Í upphafi bókarinnar Drömfakulteten eða Draumadeildin eftir Söru Stridsberg, frá 2006*, liggur aðalpersónan deyjandi úr lungnabólgu á subbulegu hóteli í melluhverfi í San Fransisco og þar finnur starfsfólk hótelsins hana síðar látna. Þessi aðalpersóna er herskái femínistinn Valerie Solanas sem fæddist 1936 og dó 1988. Solanas var lesbísk listakona sem bjó lengst af í New York og sá aðallega fyrir sér með því að selja líkama sinn. Hún er frægust fyrir að hafa skotið á listamanninn Andy Warhol í New York árið 1968 en hann særðist illa og lifði atburðinn naumlega af. Fræg ljósmynd sýnir Andy Warhol ári eftir skotárásina, hann hefur dregið skyrtuna sína upp og örin eftir skotsárin sjást vel. Um þetta var síðar gerð bíómyndin I shot Andy Warhol, þar sem Lily Taylor lék Valerie.
Ári fyrir skotárásina skrifaði Valerie Solanas SCUM-yfirlýsinguna, en hana þýddi Sara Stridsberg á sænsku og fékk þá hugmyndina að skáldverkinu. SCUM er skammstöfun fyrir Society for Cutting Up Men. Yfirlýsinguna hef ég ekki lesið en hún er að því er ég best veit sorglegur og klikkaður reiðilestur þar sem Valerie Solanas útmálar karlkynið sem fullkomlega óþarfa tegund á lægra þróunarstigi en kvenkynið og lætur sig dreyma um veröld fulla af konum. Sara Stridsberg segir þennan texta bæði vera sanngjarnasta og ósanngjarnasta femínistatexta sem skrifaður hefur verið, einskonar pólitíska satíru sem er róttækt uppgjör við karlasamfélagið. Ýmsir aðrir hafa hins vegar túlkað SCUM-yfirlýsinguna sem blóði drifna orðræðu geðveikrar og öfgafullrar manneskju.
Valerie Solanas í bók Söru Stridsbergs (og sjálfsagt hefur það líka átt við um hina raunverulegu Valerie) er merkileg kona sem alltaf er á mörkum þess að tortíma sjálfri sér og gerir það síðan að lokum. Bókin hefst sem fyrr segir á dauða Valerie en síðan er flakkað fram og aftur um líf hennar. Þarna er fullt af klámi og grófu ofbeldi og kafað er í sálardjúp konu sem auðvelt er að skilgreina sem geðveika. Þótt Valerie hafi verið til, er alls ekki hægt að flokka verkið sem ævisögu. Fremur er um að ræða fantasíu höfundarins um líf Valerie Solanas sem elst upp í Georgíu hjá hlýrri en ábyrgðarlausri móður sem hefur Marilyn Monroe sem fyrirmynd. Í barnæsku er hún misnotuð kynferðislega, á unglingsárum flækist hún um og selur sig, hún fær styrk til háskólanáms og kemst á sjöunda áratugnum inn í listamannakreðsa í Verksmiðju Andy Warhol. Sem fullorðin starfar hún á kynlífsmarkaðinum í New York og hún deyr fyrir aldur fram, alein á hóteli í San Fransisco. Við skrif bókarinnar heimsótti Sara Stridsberg vændishótel í Bandaríkjunum og hún hefur einnig starfað í kvennaathvarfi í Stokkhólmi og sækir í þá reynslu þegar hún skrifar hvassa sögu, raunsæja, draumkennda og sorglega, sem líkt og margar góðar skáldsögur vekur til umhugsunar, kveikir óvænt ljós og kastar skuggum í ýmsar áttir.
Form og bygging bókarinnar er nokkuð sérstakt. Sumir kaflar eru eintóna og ljóðrænir aðrir leiftrandi og hressilegir. Þarna skiptast á samtöl aðalsöguhetjunnar við geðlækni, móður sína, ástkonu og fleiri persónur og einnig við höfundinn eða frásagnarröddina, sem stundum ávarpar aðalsöguhetjuna. Gagnrýnandi Dagens Nyheter sagði Söru Stridsberg bæði takast að sýna kalda skarpskyggni og skrifa texta sem minnir á brennandi ástarbréf. Oft er sögusviðið geðveikrahælið þar sem Valerie Solanas er vistuð gegn vilja sínum eftir morðtilraunina, einnig er réttarhöldunum yfir henni lýst, en þess á milli er flakkað til baka til æsku hennar eða fram til síðustu stundanna á hótelherberginu. Lesandanum er auðvitað ljóst að höfundurinn er að skálda en margt er þó byggt á heimildum um líf Valerie.
Margir segja Söru Stridsberg hafa markað sér stað sem einn af áhugaverðustu nútímahöfundum Svía. Frásagnartækni og tungumál hennar eru ákaflega grípandi. Draumadeildin hefur sérstakan og óvenjulegan hljóm. Valerie Solanas bókarinnar er vissulega margslungin og mótsagnakennd persóna og sagan fjallar um sorg og niðurlægingu en þrátt fyrir tímaflakk og tíð stílskipti er textinn býsna liðugur og það leikur ferskur andblær á milli línanna.
* Bókin fékk Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2007 en hefur því miður ekki verið þýdd á íslensku.
11 ummæli:
Hér syngur Lou Reed um Solanas og skotið á Warhol.
http://www.youtube.com/watch?v=bKyNkjRumqY
Ég er búin að ætla að lesa þessa bók síðan hún fékk verðlaunin, rakst svo á hana í Eymundsson um daginn og keypti hana, kannski kem ég því í verk að lesa hana einhvern tíma.
Lestu frekar eitthvað annað og skrifaðu um það hér!
Vitið þið hvort stendur til að þýða hana á íslensku?
Mér er mjög til efs að nokkur hafi í hyggju að þýða þessa bók á íslensku.
http://www.womynkind.org/scum.htm
Takk fyrir góðan pistil um Drömfakulteten sem ég er búin að reyna að halda að útgefendum síðan hún fékk Norðurlandaverðlaunin, án árangurs. Hjalti Rögnvalds er líka búinn að reyna við útgefendur og er tilbúinn að þýða bókina. Staðreyndin er að útgefendur hafa ekki áhuga á bók eftir sænska konu, sem ekki fellur í glæpasagnaflokkinn, - og einn sagði reyndar við mig eitthvað á þessa leið: ég nenni ekki að gefa út bók um kolklikkaðan feminista.
kv. Soffía Auður
og takk fyrir skemmtilega bloggsíðu!
Einu sinni tóku íslenskir útgefendur það hlutverk alvarlega að halda góðum bókmenntum að fólki. Þetta virðist hinsvegar breytast afar ört.
Já og svo má nefna að SCUM-yfirlýsingin er komin út á íslensku. Sori-manifestó, kom út hjá Nýhil.
Ég hef ekki lesið bókina en finnst eitthvað kyndugt við almenna tilhneigingu til að göfga ofbeldismanninn Valerie Solanas. Er hún ekki bara ósköp einfaldlega á pari við David Chapman?
Sæl, Höfundurinn Sara Stridsberg verður gestur á Höfundakvöldi Norræna hússins 7. nóvember kl. 19:30. Verið velkomin!
Nánari upplýsingar: http://nordichouse.is/event/hofundakvold-med-soru-stridsberg/
Skrifa ummæli