
Okkur Bryndísi tengja fjölmargir þræðir og ég hef fylgst með henni í nokkur ár og fundist alveg borðleggjandi að það kæmi að því að hún fengi verðskuldaða athygli og viðurkenningu fyrir einhver af sínum góðu verkum. Um leið og ég óskaði Bryndísi til hamingju með verðlaunin og nýju bókina dembdi ég á hana nokkrum spurningum.
Ég veit að þú ert ekki alveg ný í barnabókabransanum, á nýja bókin eitthvað sameiginlegt með Orðabelg Ormars ofurmennis, bókinni sem þú skrifaðir fyrir mörgum árum?
Til að byrja með. Ég fyllist óöryggi þegar það kemur að umræðu um bókmenntir. Þess vegna er svo fínt að hafa fólk eins og ykkur sem maður getur lesið og reynt að skilja umræður og umfjallanir um bókmenntir í gegnum. Ég hef lítið lesið um bókmenntir en áhugi minn er fyrst og fremst að reyna að koma tilfinningum og hugsunum í orð, að koma einhverjum böndum á hvort tveggja, og deila með öðrum. Ég held þess vegna að Flugan og Ormar eigi ýmislegt sameiginlegt því báðar bækurnar eru tilraunir mínar (og Auðar Magndísar vinkonu sem skrifaði með mér Ormar) til að tjá mig um eigin upplifun af heiminum, hlæja og deila áhyggjum og gleði með öðrum. Ég vona að báðar bækurnar séu skemmtilegar. Ég sagði við Egil Helgason þegar hann spurði að því sama að ég héldi að Ormar væri léttur og fyndinn en Flugan þung og fyndinn. Kannski þyngslin í seinni bókinni séu þroskamerki. Hvort sem það má teljast gott eða slæmt.
Hvað varstu að gera allan tímann sem leið á milli Orðabelgs Ormars ofurmennis og nýju bókarinnar?

Þú skrifaðir barnabók? Hvers vegna? Viltu segja eitthvað um stöðu barnabókarinnar?
Ég skrifaði barnabók kannski af því að mér líður enn eins og ég hafi ekki næga reynslu af lífinu sem fullorðin manneskja. Mér finnst svo margar fullorðinsbækur fjalla um angist, svefnörðugleika, hjákonur, viskí og lífsþreytu. Ég hef enginn kynni haft af síðustu þremur þáttunum. En auðvitað er ég fullorðin núna, og auðvitað getur maður, eins og Páll Baldvin benti á í síðasta þætti Kiljunnar, skrifað um eitthvað annað en ofantalið – um líf ungra kvenna, sem einnig er mikilvægt að varpa ljósi á. Ég hef eiginlega ekkert að segja um stöðu barnabókarinnar því ég hef ekki skoðað hana. Hinsvegar finnst mér gaman að lesa barnabækur því þær eru oft svo hispurslausar og fyndnar. Ég hef minna gaman af barnabókum sem virðast vera fyrst og fremst einhverskonar siðaboðskapur – þær gera oft ekki ráð fyrir því að börn séu nú þegar að velta fyrir sér heiminum og búi yfir ákveðinni reynslu af honum. Ég held mikið upp á Ole Lund Kirkegaard sem dó á afmælisdaginn minn. Og Bert-bækurnar voru einnig lengi vel í miklu uppáhaldi. Mér finnst Bert-bækurnar gott dæmi um bækur sem gera ráð fyrir að börn hafi upplifað hitt og þetta, og því sé hægt að grínast með veruleika þeirra og setja hann í nýtt samhengi.
Aðalpersónur nýju bókarinnar eru óvenjulegar, hvers vegna flugur?
Af því að þær sjá okkur mannfólkið með sínum margbrotnu og glöggu húsfluguaugum. Þær búa með okkur. Nóttin hefur auk þess augu eins og fluga.
Nú ertu búin að gefa út fleiri en eina bók, ertu í Rithöfundasambandinu eða ætlarðu að sækja um?
Ég hef ekki enn skoðað hvort það borgi sig. Mig langar samt að vera í stéttarfélagi. Þau eru töff því þau gefa manni kost á einhverjum sumarbústuðum til útleigu, þau reyna að verja vinnandi fólk fyrir ágangi kapítalistanna og halda auk þess jólaböll.
Hvaða bók finnst þér allir eiga að lesa?
Ég var hrifin af Biblíunni sem barn, og nú í seinni tíð er ég ánægð að hafa lesið hana því mér finnst hún hafa hjálpað mér að skilja menningarástand okkar og mannkynsöguna. Sem barni fannst mér líka sniðugt – en einnig óréttlátt – að kona Lots hafi breyst í saltstólpa, sem ég sá alltaf fyrir mér annaðhvort sem saltstauk eða saltstöng, þegar hún flúði Sódómu og lét um öxl til að kanna aðstæður. Nói varð að alka að mig minnir eftir syndaflóðið og svo hefur mér alltaf þótt dálítið vænt um Júdas af því að hann þurfti að fórna sjálfum sér til að Jesús kæmist á krossinn og gæti þar með fyllt upp í hlutverk sitt sem frelsari vor(s og blóma). Ég er svo meinstrím hvað uppáhalds bækur varðar að ég held að það yrði mér til ófrægðar að telja upp fleiri bækur. Eins og það sé ekki nógu slæmt að Biblían komi fyrst upp í hugann.
Með hvaða íslenskum rithöfundi værirðu til í að deila rommflösku eða vínarbrauðslengju?
Ég þekki þá svo fáa og er með væga félagsfælni í þokkabót – enda ekki búin að mæta á jólaball hjá rithöfundasambandinu. Rommflaska með einhverjum öðrum en þeim sem ég kannast nú þegar við finnst mér martraðarkennd tilhugsun. Því verð ég að segja: Rommflöskunni myndi ég vilja deila með Kristínu Eiríksdóttur sem sendi frá sér frábært smásagnasafn á síðasta ári, Doris deyr. Vínarbrauðslengjan yrði stíluð á Hauk Ingvarsson af því að mér finnst hann drengur góður, auk þess kemur hann úr sama hverfi og ég. Við getum talað um FH, römbur og bókina hans sem er að fara að koma út á næstu vikum og heitir Nóvember 1976. Ég hef nú þegar lesið hana og mér finnst hún mjög góð.
Er ekki alveg öruggt að þú sért bara rétt að byrja og ætlir að skrifa 73 bækur eins og okkur Druslubókadömunum finnst að þú eigir að gera?
Haha, nei. Ekki 73 bækur. Ekki séns. Þið getið gleymt því.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli