18. september 2011

Dularfyllsti rithöfundur Íslands? Viðtal við Stellu Blómkvist

Ég er hrifin af reyfurum. Ég tók, einsog margir skilst mér, tímabil þegar ég lá bókstaflega í þeim. Mig minnir það hafi verið þegar ég var að klára 10. bekk og að byrja í menntaskóla, og meðal bókanna sem ég las voru þónokkrar bækur eftir (og um) Stellu nokkra Blómkvist.

Einhvernveginn svona ímynda ég mér að Stella líti út.



Og allar götur síðan hef ég mikið brotið heilann um hver haldi um pennann og skrifi sögurnar um lögfræðinginn og ofurtöffarann Stellu. Ég hef rætt þetta í þaula við ólíklegasta fólk og kjamsað á nokkrum misgóðum kenningum, en aldrei hef ég komist til botns í málinu.

Þegar Stella Blómkvist poppaði svo upp á Facebook hjá mér um daginn (við eigum nokkra sameiginlega vini) þá ákvað ég að prófa að senda henni línu og spyrja hvort hún væri til í að svara nokkrum spurningum fyrir síðuna.

Ég bjóst svosem ekki við því að hún myndi ljóstra upp hver hún er, en það sakaði ekki að reyna.

Stella tók vel í beiðnina og svaraði mér um hæl.


****
- Hver er Stella Blómkvist?
„Stella er einstæð og engri lík. Þýska dagblaðið Frankfurter Rundschau skrifaði að hún væri „dásamlega öðruvísi glæpasagnastjarna.“ Það passar. Ég skrifaði fyrstu söguna bara að gamni mínu. Velti því ekkert fyrir mér á þeim tíma hvort hægt yrði að fá hana gefna út. Vissi reyndar að útgefendur höfðu þá engan áhuga á íslenskum glæpasögum, þótt það yrði nokkrum árum síðar helsta tískan. Mig langaði til að skrifa nýstárlega og skemmtilega spennusögu sem gerðist í íslensku umhverfi. Sögu sem væri allt öðruvísi en fyrri sakamálasögur íslenskra höfunda. Mér var ljóst frá upphafi að lykillinn að þeirri sögu yrði að vera óvenjuleg söguhetja. Eftir nokkrar vangaveltur, og ýmsar tilraunir, stóð Stella Blómkvist mér fyrir hugskotssjónum í allri sinni dýrð. Bráðlifandi og herská. Frjáls og sjálfstæð. Með fastmótaða skapgerð og áberandi kosti og galla. Mér fannst strax liggja í augum uppi að hún ætti að fá að segja sögu sína sjálf undir eigin nafni. Og þannig varð það þegar fyrsta sagan kom út, enda er Stella alfa og omega bókanna. Hún ræður ferðinni frá fyrstu blaðsíðu til þeirrar síðustu. Beinskeyttur og harðsoðinn frásagnarstíllinn er valinn vegna þess að hann er í samræmi við skapgerð Stellu. Hún sér, talar, hugsar og framkvæmir það sem gerist í sögunum. Þetta eru hennar sögur. Mér fannst mjög gaman að skapa þessa sérstæðu söguhetju. Og hef gaman af að skrifa um hana nýjar sögur. Þess vegna er Stella Blómkvist enn í fullu fjöri.“

- Áttu einhverjar uppáhaldsbækur eða uppáhaldshöfunda? 
„Ég hef lesið mikið af skáldsögum eftir erlenda höfunda, þar á meðal glæpa- og spennusögur. Margir þeirra eru flottir sögumenn. Læt nægja að minna á Simenon og Highsmith, Hammett og Chandler, Ellroy og Greene. Fjögur þeirra eru bandarísk, einn er breskur og einn franskbelgískur. Ég er sem sagt meira fyrir bandarískar sakamálasögur en sænsku hefðina. Mér finnst gaman að lesa sögur sem bjóða upp á hraða atburðarás, litríkar söguhetjur og gagnrýna afstöðu til þeirra í samfélaginu sem berjast til auðs og valda af sömu græðgi og grimmd og rándýrin í Afríku. En af einstökum bókum kíki ég oftast í ljóðasafn Sylvíu Plath. Bandarísku skáldkonunnar sem dó ung og yfirgefin af eiginmanni sínum í vetrarkuldanum í London árið 1963. Andi hennar lifir enn: „Out of the ash / I rise with my red hair / and I eat men like air.“ Dásamlegt!

- Heldur þú að íslenska glæpasagnabylgjan sé að fjara út eða bara rétt að byrja? 
„Bylgjan fór hægt af stað. Fyrstu bækur okkar Arnaldar komu út árið 1997. Það var fyrst nokkrum árum seinna sem flóðið brast á. Komu ekki tíu glæpasögur út eitt árið? Þær eru færri núna. En nokkrir höfundar senda reglulega frá sér nýjar sögur. Á því verður engin breyting næstu árin. Sumir höfundar munu heltast úr lestinni eins og gengur en aðrir bætast í hópinn. Þetta er alls ekki búið spil.“

- Með hvaða íslenska rithöfundi myndir þú helst vilja deila viskíflösku?
„Vigdísi Grímsdóttur. Engin spurning. Hún er fyrsta flokks!“

- Ef þú mættir velja eina skáldsagnapersónu til að eyða nótt með, hverja myndir þú velja?
„Frábær spurning! Sem erfitt er að svara. Úrvalið er svo mikið. En Stella Blómkvist gæti jafnt fallið fyrir ofurhetjunni í Njálu og Hallgerði hárprúðu konu hans, mögnuðustu kvenhetju íslenskra bókmennta. Heyrðu annars: Væri þetta ekki flottur bókmenntalegur þríkantur?“

- Nú hefur töluvert verið þrasað um nafnleysi á internetinu og margir vilja jafnvel útrýma því. Hvað finnst þér um þá umræðu og réttinn til nafnleysis? Hefur það einhvern snertiflöt við þá sem kjósa að skrifa bækur undir dulnefni? 
„Það er löng hefð fyrir því að skrifa skáldsögur undir dulnefni. Ég get nefnt jafn ólíka höfunda og Jón Trausta, Bugða Beygluson, John le Carre, Ruth Rendell, Richard Bachman, Mary Westmacott, Jack Higgins, Ed McBain, Barbara Vine, Anne Rice og Bo Balderson. Tvennt er þó ólíkt með Stellu og flestum öðrum höfundum sem skrifa undir dulnefni: Hún ber sama nafn og söguhetjan. Og nafnið á bak við höfundinn hefur ekki verið staðfest opinberlega (það á reyndar líka við um Bo Balderson sem er löngu dáinn). Í mínum huga vekja nafnlaus skrif á netinu fyrst og fremst spurningar um ábyrgð. Mér finnst sjálfsagt að leyfa öllum að koma skoðunum sínum á framfæri. Því fleiri sem skrifa því betra. En sá sem skrifar verður að bera ábyrgð á orðum sínum ef hann meiðir samborgara sinn. Annað er lögmál frumskógarins.“

- Það hafa verið uppi margar tilgátur um það hver standi á bakvið Stellu Blómkvist. Hver fannst þér vera skemmtilegasta tilgátan? Og hefurðu gaman að því þegar fólk veltir þessu fyrir sér eða ertu hrædd um að upp um þig komist?
„Halldór Guðmundsson stýrði Máli og menningu þegar fyrsta Stellusagan kom út fyrir jólin 1997. Hann taldi gott ef honum tækist að varðveita leyndarmálið um höfundinn í þrjá mánuði þar sem allt fréttist á Íslandi. Ég átti því ekki von á öðru. En höfundurinn var enn óþekktur þegar næsta saga var klár árið 2000. Það kom okkur báðum á óvart. Og okkur þótti sjálfsagt að halda leiknum áfram. Staðan er eins núna, fjórtán árum eftir að fyrsta sagan birtist. Ótrúlegt en satt! Ein ástæðan er líklega sú að fjölmiðlamenn fóru strax að elta skugga. Fyrstu árin voru það Stefán Jón Hafstein og Árni Þórarinsson. En margir rithöfundar og pólitíkusar fylgdu í kjölfarið. Skemmtilegasta tilgátan var auðvitað Davíð Oddsson, því þá stjórnaði hann landinu með harðri hendi, en skrifaði líka smásögur. Ég hef stundum haft gaman af þessum vangaveltum. En aldrei áhyggjur. Enda átti þetta bara að vera leyndarmál til skamms tíma. Stellu Blómkvist hefur vegnað bærilega úti í hinum kalda heimi. Bæði hér heima og í Þýskalandi. Hún hefur ekkert þurft á höfundi að halda. Þess vegna hef ég ekki séð ástæðu til að eiga frumkvæði að því að upplýsa hver stýrir penna hennar. Ætli ég láti það ekki bíða úr þessu þar til Stella Blómkvist kveður með sinni síðustu bók.“

- Finnst þér ekkert leiðinlegt að geta ekki mætt á bókmenntahátíðir og lesið upp?
„Nei, mín ánægja felst í því að skipuleggja og skrifa bækurnar. Mér finnst gott að sleppa við allt það umstang sem fylgir kynningu og sölu bóka.“

- Eru fleiri bækur á leiðinni?
„Já, ég hef skilað inn handriti að sjöundu Stellusögunni. Hún á að koma út snemma á næsta ári. Ég ætlaði að skrifa þessa sögu þegar Morðið í Rockville kom út árið 2006, en lífið tók aðra stefnu. Í nýju bókinni lendir Stella í harðvítugum átökum við fjárglæframenn og valdapólitíkusa í kjölfar bankahrunsins. En henni tekst líka í leiðinni af afhjúpa gömul leyndarmál sem falin hafa verið í áratugi á bak við múra valdsins. Verður þessi sjöunda Stellusaga sú síðasta? Kannski. Því sjö er falleg tala. En kannski ekki.“

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er Þórunn Valdimarsdóttir.

Nafnlaus sagði...

Hvaðan hefur Stella það að Bo Balderson sé dáinn? Það hefur aldrei verið staðfest: http://sv.wikipedia.org/wiki/Bo_Balderson

Nafnlaus sagði...

Súsanna Svavarsdóttir

Nafnlaus sagði...

Guðbergur Bergsson