6. apríl 2009

og sigurvegarinn er ...

Um daginn hafði maður á orði að alltaf væri verið að tilnefna og verðlauna rithöfunda og þýðendur fyrir störf sín. Í orðum hans gætti nokkurs biturleika, hann er sjálfur í erfiðu og illa launuðu starfi en mun sennilega aldrei hljóta verðlaun eða viðurkenningu fyrir það, hvað þá fá mynd af sér með menntamálaráðherra birta í blöðunum. Auðvitað tók undirrituð upp hanskann fyrir höfunda og þýðendur, druslubókadömunum hlýtur að finnast það ljómandi gott að listamenn orðanna skuli fá verðskuldaða athygli og í besta falli smá pening inn á reikninginn. En óneitanlega væri líka ágætt ef einhver myndi taka að sér að verðlauna bókmenntagagnrýnendur, ja eða hreinlega bara bókelskar dömur sem láta stundum strauja kortin sín ótæpilega í sleðum bókabúðanna.

Í síðustu viku var tilkynnt um tilnefningar til Íslensku þýðingaverðlaunanna sem veitt eru á degi bókarinnar 23. apríl. Að verðlaununum standa Bandalag þýðenda og túlka með stuðningi Rithöfundasambands Íslands og Félags íslenskra bókaútgefenda.
Tilnefndar eru: Apakóngur á silkiveginum, sýnisbók kínverskrar frásagnarlistar í ritstjórn og þýðingu Hjörleifs Sveinbjörnssonar, Nafn mitt er Rauður eftir Orhan Pamuk í þýðingu Árna Óskarssonar, Árstíð í helvíti eftir Artur Rimbaud í þýðingu Sölva Björns Sigurðssonar og Í þokunni eftir Philippe Claudel en þýðandi hennar er Guðrún Vilmundardóttir, og Svo fagurgrænar og frjósamar: Smásögur frá Kúbu, Púertó Ríkó og Dóminíska lýðveldinu, þýðendur eru Erla Erlendsdóttir og Kristín Guðrún Jónsdóttir.

Í síðustu viku var líka tilkynnt hver hlýtur Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2009, en það er Norðmaðurinn Per Petterson sem fær verðlaunin fyrir skáldsöguna Jeg forbanner tidens elv. Í fyrra kom út hjá Bjarti bók eftir Petterson en það er Út að stela hestum, sem Hjalti Rögnvaldsson þýddi, en bókin sú þykir mörgum ansi góð. Bókmenntaverðlaunin sem eru 350 þúsund danskar krónur verða afhent í lok október 2009 í tengslum við Norðurlandaráðsþing í Stokkhólmi.

Loks má nefna að Fjöruverðlaunin 2009 voru veitt á Góugleði í mars. Þá fékk Æsa Sigurjónsdóttir viðurkenningu fyrir bókina Til gagns og til fegurðar en í því verki er varpað fram vekjandi spurningum um klæðnað og útlit Íslendinga 1860-1960 og sýnt hvernig ljósmyndir endurspegla sjálfsmynd þjóðarinnar á hverjum tíma. Hallfríður Ólafsdóttir og Þórarinn Már Baldursson fengu einnig viðurkenningu fyrir bókina Maxímús Músíkús, sem opnar ungum lesendum dyr inn í heillandi ævintýraheim tónlistarinnar. Tvenn verðlaun voru síðan veitt fyrir fagurbókmenntir, þau hlutu Álfrún Gunnlaugsdóttir fyrir skáldsögu sína Rán og Kristín Ómarsdóttir fyrir ljóðabókina Sjáðu fegurð mína, en þess má geta að báðar síðastnefndu bækurnar voru tilnefndar til menningarverðlauna DV og hlaut Álfrún þau verðlaun. Sérstaka viðurkenningu Góugleðinnar hlaut að þessu sinni hinn ástsæli barnabókahöfundur Jenna Jensdóttir, sem meðal annars er þekkt sem annar höfundur Öddu-bókanna. Hér fyrir neðan má sjá mynd sem tekin var við afhendingu Fjöruverðlaunanna.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góða bloggara ætti að verðlauna alveg eins og rithöfunda. Það er gert í útlöndum.

Erna Erlingsdóttir sagði...

Og ekki má gleyma Hagþenkis-verðlaununum sem Sigrún Helgadóttir fékk fyrir frábæra bók um Jökulsárgljúfur.
http://hagthenkir.is/frettir.php?meira=1&id=326