsjúkra unglingsstúlkna því Heathcliff er hrotti, saga hans og Cathyar einkennist af kvölum og tortímingu og bókin miðlar því vandlega hversu andstyggilegt fólk getur verið hvert við annað.
Eins og fyrr segir hefur skáldsagan verið kvikmynduð fjölmörgum sinnum og í Kvikmyndasafni Íslands verður síðar í vetur hægt að sjá kvikmynd Williams Wyler frá 1939 þar sem Laurence Olivier fer með hlutverk Heathcliffs. Ég bíð spennt eftir að fá tækifæri til að bera hana saman við nýjustu kvikmyndun sögunnar sem sýnd er núna á RIFF. Leikstjóri þeirrar myndar er Andrea Arnold en næsta mynd sem hún gerði á undan þessari var Fish Tank, ein besta myndin sem ég sá á RIFF í hitteðfyrra.

Sá hluti bókarinnar sem valinn er til frásagnar í kvikmyndinni er þekktasti hluti hennar, þ.e. saga Heathcliffs og Cathyar, frá því að faðir Cathyar kemur með Heathcliff á heimilið og rétt fram yfir dauða Cathyar. Rammafrásögninni úr bókinni og öllu sem henni tilheyrir er sleppt, eins og algengt mun vera í aðlögunum sögunnar að öðrum miðlum. En þótt hefðinni sé fylgt að því leyti að það er einkum „ástarsaga“ Heathcliffs og Cathyar sem hér er sögð er ekki dregið úr andstyggilegu pörtunum. Heathcliff er t.d. ekki gerður að geðugri persónu í myndinni en jafnframt er gert skiljanlegt hvernig hann varð eins og hann er. Því er miðlað ágætlega hversu andstyggilegt fólk getur verið hvert við annað og stílbrögð kvikmyndarinnar undirstrika stormasama tilveruna og margþætta eyðileggingu.
1 ummæli:
Eftir að ég skrifaði þetta rifjaðist upp að ég tók eftir því að í kreditlistanum á Osló, 31. ágúst kom fram að hún byggðist lauslega á franskri skáldsögu frá 1931: Le Feu Follet eftir Pierre Drieu La Rochelle.
Skrifa ummæli