16. október 2010

Fyrir unnendur súrrealískra endurminningaÉg er orðin svo meðvirk druslubókardama að ég get ekki lesið áhugaverða bók án þess að nefna hana hér, þótt í stuttu máli sé. Hún var keypt á heimilinu eftir meðmæli frá fjölskylduvinum og ég var sú þriðja í fjölskyldunni sem tók við henni þannig að hún er þrautlesin orðin: endurminningabókin My last sigh (ensk þýðing á Mon dernier soupir) eftir spænska kvikmyndagerðarmanninn Luis Buñuel.

Buñuel gefur hressandi skít í nákvæma krónólógíska frásögn en segir mikið af litlum skrítnum sögum héðan og þaðan milli þess sem hann veltir vöngum, telur upp það sem honum finnst skemmtilegt og ræðir mismunandi áfengistegundir. Mér fannst sérstaklega gaman að lesa um barnæsku hans í Calanda á Spáni á fyrstu áratugum 20. aldar þar sem, segir hann sjálfur, miðaldir stóðu fram að fyrra stríði, og tíma hans með súrrealistunum í París, sem voru allir í því að reyna að breyta heiminum með því að hneyksla hann, stóðu fast á prinsippunum og voru alltaf að gera hver annan útlægan úr hópnum fyrir að brjóta þau. Þetta er ein af þessum bókum þar sem koma fyrir línur á borð við „Við sátum þarna nokkrir, ég, Dalí, Lorca, Picasso og André Breton...” (og að sjálfsögðu á Sélect, þetta er þvottekta Parísarsnobb).

Það eina sem stakk mig er að það fer áberandi lítið fyrir kvenfólki í bókinni, þær eru aðallega mellur og hysterískar leikstjörnur, sú sem kemur einna mest við sögu er Gala Dalí og sú fær nú ekki góð eftirmæli, fégráðug og klikkuð. Ég held ég megi segja að kona komi nokkurn veginn aldrei fyrir nema sem einhvers konar objekt. Hins vegar er Buñuel nógu fínn gaur að öðru leyti til að maður fyrirgefi honum það og mér leiddust sögurnar hans aldrei.


Kristín Svava

4 ummæli:

Þórdís sagði...

Hljómar eins og þetta sé skemmtilegt.

Kristín í París sagði...

Þarna er komin hugmynd að jólagjöf fyrir einhvern fjölskyldumeðlim (á frönsku vitanlega). Mér finnst merkilegt að sjá nafn þýðanda svona áberandi framan á bókinni, er þetta viðtekin venja, í þau fáu skipti sem bækur eru þýddar yfir á ensku?

Þórdís sagði...

Þetta er áhugavert Kristín. Kannski er þessi Abigail svona hrikalega merkilegur pappír. En ég er alvarlega að íhuga að leggja til að næsta þýðing mín verði með nafninu mínu framan á kápunni!

Kristín í París sagði...

Mér líst vel á það, Þórdís. Mál til komið að þýðendur rísi upp og krefjist staðfestingar á tilverurétti sínum!
Og í þýðendapælingunni gleymdi ég gersamlega að setja "like" við "þvottekta Parísarsnobb". Þetta fer í gullkistuna mína.