31. október 2010

Svar við bréfi Helgu

svarÞér finnst kannski gróft að minnast þessa, og skrifa til þín, Helga mín. Mannorð og virðing, mér er alveg sama um það. Hvað á maður svo sem að gera við slíkt þegar allt er komið í kring? Þegar öllu er á botninn hvolft verð ég víst að játa að aldrei hef ég vitað aðra eins og þvílíka jarðneska sælunautn sem okkar samfarir þar í hlöðunni þennan eilífa vordag í mínu minni. Þegar ég loksins fékk að þukla þinn brúnslétta skapnað og drukkna í fylltum vörum þessa sælu og skammæju fengitíð lífs míns. (Svar við bréfi Helgu bls. 35)

Inngangur að bókinni Svar við bréfi Helgu eftir Bergsvein Birgisson er ljóðið Þau eftir Stefán Hörð Grímsson þar sem segir meðal annars Nú ganga þau sinn veginn hvort og haldast í hendur. Bók Bergsveins má segja tilbrigði við þetta ljóð en hún er bréf gamals bónda og ekkils, Bjarna Gíslasonar,  skrifað á höfuðdegi árið 1997 til Helgu, fyrrum ástkonu sinnar, sem hann fylgdi ekki til Reykjavíkur á sínum tíma. Það borgar sig ekki að rekja söguna því þá skemmi ég bara fyrir ykkur öllum sem verðið alveg endilega að lesa þessa bók.

Ég myndi segja Svar við bréfi Helgu býsna núþálegt verk í besta skilningi þess orðs. Það er dálítið í tísku um þessar mundir að póstmódernisera menningararfinn og poppa hann upp, en þessa bók ætla ég samt ekki að stimpla með póstmódernismastimplinum mínum því Bergsveinn gengur eins langt og hægt er að gera, bókin er eins og hún sé skrifuð af gömlum bónda og orðfærið og hugsunarhátturinn er svo sannfærandi að mér fannst ég alveg vera að lesa bréf frá íslenskum alþýðumanni sem gæti verið fæddur í byrjun síðustu aldar. Þetta hljómar kannski ekki sérlega spennandi, ég sjálf yrði líklega ekki beint spennt ef mér væri sagt að lesa svona verk (mig langar t.d. ekki að lesa ljóð eftir fólk sem yrkir eins og Guðmundur Böðvarsson eða Steinn Steinarr, þó ég dái þá báða) en Svar við bréfi Helgu er samt algjörlega ómótstæðileg bók og mig langar að gefa öllum sem ég þekki hana í jólagjöf. Hún er dásamlega fallega skrifuð erótísk ástarsaga og unaðslega skemmtileg lýsing á íslenskri alþýðumenningu til sveita á síðustu öld og svo er hún bæði fyndin og sorgleg. Þarf maður eitthvað meira?

Þórdís

3 ummæli:

Sigga sagði...

Nú hlakka ég ennþá meira til að lesa bókina!

Kristín í París sagði...

Vá, hvað þetta hljómar spennandi.

Sólveig Sigurðardóttir sagði...

Alveg sammála, ég var alveg heilluð, gat varla lagt hana frá mér og var mjög svekkt þegar henni lauk.