Fyrir nokkrum árum fékk ég saumavél í afmælisgjöf. Miðað við að ég hafði óskað mér saumavélar látlaust í mörg ár hefði ég átt að vera himinsæl með gjöfina. En eitthvað fór lítið fyrir sælunni. Meira áberandi var svekkelsi, uppgjöf, jafnvel ótti. Ástæðan fyrir þessu misræmi var auðvitað sú að þrátt fyrir að mig dreymdi um að vera týpan sem gæti vippað upp pilsi korter í partý, breytt smart vintage fötum þannig að þau yrðu enn smartari og saumað litla stelpukjóla úr seventís koddaverum þá var ég einmitt ekki sú týpa. Ég var þvert á móti týpan sem hafði síðast sest við saumavél í 12 ára bekk til að gera við gat á buxum áður en ég færi í þeim í skíðaferð. Ég meina, hversu flókið gat þetta verið, maður bara saumaði eitt „strik“ og málið væri leyst, ræt? Klukkutíma og þremur brotnum nálum síðar kom í ljós að ég hafði ekki bara saumað gatið saman heldur alla buxnaskálmina í kuðl. Og ekki bara það. Einhvern tímann í hita leiksins höfðu flugbeittar tennur saumavélarinnar líka nælt í nærliggjandi koddaver og það hafði saumast fast við skálmarkuðlið. Ég mætti grátandi í skíðaferðina og í buxum af litla bróður mínum. Og þar sem ég stóð fyrir framan nýju saumavélina var ég allt í einu miklu meira þessi týpa en sú í draumum mínum. Það var ekki fyrr en sirka tveimur vikum eftir afmælið sem það hvarflaði fyrst að mér að kannski hefðu verið skrifaðar bækur fyrir fólk eins og mig, bækur sem kenndu byrjendum að sauma einfalt en samt ekki hræðilega ljótt dót. Ég lagðist í rannsóknarvinnu á netinu og nýr heimur opnaðist.
Handavinnubækur nútímans eiga lítið sameiginlegt með Burdablöðum æsku minnar. Engar myndir af konum með tryllinglsegt permanent íklæddum undarlegum mussum, engar sniðarkir sem þekja alla íbúðina fullar af kílómetralöngum línum sem líkjast mest völundarhúsi sem aldrei er hægt að komast út úr. Nei, nú eru bækurnar skreyttar fallegum ljósmyndum, upplýsandi skýringarmyndum og einföldum sniðum sem eru gjarnan prentuð aftast í bókina (og maður þarf þá í sumum tilvikum að stækka sjálfur með aðstoð ljósritunarvélar). En það sem kannski er mest um vert (og umfram allt það sem réttlætir að ég skrifi um saumabækur á bókabloggi) er að frásögnin hefur nú hafið innreið sína inn í handavinnubækurnar.
Það sama gerðist með matreiðslubækurnar nokkrum árum áður. Í staðinn fyrir að matreiðslubækur birtu einfaldar staðreyndir um innihaldsefni og verklýsingu í bland við drungalegar myndir af grísum með epli í kjaftinum tóku matreiðslubækur 21. aldarinnar að klæða sig í búning ævisögunnar.
Ágætt dæmi um handavinnubók undir formerkjum frásagnarinnar er Weekend Sewing eftir Heather Ross. Eins og nafnið gefur til kynna inniheldur bókin saumaverkefni sem á að vera hægt að ljúka við á einni helgi. Auk þess minnir yfirbragð bókarinnar allt á notalegt helgarlíferni. Á myndunum má meðal annars sjá fjölskyldu að hengslast heima hjá sér á náttfötunum, börn að hlaupa í grasi og konu sem situr uppi í tré og les í tímariti. Mörg verkefnanna vísa líka í vinsælar helgariðjur eins og að fara á markaði og flóamarkaði, stutt ferðalög og vinna í garðinum. Inn á milli er svo skotið einstaka mataruppskriftum sem ríma við þess háttar líf sem bókin lýsir eins og til dæmis súpu sem er tilvalin að láta malla meðan maður saumar.
Allt er þetta rammað inn af inngangi bókarinnar þar sem Heather Ross lýsir því hvernig áhugi hennar á handavinnu spratt upp úr óhefðbundinni æsku og þar sem hún bjó ásamt tvíburasystur sinni og einstæðri móður í gömlu skólahúsi í fjöllum Vermont. Langa dimma vetrardaga þegar ekki var hægt að vera úti fyrir kulda sátu systurnar inni og föndruðu búninga á dúkkur og heimiliskött, saumuðu vetrarfrakka á ímyndaða húsálfa og prjónuðu trefla á blámeisurnar fyrir utan gluggann með tannstönglum. Í kjölfarið fylgir síðan lýsing á því hvernig Heather tók að sauma föt á sjálfa sig og aðra úr efnum sem formæður hennar höfðu safnað í kistil á ferðalögum um fornar slóðir og hvernig hún lagði svo bæði listir og handíð á hilluna um tíma til að læra sagn- og lögfræði í leit að þeim stöðugleika sem hana skorti í æsku til þess eins að gefast upp nokkrum árum seinna, skrá sig í listaskóla og enda svo á að byggja ævistarf sitt upp í kringum textíliðnað. Þannig liggur áhuginn á handverki og hönnun eins og rauður þráður gegnum líf hennar og lesandinn getur ekki komist að annarri niðurstöðu að það sé eðlileg afleiðing æskudaganna í Vermont að hún sé það sem hún er í dag, óhemju vinsæll textílhönnuður og handavinnubókahöfundur. Að auki heldur Heather úti frábæru bloggi þar sem hún setur út upplýsingar um námskeiðshald og útgáfudaga en skrifar jafnframt sögur af sjálfri sér og þá gjarnan frá æskuárunum í Vermont. Og konan er það sem maður kallar „góður penni“, sögurnar eru stundum óþarflega þungar og hefðu haft gott af smá ritstjórn en það segir líka sína sögu að maður skuli yfirleitt tala um ritstjórn þegar bloggfærslur eru annars vegar. Mín uppáhaldssaga fjallar um hvernig þær systurnar bjuggu til búninga á dauðar mýs og önnur dýr úr náttúrunni og settu svo á svið Rómeó og Júlíu og fleiri leikrit og sögur með þessum vægast sagt sérstaka leikflokki! Ég geri mér grein fyrir því að þetta hljómar bara krípí þegar ég segi þetta en þegar Heather segir frá er þetta, jú vissulega krípí, en líka heillandi og fallegt. Ég hef lengi óskað þess í hljóði að Heather Ross skrifaði skáldsögu og skilst að mér hafi svona nokkurn veginn orðið að ósk minni þar sem hún ku vera að leggja lokahönd á barnabók skrifaða og myndskreytta af henni sjálfri.
Og hafi maður engan sérstakan áhuga á að eiga skyrtu með ævintýraprinsessum er til dæmis í boði munstur með uglunni og kettinum úr samnefndu ljóði bullskáldsins Edward Lear. Mörg efnanna hafa auk þess persónulegar vísanir en það veit sennilega enginn nema sá sem er fastur lesandi bloggsins (ég sem sagt!).
Hether Ross er auðvitað bara eitt dæmi um hvernig ævisagan hefur runnið saman við ýmsar fagbækur. Ég á í fórum mínum ýmsar sauma- og prjónabækur þar sem höfundar tala um hvernig þær lærðu listina frá mæðrum sínum og ömmum sem aftur lærðu af sínum formæðrum og svo framvegis. Ég á meira að segja bækur sem eru svo persónulegar að þær birta ekki bara myndir af heimilum og börnum höfundar heldur líka uppáhaldssniðið þeirra að heimasaumuðum dömubindum! Og fleiri frásagnaform en ævisagan hafa rutt sér til rúms í þessum geira, ég á til dæmis prjónabók sem er byggð upp eins og barnasaga myndskreytt með ljósmyndum af söguhetjunum íklæddum undursamlega fögrum prjónuðum peysum, vestum og kjólum og aftast eru svo uppskriftir að herlegheitunum. Sjálfsagt mætti draga af þessu ýmsar ályktanir, um markaðssetningu, samtímann og mannlegt eðli. En ég ætla bara að draga eina: við þráum frásagnir. Við viljum lesa um líf annarra (raunverulegra eða skáldaðra), við viljum máta okkur sjálf inn í ólíka söguþræði, við viljum fá byrjun og enda og áhugaverða fléttu þar á milli, ekki bara í bókunum sem við lesum heldur miklu víðar. Við lifum og hrærumst í frásögnum, hvort sem okkur líkar það betur eða verr.
5 ummæli:
Hey, það gleymdist alveg að taka fram hvort söguhetjan hafi náð sátt við saumavélina eða hvort hún láti duga að lesa handavinnubækur!
Er Guðrún Elsa farin að sauma upp föt af flóamörkuðum og fjöldaframleiða dömubindi?
Biðst margfaldlega afsökunar á að hafa ruglað saman Druslubókar-Guðrúnum! Þarna á að sjálfsögðu að standa Guðrún Lára.
Já þetta var náttúrulega mjög ófullkomin frásögn hjá mér, upphaf án enda! En jú, ég samdi frið við saumavélina eftir þetta. Verð samt að játa að þessi afmælisgjöf hefur sennilega getið af sér fleiri handavinnubækur og efnisbúta en nokkurn tímann fullkláruð saumaverkefni!
Frábærlega skemmtileg færsla! Er þetta ekki einsog "maðurinn" sagði "there is nothing outside the text";)
Oh en skemmtilegt!
Skrifa ummæli