Ég er nýkomin af ráðstefnu í Mílanó þar sem ég leigði um vikutíma ásamt vinkonu minni íbúð sem fundin var gegnum auglýsingu á netinu. Ég hafði heldur betur hugsað mér gott til glóðarinnar að fá efni í ítalskan þátt fyrir gististaðabókasafnaseríuna en nú er svo komið að þessi færsla fjallar meira um ýmislegt sem tengist ekki bókahillunum í íbúðinni nema óbeint. Meðal annars var ég of upptekin við að sækja ráðstefnuna og njóta Mílanódvalarinnar til að geta lagst í einhverjar rannsóknir á bókunum í íbúðinni. Auk þess voru þær flestar á ítölsku, sem ég get ekki lesið mér til nokkurs gagns. Því býð ég hér ekki upp á neina djúpa umfjöllun um bækurnar í hillunum við via Pavia, en minnist samt lauslega á einhverjar þeirra.
Hillan í borðstofunni á via Pavia |
Íbúðin sem við leigðum reyndist enn flottari en myndirnar í auglýsingunni höfðu gefið til kynna og í henni býr greinilega fólk sem lepur ekki dauðann úr skel. Húsráðendur eru hjón með eins og hálfs árs gamalt barn (og barn númer tvö á leiðinni eins og vera ber) og greinilega miklir mínímalistar þar sem söfnun á dóti er annars vegar. Bókahillurnar bera þess merki; þær voru ekki margar. Ein hilla var í borðstofunni og í hjónaherberginu voru tvær hillur felldar inn í vegginn með einhverjum smáslatta af bókum. Þar með er bókakostur heimilisins upptalinn. Við meðleigjandinn furðuðum okkur mikið á því framan af að finna hvergi neinar barnabækur og vorum við satt að segja farnar að óttast um andlega framtíð barnsins og tilvonandi systkinis þess. Það var því glatt á hjalla þegar meðleigjandinn ólétti, sem hafði hreiðrað um sig í barnaherberginu, hrópaði upp yfir sig á þriðja degi: „Ég fann fjórar barnabækur!“ En fjórar barnabækur eru svo sem ekki neitt, neitt. Mínímalisminn réði líka ríkjum í barnaherberginu, þarna var sáralítið af leikföngum.
Í eldhúsinu var sem betur fer eitthvað af nauðsynlegum áhöldum, til dæmis tappatogari sem tók mig þó talsverðan tíma að finna fyrsta kvöldið. Hið stórmerkilega var þó að þarna var hvergi neitt sem nota mátti til kaffigerðar. Engin kaffivél af neinu tagi og engin mokkakanna eða pressukanna eða nokkuð slíkt. Á bakkanum sem húsráðendur höfðu skilið eftir fyrir okkur með því helsta til morgunverðarneyslu voru hins vegar tvær krukkur af Neskaffi, önnur með venjulegu kaffi og hin með koffínlausu. Og þetta var á Ítalíu! Líklega er best að hafa sem fæst orð um þetta.
Svo vikið sé nú eitthvað að bókakostinum þá gaf hann eftirfarandi til kynna: Húsráðendur (þ.e. þeir húsráðenda sem komnir eru á legg) hafa talsverðan áhuga á fagurbókmenntum og lesa þær helst á móðurmáli sínu. Þeir hafa ferðast til Bandaríkjanna og kaupa gjarnan ferðamannahandbækur. Annar húsráðenda er ljósmyndari en hinn er einhvers konar safnafræðingur eða listfræðingur. Auk ljósmyndabóka í hillum og gamalla myndavéla var íbúðin prýdd myndum sem ljósmyndarinn hafði tekið af konu sinni og þessar myndir vöktu athygli okkar. Í barnaherberginu héngu þær uppi, heil sería af nakinni konu með stóra óléttubumbu, liggjandi á gólfinu seiðandi á svip. Í stofunni héngu tvær stórar ljósmyndir af sömu konu kviknakinni, greinilega teknar áður en hún hófst handa við fjölgun mannkyns.
Ef ég leigi einhvern tímann ókunnugum íbúðina mína ætla ég að skilja eftir almennilegar kaffigerðargræjur og taka niður allar nektarmyndirnar af veggjunum. Gestirnir geta þá látið sér nægja að draga ályktanir um mig af bókaskruddunum í hillunum.
5 ummæli:
Kannski búa þau nálægt bókasafni. Það er alveg hægt að lesa fullt án þess að sanka að sér bókum eins og hemúll.
Þórdís H.
Ég er að spá í að byrja á þessu nektarmyndaþema með sjálfri mér.
Góður punktur þetta með hemúlinn! Sennilega fara svona mínimalistar á bókasöfn frekar en að menga umhverfi sitt með of miklum bókakosti. Það get ég t.d. illa því ég hef af því miklar áhyggjur að muna aldrei eftir að skila bókunum því þær muni örugglega að týnist í haugum af bókum og drasli sem ég hef sankað að mér einsog hver annar hemúll.
Já, það er sko ekki bara bókasöfnun sem skilur milli mín og mínímalistanna. Satt að segja á ég ekkert svo mikið af bókum miðað við marga sem ég þekki. Það er ekki síður allt hitt draslið.
Og ég hlakka til að mæta í heimsókn til Þórdísar G og sjá nektarmyndirnar í stofunni.
Mig langar að sjá nektarmyndirnar af ítölsku konunni! Kristín í París.
Skrifa ummæli