19. september 2011

Sister - glæpasögur og bókmenntaverk


Það getur verið ansi skemmtilegt þegar einhver kemur með bók til manns og segir manni að þessa bara verði maður að lesa. Stundum horfir maður í forundran á manneskjuna og bókina og skilur ekkert í því að viðkomandi hafi dottið í hug að maður væri týpan í að lesa svona bókmenntir – en svo gerist það líka að maður kannski les bókina og verður allsendis hissa á því hversu ágæt hún er. Eitthvað þessu líkt gerðist í sumar þegar samstarfskona mín kom askvaðandi með bók sem hún hafði lesið í sumarfríinu sínu (bókin bar þess þokkaleg merki að hafa verið lesin í sólbaði á grískri strönd) og sagði að þessa ætti ég að drífa mig í að lesa. Bókin húkti á hillunni minni í vinnunni í þónokkuð margar vikur og ég gjóaði á hana augunum öðru hvoru og hugsaði „jæja, ætti ég að setja hana ofaní tösku og taka með heim“ en ekkert varð úr því. Ég var svo á leið á nokkurra daga fund útá land fyrir skemmstu og uppgötvaði mér til skelfingar sem ég var að taka til dótið á skrifstofunni að ég hafði gleymt kvöldlesningu heima (en það er eitthvað sálrænt að þurfa alltaf að hafa með bækur í ferðalög, þó næsta víst sé miðað við prógrammið að lítill tími muni gefast til lesturs). Þar með var teningnum kastað, og sumarleyfisbókin fór ofaní tösku.

Bókin sem um ræðir er Bestseller frá 2010 og heitir Sister, gefin út af Piatkus sem er einhverskonar systurútgáfa Little, Brown. Þetta er fyrsta bók höfundarins, en hún heitir Rosamund Lupton og var handritshöfundur fyrir sjónvarp og bíómyndir áður en hún gerðist skáldsagnahöfundur. Hún stúderaði enskar bókmenntir í Cambridge, vann við textagerð og bókmenntagagnrýni auk þess að hafa unnið til verðlauna í keppni fyrir „nýja“ rithöfunda sem Carlton Television stóð fyrir. Ekki má gleyma því að hún býr í London ásamt eiginmanni, tveimur börnum og einum ketti.

Þessa bakgrunns gætir nokkuð í bókinni – Sister hefst á tveimur tilvitnunum: annarri úr Emmu eftir Jane Austen og hin er línur úr 5. sonnettu Shakespeare´s: „But flowers distill´d, though they with winter meet/Leese but their show, their substance still lives sweet.“ Báðar tilvitnanir eiga einkar vel við söguna, en þessi seinni er bara svo falleg að ég gat ekki stillt mig um að setja hana inn í heild sinni!

Einsog vera ber með bestseller er allskyns tilvitunum í hin ýmsustu átoritet dreift hér og hvað um kápuna og maður fær að lesa rúma blaðsíðu af hrósi áður en sagan sjálf sést. Á forsíðunni segir Jeffery Deaver (sem google segir mér að sé „international number one best selling author) að Sister eigi heima á þeim sjaldgæfa stað þar sem glæpasögur og bókmenntaverk verði eitt. Það er í sjálfu sér alveg rétt hjá honum – en mér finnst samt einsog ég hafi lesið mjög svipaðan frasa (væntanlega samt hafðan eftir einhverjum öðrum, um bók eftir Kate Atkinson, sem nota bene var mjög fín líka, en þó afar ólík þessari). Mér finnst takast vel til í þessari sögu að tengja saman góða sögu af sambandi systra og fjölskyldu þeirra, raunar bara alveg ágætu fjölskyldudrama (þó auðvitað hefði þurft að gera þeim þætti hærra undir höfði ef sagan hefði átt að falla í þann flokk), glæpasögu, einhverskonar vísindaskáldsögu ásamt smá slurk af pælingum um sjálfsuppgötvun og sambandsmál.

Það sem ég er kannski að reyna að segja er að mér finnst alveg óþarfi að vera að básúna eitthvað um að sagan sé bókmenntaverk þó hún sé líka einhverskonar „glæpasaga“. Mér, amk, finnst sú kategoría bara alls ekkert svo óvenjuleg – vil meina að þær glæpasögur sem eru almennilegar séu það afþví að þær eru vel skrifaðar og fjalla um efniviðinn útfrá áhugaverðu sjónarhorni. Sjálfri kom mér mest á óvart hversu vel henni tekst til við að gera áhugavert og læsilegt það sem ég myndi kalla „vísindaskáldsöguvinkilinn.“ En þar er jú einvörðungu mínum fordómum fyrir að fara, en ég hef alltaf talið mér trú um að mér þættu vísinda/tækniskáldsögur óheyrilega leiðinlegar og nefni máli mínu til stuðnings óbærilega leiðinlegar bækur einsog Neuromancer eftir William Gibson, sem mér hefði að sjálfsögðu aldrei dottið í hug að lesa nema afþví að ég neyddist til þess fyrir kúrs sem ég kenndi fyrir margt löngu.

En aftur að Sister. Ef þið hafið gaman af glæpasögum með fjölskylduívafi, konum sem uppgötva áður óþekktar víddir í eigin persónuleika, pælingum um samband systra o.s.frv. þá er Sister bókin fyrir ykkur.

4 ummæli:

Hildur Knútsdóttir sagði...

Hljómar spennó! Amazon er alltaf að stinga uppá því að ég kaupi þessa. Kannski ég drífi bara í því.

Sigfríður sagði...

já, endilega drífa í að lesa þessa, alveg þess virði!

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Forvitni mín er vakin! Ég verð að segja að það bætist stöðugt við Amazon-óskalista minn ... það stefnir allt í útlandaferð til þess eins að kaupa bækur.

Nafnlaus sagði...

Já, það fer að verða stórhættulegt að lesa ykkur Druslubókadömur, leslistinn lengist ískyggilega hratt þessa dagana. Kristín í París.