Okkur druslubókadömum datt í hug að fá sniðugt fólk, sem við erum forvitnar um, til að svala forvitni okkar öðru hverju. Arndís Þórarinsdóttir er sú fyrsta sem við sendum nokkrar spurningar, en hún er formaður Íslandsdeildar IBBY og höfundur unglingabókarinnar Játningar mjólkurfernuskálds, sem kemur út hjá Máli og menningu í október.
Hvaða bók finnst þér allir eiga að lesa?
Það er auðvitað klisja, en Múmínálfarnir koma strax upp í hugann. Mér finnst einhvern veginn að alltaf þegar ég lesi þessar bækur finni ég eitthvað nýtt í þeim. Mögulega er það vegna þess að ég gleymi því bara jafnóðum hvað ég uppgötvaði síðast, en ég lifi í þeirri trú að það sé vegna þess að textinn sé sískemmtilegur, sama hvaðan maður kemur að honum. Ætli Eyjan hans Múmínpabba sé ekki í uppáhaldi núna. Svo ættu allir að prófa Sandman-seríu Neil Gaiman. Bæði af því að þar er á ferðinni verulega flottur skáldskapur og líka af því að þessi fræga sería er góð leið til að átta sig á því hvað myndasögur eru magnaður miðill. Og það getur breytt lestrarvenjum manns til frambúðar, sem er ekki lítill galdur.
Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig sem persónu?
Bókin sem fylgir mér alla daga er Glæpur og refsing eftir Dostojevskíj. Þó ekki vegna þess að hún hafi haft svo djúpstæð áhrif á mig (sem hún gerði svo sem, á frekar langdreginn hátt), heldur vegna þess að þegar við vorum 14 og 15 ára nemendur í Hagaskóla las besta vinkona mín bókina og ákvað að nefna allar stelpurnar í vinahópnum nöfnum úr bókinni. Sú sem var Pjotr Petrovitsj gengdi því nafni ekki lengi, en ég heiti í vissum kreðsum Dúnja til þessa dags.
Hver er versta bók sem þú hefur lesið?
Ég nenni sjaldnast að klára mjög vondar bækur – en ég get slegið um mig með því að ég ætla að nota fyrsta kaflann í ónefndri skáldsögu Danielle Steel sem kennsluefni í ritsmiðjunni sem ég stýri á Bókasafni Kópavogs næstu vikur. Hann fellur merkilega illa að öllum þeim ritlistarhugsjónum sem ég reyni að halda á lofti á ritsmiðjufundum, en eitthvað er greinilega samt að virka fyrst kerlingin selur þetta í tugmilljónum eintaka um allan heim. Það verður dálítið forvitnilegt að skoða þetta nánar.
Hefurðu orðið ástfangin af skáldsagnapersónu?
Ekki beinlínis – ætli hún komist ekki næst því, þráhyggjan sem greip mig gagnvart aðalpersónu Gauragangs, Ormi Óðinssyni, þegar ég var 12-13 ára. Ég vildi vera Ormur, yrkja ljóð og drekka brennivín og fara aðeins of sjaldan í bað. En ég held að ég hafi jafnvel þá gert mér grein fyrir því að hann væri ekki mjög gott kærastaefni.
Hvað ertu að lesa núna?
Ég var að klára bók sem ég átti uppi í hillu og hélt að ég hefði lesið fyrir löngu og ætlaði að lesa aftur. Bókin reyndist ólesin með öllu og var ansi mögnuð – heitir Gathering Light eftir Jennifer Donnelly. Frekar hefðbundin þroskasaga sem gerist árið 1906 í Bandaríkjunum, en svo listilega skrifuð að ég stóð á öndinni að lestri loknum. Ætla að leita uppi fleiri bækur eftir Jennifer þessa við fyrsta tækifæri. En áður en það gerist verð ég að drífa í því að lesa fyrsta bindið af Dalalífi sem afi minn lánaði mér, en langamma mín átti bókina og var mikill aðdáandi Guðrúnar frá Lundi. Vandinn er hins vegar sá að ég les langmest í baði en bækur á sjötugsaldri eiga lítið erindi þangað. Það miðar því hægt og fjölskylduboðin verða æ vandræðalegri þegar afi spyr spenntur hvernig mér finnist bókin.
Hvernig bók er Játningar mjólkufernuskálds og ertu búin að vera lengi að skrifa hana?
Játningar mjólkurfernuskálds er hrakfallasaga 13 ára stelpu sem var áður fyrr svo mikið fyrirmyndarbarn að hún orti meira að segja ljóð á mjólkurfernur. Þegar sagan hefst hefur hún hins vegar lent í smá klandri er varðar dópsmygl og hefur flutt úr kunnuglegum Vesturbænum í hálfbyggt úthverfi Reykjavíkurborgar. Þar reynir hún með misjöfnum árangri að venjast nýju hlutverki í tilverunni og sannfæra sjálfa sig og aðra um að hún sé orðin vandræðaunglingur. Svo er auðvitað sætur strákur, kaldhæðin vinkona, æsispennandi spurningakeppni, átök um innstu rök tilverunnar og fleira sem tilheyrir í svona sögu. Það munu líða eiginlega akkúrat tvö ár frá því að ég skrifaði fyrstu setninguna og til útgáfudags, sem er ekkert alslæmt í ljósi þess að dóttir mín var fimm mánaða þegar ég byrjaði og svo hef ég verið í fullri vinnu. Það er mikið lán að eiga lífsförunaut sem tekur að sér meira en helminginn af barnaumsjón og heimilisstörfum svo maður geti sinnt ímynduðu vinum sínum.
Hvernig líst þér á yfirstandandi bókmenntahátíð?
Dagskráin er mjög metnaðarfull og margir áhugaverðir höfundar sem láta sjá sig. Það er líka skemmtilegt að fá í búðir þýðingar á bókum sem maður hefði annars ekki lesið. Þetta var óáhugaverða og fyrirsjáanlega (en samt einlæga!) svarið, en ef ég sest í skriftastólinn verð ég víst að viðurkenna að ég efast um að gefa mér tíma til að mæta mjög stíft á viðburðina – nýt frekar afleiddra afurða í fyrrnefndu baðkari.
3 ummæli:
Mikið sammála Arndísi um Sandman. That is all.
Sniðugt að lesa í baði. Ætli það sé ekki kominn tími á að taka upp lavenderolíuna og kertaljósin...
Katla
Skrifa ummæli