Fyrirkomulag keppninnar er þannig að hver keppandi undirbýr og æfir tvær sögur. Sögurnar skulu vera að hámarki sjö mínútna langar og mega fjalla um hvað sem er, en ekki má leika hlutverk eða nota beinar tilvitnanir – aðeins hreina og beina frásögn. Í fyrri umferð segir hver eina sögu, þrír stigahæstu komast áfram í aðra umferð og segja þar aðra sögu. Dómnefndir sitja við fimm borð, þrír til fjórir í hverjum hóp og gefa hverri sögu stig á skalanum 1.0 til 10.0. Flestir eru sjálfboðaliðar úr sal, en þó var haft samband við Dana, Norðmann og Íslending fyrirfram til að tryggja að einhverjir slíkir yrðu til staðar. Önnr af sögunum tveimur má vera sögð á ensku en hin verður að vera á einhverju Norðurlandamáli, og er í því tilfelli fyrst lesinn upp stuttur útdráttur á ensku.
Það var áhugavert að sjá hverskonar sögum fólk finnur upp á þegar form og efni er frjálst og tilgangurinn helst sá að vinna fylgi áhorfenda. Sumir fóru þá leiðina að notast við hefðbundinn ævintýrs-strúktúr – einu sinni var, kóngafólk og skrímsli, hamingjusöm til æviloka. Það var stundum sniðuglega gert, en náði í öðrum tilvikum engu sérstöku flugi. Það vakti auk þess athygli mína hversu áberandi neikvæðar kvenpersónurnar voru í sögum með ævintýrasniði – aðalpersónan þá gjarnan sympatískur karl, hvers helsti baggi í lífinu var illgjörn eiginkona. Með hugviti og snarræði tókst kauða loks að losa sig við kvendið og ganga að eiga prinsessuna. Reyndar voru ekki alveg allar ævintýrasögurnar alveg svona slæmar, en það stendur eftir að ekki var jákvæður kvenkyns karakter í nokkurri þeirra – nema maður flokki karaktersnauðar prinsessur sem ekki opna munninn sem slíkar. Nú eru líklega einhverjir sem hlýða á svona sögur án þess að finnast neitt athugavert við þessa hluti. „Þetta er bara saga, svona eru ævintýri“ – en mér finnst það jafnvel beinlínis undarlegt að ekkert ævintýrasögufólksins hafi notað tækifærið til að koma með einhverja virkilega ófyrirséða vinkla inní persónusköpun eða endalok, einkum þar sem formið sjálft býður ekki beint upp á frumlegheit.
Þetta olli mér ennfremur heilabrotum við dómaraborðið. Í keppni af þessu tagi er ekkert svigrúm til sundurliðunar eða rökstuðnings fyrir stigagjöf, og nú voru sumar sögurnar mjög sniðuglega samdar og vel sagðar, þó svo að ég fyndi þeim persónusköpun og vafasaman boðskap til foráttu. Einhvernveginn gekk þó að finna milliveg og sættast á stig með hinum í hópnum. Til að varna skekkju voru hæstu og lægstu einkunnir strikaðar út og hinar þrjár lagðar saman. Mögulega ansi sniðugt kerfi – í öllu falli komust þeir þrír til úrslita sem mér fannst helst eiga það skilið. Það voru þrír karlar á ýmsum aldri, Dani, Svíi og Norðmaður – og hér mætti nefna hvernig hallar óneitanlega á fulltrúa hinna landanna í svona keppni, þar sem þeir hafa ekki sömu möguleika á að tjá sig á eigin móðurmáli – en þannig er það í öllu Norðurlandasamstarfi og svosem lítið hægt að gera í því. Danir eiga reyndar oft erfitt með að gera sig skiljanlega Svíum og Norðmönnum þegar um munnlega tjáningu ræðir, en sá danski komst í úrslitin með því að segja söguna af litla, ljóta andarunganum á bullmáli (byggt á þeirri kenningu að þar sem H.C. Andersen hefði ferðast um allt og kynnt sögur sínar, en þó aðeins kunnað dönsku, hefði hann að öllum líkindum verið upphafsmaður bullmálsins eða gibberish). Tvímælalaust frumlegasti og skemmtilegasti flutningurinn af öllum, þótt sagan væri öllum kunnug fyrirfram. Úrslitasöguna sagði hann á dönsku og kann að hafa tapað eilítið á því, a.m.k. skildu sænskumælandi vinir mínir ekki allt. (Það kom á endanum ekki til þess að íslensku keppendurnir spreyttu sig á íslensku. Berglind Ósk Agnarsdóttir veðjaði á enskuna til að fleyta sér áfram til úrslita og Ragnheiður Þóra Grímsdóttir notaði skandinavísku með mjög íslenskum hreim (sem vinkona mín hélt að væri íslenska og var einmitt hissa á hvað hún skildi næstumþví allt).)
Pelle Olsson er krúttlegur kall. |
Ég gæti haldið áfram lengi enn að segja frá því sem sagt var frá þetta kvöld, en hinsvegar vildi svo vel til að útsendari RÚV var á staðnum með upptökugræjur, svo það er vonandi að einhverju af snilldinni verði útvarpað á næstunni. Þetta var nefnilega stórkostlega skemmtilegt kvöld og ég mun leggja mig fram um að fylgjast með Storyslam-mótum framtíðarinnar.
3 ummæli:
Hver var útsendari RÚV?
Þröstur Haraldsson, eitt sinn yfirmaður minn! Skemmtilegt.
Ég var fenginn til að vera dómari hérna heima, og það var einmitt líka í fyrsta skipti sem ég heyrði af söguslammi.
Kvöldið fór í að hlusta á (að mestu leyti) skemmtilegar sögur og dæma þér eins vel og ég gat, með aðstoð þeirra sem sátu nálægt.
Semsagt, hin mesta skemmtun.
Skrifa ummæli