Nýútkomin ljóðabók Bergsveins Birgissonar, Drauganet, hefst á tilvitnun í Dymbilvöku Hannesar Sigfússonar: Hvar ferðast þú meðal dimmviðranna / með það djásn er ég gaf þér? Á meðan ég las þetta rifjaðist upp fyrir mér að síðasta bók Bergsveins, Svar við bréfi Helgu, hefst á tilvitnun í ljóð eftir Stefán Hörð Grímsson og það ljóð er einskonar leiðarstef sögunnar. Það er því ljóst að ljóð þessara skálda eru Bergsveini hugleikin. En þegar ég fór að lesa Drauganet fannst mér ég sömu leiðis skynja að Bergsveinn er undir áhrifum af skáldskap miklu eldri skálda, enda eru dróttkvæði fræðasvið hans, og svo er hann auðvitað rækilega flæktur í nútímanum, eins og við öll.
Drauganet er býsna löng sé miðað við margar þær íslensku ljóðabækur sem koma út um þessar mundir (88 bls). Hún skiptist í nokkra hluta og fyrsti hlutinn hefur yfirskriftina: mansöngvar / teip fyrir brotna heimsmynd. Fyrsta ljóðið hefst svona:
Ég hef aldrei tekið lán
ég kaupi ekki neitt
snuðrandi kortalesarar
og launtengdar eftirlitsmyndavélar
fá hvergi sporað ferðir mínar uppi
Síðar í ljóðinu kemur fram að pósturinn heldur áfram að troða í póstkassa ljóðmælandans þótt hann sé löngu látinn og sársaukinn sé hans eina rétta heimilisfang. Hann er drauganetið í djúpinu, bæn sem leitar viðfangs milli skýjanna.
Drauganet eru net sem skip hafa misst í sjóinn en þau halda samt áfram að veiða það sem fyrir þeim verður og flækjast fyrir. Þegar ég velti fyrst fyrir mér titli bókarinnar og drauganetunum sem minnst er á í ljóðunum, hugsaði ég um fólk sem þvælist eins og drauganet um allan sjó. Síðan fór ég að hugsa um ljóðið sjálft, það má segja hálfgert drauganet sem velkist um í heimi bókmenntanna og nýtur ekki beint vinsælda hjá þeim sem hafa áhuga á hagvexti og spennu. Svo heyrði ég viðtal við Bergsvein í Víðsjá þar sem hann minntist á drauganet versus tauganet og allt efnið sem þvælist fyrir okkur án þess að við vinnum úr því og þá fór ég að hugsa um internetið og öll drauganetin þar, endalaust flæði texta- og myndefnis, facebook-statusa og bloggsíður sem svífa um þó að löngu sé búið að reyna að eyða þeim eða eigendurnir horfnir á braut.
Já, Drauganet er ansi löng ljóðabók – og þó að henni sé skipt upp í kafla, svona til hæginda og þæginda, þá finnst mér hún svolítið sundurlaus. Ljóðin eru ort á löngum tíma (Bergsveinn sagði það í fyrrnefndu viðtali við Þorgerði) og yrkisefnin mjög fjölbreytt, ég ætla ekki að koma með upptalningarrunu hér (farið og kaupið bókina og lesið hana!) en lesandinn fær ansi stóran skammt af ljóðum á einu bretti. Auðvitað má alveg segja það gott, meira fyrir peninginn. En ég er svo mikill vertíðarþræll í andanum að ég spændi mig í gegnum bókina á einu bretti og fannst ég hafa étið yfir mig. Mitt lúxusvandamál alltsvo, það má að sjálfsögðu alveg lesa eina og eina setningu í einu og treina sér bókina í allan vetur.
Á þessari stundu höfðar lokakaflinn, sem segja má að sé persónulegastur, best til mín. Þar er mátulega mikil kaldhæðni - reyndar mjög mikil - en samt ákveðinn hlýleiki, svona eins og í baðstofu í gamla daga (nú er ég að ímynda mér notalega baðstofustemningu, en þar hefur fólk vísast alveg verið að drepa hvert annað úr leiðindum) þar sem menn voru hryssingslegir hver við annan þó að þeir elskuðu í raun hvert einasta bein í baðstofufélögunum. Þarna er eilíft stríðið við hvunndaginn mjög sýnilegt; týndur tannbursti, einhver að setja í uppþvottavél og einhver annar er skammaður, en samt er þarna ást, já og fullt af drauganetum.
Ef ég set ljóðin í Drauganetum í samhengi við ljóð annarra nútímaskálda þá detta mér í hug ljóð Gyrðis Elíassonar og Ingólfs Gíslasonar. Í Drauganetum talar bölsýnismaður sem er ekki æpandi einhverja rassvasapeki um að allt í heiminum sé í örum framförum og að það skipti ekki máli hvar við séum stödd heldur hvert við séum að fara. Þarna talar einhver sem fær mann til að hugsa um hvað nútíminn sé um margt klikkaður og bent er á hið smáa í lífinu, oft með því að vísa langt aftur eða í eitthvað mjög óskylt og ósýnilegt í okkar daglega veruleika. Skáldið fer víða, þjóðararfurinn, náttúran og bæði fornmenn og skáld síðustu aldar eru þarna einhversstaðar í og á milli línanna, en ljóðin í Drauganetum eru samt á öðru plani en skáldskapur fyrirrennarra Bergsveins og hann er líka innblásinn af annarri fagurfræði, sem er auðvitað miklu nútímalegri. Staða skáldsins, tilvistarpælingar og veruleikabömmer þess sem þarf að réttlæta það að gera það sem hann er að gera, má lesa út úr mörgum ljóðanna. Þetta má mögulega segja sígilt efni í ljóðum margra nútímaskálda, sem yrkja höfuðlausnir sem enginn tekur eftir, á meðan Höfuðlausnin eina og sanna var sjálfsagður skáldskapur sem hafði tilætluð áhrif .
Ég lýk þessu á örlitlu sýnishorni:
Af hverju læsi ég alltaf húsinu
á kvöldin?
mín vegna mætti þjófur koma og fjarlægja allt innanstokks hér
ég er leiður á því öllu saman
sjónvarpið mætti hann byrja á að taka
(það væri þrifnaðarsýsla)
og útvarpið svei mér þá líka
diskana mína alla
nema kannski nokkur Bach-verk
og örfá Requiem sem ég hef safnað
bækurnar - allar saman
eða, kannski ég héldi nokkrum ljóðabókum
(Vallejo, Mandelstam, Dante)
og gamalli útgáfu af Heimskringlu
en íslensku fornritin mætti hann taka öll
og skáldsögurnar eins og þær leggja sig
(kannski ég myndi halda Eglu og Laxdælu)
Mér finnst Drauganet mjög fín bók – þetta hér að ofan er (hálfloðið) meðmælabréf.
1 ummæli:
Hlakka til að lesa þessa.
Ný kategóría: gular ljóðabækur? Þessi, Niðurfall Hauks Ingvarssonar...og Bónusljóð? Sú síðastnefnda er í aðeins öðruvísi gulum tón.
-Kristín Svava
Skrifa ummæli