Sumarið er tími notalegheita og afþreyingarlesturs og hvað gæti verið notalegra aflestrar en vel skipulagt morð? Þótt reyfarar – eins og annað svokallað léttmeti - séu auðvitað misgóðir þá er óhætt að fullyrða að virkilega vel skrifaðar glæpasögur standist þeim bókmenntum sem hærra eru skrifaðar oft fullkomlega snúning. Sögulegir reyfarar hins breska C.J. Sansoms eru einmitt af þeirri gerðinni og eru umfjöllunarefni mitt í dag.
Rithöfundarferill C.J. Sansoms er um margt óvenjulegur – ef ekki fyrir annað en hversu seint hann hóf skriftir. Hann er fæddur í Edinborg í Skotlandi 1952 og hóf nám í sagnfræði þótt að skriftir hefðu alltaf blundað í honum. Hann tók doktorspróf í sögu en settist síðar aftur á skólabekk og lærði þá lögfræði. Hann hafði svo unnið sem lögfræðingur í mörg ár þegar honum hlotnaðist lítill arfur og ákvað að taka sér ársleyfi frá störfum til skrifta. Útkoman var skáldsagan Dissolution – fyrsta sagan í hinum stórskemmtilega bókaflokki um kroppinbakinn Matthew Shardlake, sem leysir ráðgátur á tímum Hinriks VIII í Englandi. Dissolution kom út árið 2003 og til að gera langa sögu stutta þá sló hún svo rækilega í gegn að Sansom hefur starfað sem rithöfundur síðan.
Hann býr þó vissulega að menntun sinni því skáldsögurnar byggja á sagnfræðilegum grunni og fyrir þriðju bókina um Shardlake, Sovereign, settist Sansom aftur í fræðimannastólinn þegar hann lagðist í mikla heimildarvinnu um fræga ferð Hinriks VIII til norðurhluta Englands árið 1541. Sagnfræðingum ber ekki saman um ýmis atriði fararinnar en í Sovereign má lesa kenningar Sansoms. Hann gerði reyndar gott betur og birti líka fræðigrein um niðurstöður sínar. En lögfræðin spilar einnig stóra rullu í bókaflokknum þar sem persónan Shardlake er einmitt málafærslumaður. Sansom segir sjálfur í viðtali að þótt hann sé hættur að starfa sem lögfræðingur þá þyki honum lögfræðin sem slík enn ákaflega heillandi og í skáldsögunum verði lögfræðin Shardlake í raun skjól rökvísi og reglu í heimi sem ekki er síður kaótískur og flókinn en nútíminn.
Fyrsta bókin heitir, eins og áður segir, Dissolution sem gæti útlagst sem upplausn á íslensku. Nafnið vísar til upplausnar bresku klaustranna á árunum 1538-1541 að undirlagi Hinriks VIII og hægri handar hans Thomas Cromwells. England hefur sagt skilið við Páfann í Róm og konungurinn er nú æðsti yfirmaður kirkjunnar. Næst á dagskrá er að gera biblíuna aðgengilega öllum (á ensku) og afnema forréttindi klaustranna og um leið spillingu þeirra og gríðarlega auðsöfnun. En það er einmitt í klaustri sem atburðir sögunnar gerast þegar maður konungsins, ráðinn til að loka klaustrinu, finnst myrtur.* Shardlake er sendur á vettvang – enda einn af fylgismönnum Cromwells og trúir heitt á breytingarnar sem eiga að fylgja hinum svokölluðu Umbótum. Í gegnum atburði bókarinnar neyðist hann hins vegar til að horfast í augu við að Umbæturnar hafa sínar skuggahliðar. Í ástandi upplausnar eru það oftar en ekki valdagráðugir tækifærissinnar sem fljóta ofan á og hinn mikli auður klaustranna færist ekki til fátæklinganna heldur rennur að mestu til manna við hirðina sem kóngur hefur keypt til stuðnings við sig. Meðan snjónum kyngir niður úti fyrir hliðum klaustursins týna munkarnir svo tölunni einn af öðrum – og enginn er öruggur í sæti sínu – ekki einu sinni konungurinn sjálfur.
Of langt mál er hér að útlista margslungnar og bráðskemmtilegar sögulýsingar Sansoms en óhætt er að fullyrða að honum takist sérlega vel upp í því að gæða söguna lífi og láta aldrei þekkingu sína á staðreyndum þvælast fyrir fléttunni. Þvert á móti er hann einstaklega slunginn við að lýsa andrúmslofti og daglegu lífi án þess að nokkurn tímann mata lesandann á upplýsingum.
Í annarri bókinni – Dark Fire eða „Svartur eldur“ er sögusviðið svo stórborgin London og þar er Sansom á heimavelli. Hann gjörþekkir augljóslega London 16. aldarinnar og dregur upp svo lifandi myndir að lesandanum finnst hann hreinlega ganga með Shardlake gegnum óþefinn í slátarahvefinu á heitum sumardegi eða setjast með honum inn á krá í einn öl – því þarna leggja fáir líf sitt í hættu með því að drekka vatnið sem iðulega er mengað. Lesandanum til yndisauka má svo finna 16. aldar kort af London fremst í bókinni og þar má rekja sig gegnum borgina og sjá að margar götur standa enn og voru jafn fjölfarnar fyrir 500 árum og þær eru í dag. Á tímum Shardlakes stóðu borgarmúrarnir enn og hliðum er lokað á kvöldin svo það kemur sér vel að vera í fylgd lögfræðings sem getur gengið óáreittur í gegn þótt næturhúmið færist yfir.
Það er þó ekki tekið út með sældinni að vera í sporum Shardlakes – hann er eins og áður sagði krypplingur og kryppan veldur honum bæði andlegum og líkamlegum sársauka. Hann er litinn hornauga af samfélagi sem trúir því að ytra byrði líkamans sé birtingarmynd hins innra. Hjátrúin er líka mikil og margir trúa því að það boði ógæfu að mæta krypplingi (á meðan það boðar víst gæfu að snerta dverg.) Hann fær sára verki í bakið þegar hann er undir álagi og verkirnir gera hann svo aftur skapstyggan og ergilegan. En að sama skapi er það kryppunni að þakka að hann er sá maður sem hann er – án hennar hefði hann væntanlega tekið við býli föður síns og mögulega aldrei yfirgefið sína heimasveit. Shardlake er mjög sannfærandi karakter og lesandinn fylgist með því hvernig hann þróast frá baráttuglöðum talsmanni málstaðar yfir í lífsþreyttan og jafnvel trúlausan mann sem gerir hvað hann getur að sigla milli skers og báru í heimi þar sem oftar en ekki bjóðast tveir kostir og báðir slæmir.
Þótt heimurinn sem lýst er sé ótrúlegur og um margt ólíkur samtímanum er hann um leið ákveðinn spegill nútímans. Væntanlega er það engin tilviljun að Sansom beinir kastljósinu að því hvernig 16. öldin skiptir fólki í hópa eftir trúarstefnu og margir eru tilbúnir til að fremja voðaverk í nafni guðs síns. Í fjórðu bókinni – Revelation eða „Opinberun“ er það einmitt hin umdeilda Opinberunarbók og ólíkar túlkanir hennar sem eru í brennidepli. En það er ekki síður flókið að átta sig á hvaða veraldlega leiðtoga á að fylgja í landi þar sem uppreisnir krauma sífellt undir yfirborðinu. Venjulegt fólk gengur eins og á glerbrotum milli stríðandi fylkinga og veit oft varla í hvorn fótinn það á að stíga. Sansom dregur ekki taum einnar stefnu umfram annarrar – við kynnumst skynsömu fólki og hættulegum öfgamönnum úr öllum áttum. Hjarta sögunnar er þó án efa skynsemin í formi Shardlakes - sem er að mörgu leyti nútímamaður – leiðsögumaður okkar í framandi heimi. Hann hefur reyndar verið gagnrýndur fyrir að vera of nútímalegur í hugsun en Sansom sjálfur hefur litlar áhyggjur af því og staðhæfir að þessi tími hafi í raun verið fæðing upplýsingar og húmanisma og afstaða Shardlakes til lífsins því langt því frá út í hött. Shardlake hafi kannski ekki verið til – en hann hefði getað verið til akkúrat á þessum tímapunkti og það er nóg – bæði fyrir Sansom – og mig.
Bækurnar eru þó ekki gallalausar – í margbreytilegu mannlífi bókanna rekst Shardlake á sárafáar konur- yfirleitt bara eina eða tvær í hverri bók. Auðvitað mætti segja að piparsveinn eins og hann umgangist konur lítið og að allir í opinberum stöðum séu vitaskuld karlmenn. En hann er til dæmis með ráðskonu gegnum allar bækurnar sem við fáum aldrei að kynnast – hún er bara þarna - formlaus, eldri kona á jaðri sögunnar – sem er enn meira áberandi af því annað þjónustufólk eins og t.d. tveir vikapiltar verða fremur skýrar persónur. En persónusköpun er ekki sterkasta hlið bókanna - Sansom er ekki þeirri gáfu gæddur að draga upp litríka persónu í örfáum dráttum.
En hér er hins vegar svo margt annað sem kemur í staðinn að það væri fásinna að ergja sig á slíku. Persóna Shardlakes er gríðarlega skemmtileg og sögusviðið meistaralega vel gert. Andrúmsloft bókanna er svo magnað að stundum er hálfgert átak að snúa aftur til nútímans ef t.d. síminn hringir. Þar fyrir utan eru sögurnar hörkuspennandi og Sansom verður betri með hverri bók. Sú fyrsta Dissolution er hægust og kannski örlítið stirð (enda fyrsta bók höfundar) en þó ómissandi í flokknum þar sem hún leggur grunninn að bæði persónu Shardlakes og þeim heimi sem skapaður er. Svo er líka skemmtileg tilbreyting að lesa spennusögur þar sem notast er við sendiboða með innsigluð bréf í stað gemsa og eltingaleikir upp á líf og dauða fara fram á hestum en ekki bílum. Þannig að – ef einhver á örfáa daga eftir af sumarleyfinu og vantar skemmtilega lesningu þá mæli ég hiklaust með félagsskap Shardlakes – en reyndar á hann ekki síður vel við á dimmum haustkvöldum! Góðar stundir.
(Pistillinn var áður fluttur í Víðsjá í ágúst.)
- - - - - - - - - - -
* Ef einhver er að hugsa að svona klausturmorð minni á The Name of the Rose eftir U. Eco þá er það engin tilviljun og Sansom er meira að segja með smá „inside joke“ sem vísar í þá bók.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli