4. september 2011

Bloggað um blogg um bækur

Nýlega áttu sænsku bókahórurnar fimm ára bloggafmæli og héldu auðvitað rosa partí. Á vefinn bokhora.se blogga fjórar sænskar konur um bækurnar sem þær lesa og í tilefni afmælisins birti eitt af stóru sænsku dagblöðunum stutt viðtal við þær þar sem því er haldið fram að þær séu valdamiklar í sænsku bókmenntalífi og flest sænsku forlögin senda bækur til bókahóranna. Í viðtalinu kemur fram að Bokhora.se sé stærsta sænska bókabloggið, en þar í landi (og annars staðar) er orðið ansi vinsælt hjá fólki að blogga um bækur. Já og árið 2009 fengu bókahórurnar Stóru bloggverðlaunin sem Aftonbladet veitir - sænsku dagblöðin verðlauna bloggara!

Þegar spurt er um viðbrögðin við bókablogginu svara þær að margir hafi brugðist við (jákvætt og neikvætt) þegar Jessica Björkäng skrifaði á sínum tíma að ef hún færi heim með manni sem kæmi í ljós að ætti bækur eftir Paulo Coelho í hillunni myndi hún fara heim til sín. Þær hafa líka fengið gagnrýni fyrir að skrifa um svipaðar bækur og vera með svipaðar skoðanir, en þær segjast bókablogga í frístundum og lesa það sem þær langar til og mega vera að og fari ekki eftir neinum viðmiðum þegar þær velja sér lesefni.

Svona lítur ein bókahillan mín út þegar þetta er skrifað
Mér finnst bókahórurnar oft frekar slappir bókabloggarar og nenni stundum ekki að lesa til enda það sem þær skrifa, en það breytir því ekki að þeirra blogg var ein hvatningin til að þetta bókablogg hér var stofnað fyrir hátt í fjórum árum. Okkur Þorgerði fannst vanta fleiri blogg sem væru með einhvern fókus eða þemu, og okkur sjálfar vantaði svona vettvang, eins og bókahórubloggið, þar sem við gætum skrifað um þær bækur sem okkur langar til - og nú erum við FJÓRTÁN sem skrifum hérna. Já og varðandi þetta með að bókahórurnar séu stærsta sænska bókabloggið og valdabatterí í sænska bókabransanum, þá eru þær með opinn teljara á síðunni sinni og fá ekkert svo gríðarlega miklu fleiri heimsóknir en Druslubækur og doðrantar, kannski svona þrefalt fleiri (ef ég man rétt þá búa um níu milljónir manna í Svíþjóð).

Það eru krækjur á einhver bókablogg hér á hægri vængnum og þar mætti alveg bæta við, en ég nenni því ekki og finnst ekki taka því vegna þess að bráðum ætlum við að opna nýja og flottari síðu! En hér er eitt sem einhverjum finnst kannski skondið.

1 ummæli:

Þórdís Gísladóttir sagði...

Já og svo voru þær að vinna fullt af peningum á bókamessunni í Gautaborg.
http://www.formabooks.se/Just-nu/Forma-Books-Blog-Award/Vinnare-av-Forma-Books-Blog-Award-2011/