Það er mjög skrítið að heyra línur, sem maður hefur heyrt svo ótalmörgum sinnum áður, í sínu upprunalega samhengi. Það gefur manni (falska) tilfinningu fyrir því að eitthvað mikilvægt sé að gerast og maður verður rosalega kátur.
Mér finnst mjög áhugavert að pæla í því hvernig akkúrat þetta fyrirbæri hefur áhrif á lestur. Hvernig les maður til dæmis fyrstu línur Önnu Kareninu, þegar maður hefur heyrt eða lesið þær oft áður í öðru samhengi? Og hvernig upplifum við magðalenukökudýfingar Prousts þegar hefur heyrt um þær mörgum sinnum áður en maður kemst í að lesa Í leit að glötuðum tíma? Svörin við þessu eru eflaust mjög einstaklingsbundin (en margir fá örugglega þessa tilfinningu fyrir mikilvægi þess sem þeir eru að gera, sem ég minntist á hér að ofan).
Um daginn las ég leikrit sem mig hefur lengi langað að lesa. Eða réttara sagt, sem mig hefur langað til að lesa síðan ég kynntist druslubókadömunni og skáldinu Kristínu Svövu (sem tekur þátt í bókmenntahátíðinni sem er nú í fullum gangi og les t.d. í bókmenntagöngu í kvöld). Kristín kynnti mig nefnilega fyrir Simpsonsþættinum „A Streetcar Named Marge“. Ég leyfi mér að fullyrða að sá þáttur sé meðal fyndnustu Simpsonsþátta sem gerðir hafa verið. Verkið sem verið er að setja upp í þættinum er auðvitað A Streetcar Named Desire eftir Tennessee Williams. Leikritið er dúndurgott, en það er einmitt eitt af þessum verkum sem maður hefur oft heyrt frægar línur úr í popp-menningunni, þá kannski helst hróp Stanleys: „Stella! Stella!“ og fræg orð Blanche DuBois: „I have always depended on the kindness of strangers“.
Þótt það sé auðvitað virðingarvert að lesa leikrit til þess að kunna betur að meta Simpsonsþátt sem maður heldur upp á, verð ég að mæla með því að þið lesið Streetcar áður en þið sjáið þáttinn (svo verðið þið samt að sjá þáttinn, lofið mér því). Aðalástæður þess eru að þátturinn er mjög fyndinn og lögin í honum grípandi (leikritið er sett upp sem söngleikur), en sjálft leikritið er hádramatískt og tekur m.a. á mjög alvarlegum vandamálum tengdum kynhneigð, kyni og stétt. Það verður að viðurkennast að það að sjá Ned Flanders alltaf fyrir sér í hlutverki Stanleys, dregur örlítið úr alvarleika atburðarásarinnar (ég fór t.d. óvart að raula: Stella! STELLLAAAA! Can't you hear me YELLA! You're puttin' me through HELLA! Stella... STELLLAAAA!).
Jæja, nú er ég búin að skipuleggja svona eins og einn eftirmiðdag fyrir ykkur. Lesið leikritið A Streetcar Named Desire og horfið á svo Simpsonfjölskylduna (og kannski Vivien Leigh- og Marlon Brando-myndina líka). Þið megið líka benda mér á góðar samsetningar bóka, kvikmynda og sjónvarpsþátta í kommentakerfinu ef þið nennið.
6 ummæli:
Ég las leikritið og horfði á myndina í MH og man að mér fannst Marlon Brando heitari en heitt. En ég á eftir að horfa á Simpsons-þáttinn. Og önnur svona lína sem ég held að sé mikið notuð í öllu mögulegu: "The horror, the horror."
Gott er það var ekki bara Marlon Brando sem flutti hana líka upprunalega.
Ned Flanders sem Stanley! Þú ert að grínast!
Marlon Brando aðdáandi.
Ég mæli hiklaust með því að lesa Othello eftir Shakespeare og horfa svo á Homicidal Ham þáttinn úr Staupasteini (öðru nafni Cheers)þar sem Diane og fyrrverandi fangi setja upp atriði úr leikritinu á barnum...classík!
Maríanna
Það eru náttúrulega ótal svona dæmi í Simpsons. T.d. er annar af uppáhaldsþáttunum mínum byggður á Cape Fear og heitir, að mig minnir, Cape Feare. Og í A Streetcar Named Marge er líka frábær sena með vísun í The Birds eftir Hitchcock.
Annars eru Andrabækurnar vs. Vefarinn mikli frá Kasmír, og reyndar fleiri verk eftir Laxness, alltaf í uppáhaldi sem tvenna.
Þrenna! Þú getur horft á Seinfeldþáttinn „The Pen“ líka.
En ég tek undir með Hildi K., mér fannst Brando vera hotness itself á þessum árum.
Ah, gaman! Ég var búin að gleyma Seinfeld! Hef ábyggilega séð þennan þátt oftar en einu sinni, en þarf að sjá hann aftur eftir lestur á Streetcar. (Ég var svo lítil þegar ég byrjaði að horfa á Seinfeld að ég kallaði hann "Sængfeld" í dagbókinni minni).
Ég bæti Othello og Staupasteini á listann, Maríanna! Lér konungur og þriðja sería þáttanna Slings and Arrows eru þegar komin á listann minn!
Skrifa ummæli