![]() |
Kannski myndi ég frekar nenna að lesa Kommúnistaávarpið á velsku |
Hins vegar virðist ég ferðast hús úr húsi og jafnvel milli landa með ákveðnar bækur í farteskinu sem ég hef keypt eða fengið að gjöf en einfaldlega kem mér ekki í að lesa. Ástæðan er ekki alltaf ljós. Stundum er kápan ljót og fráhrindandi (já, ég er jafnhégómleg og aðrir þegar kemur að estetík lesefnis), stundum er eitthvað óárennilegt við bókina eða efni hennar. Nokkrar bækur á ég ókláraðar í sérstakri "þarf að klára"-hillu - eins og fleiri druslubókadömur er ég ófær um að hætta að lesa bók og finn mig knúna til að klára hverja einustu þótt stundum líði mörg ár frá fyrstu blaðsíðu til þeirrar síðustu. Þar er t.d. að finna To the Lighthouse eftir Virginiu Woolf, sem mér þykir óbærilega leiðinleg bók (fyrirgefið, þið sem tengið betur við stream of consciousness en ég og hafið dálæti á Woolf) en las ca. 4/5 af þegar ég var í mastersnámi í Glasgow; þar var hún á leslista. Ég er alltaf að reyna að mana mig upp í að klára hana en fyllist einhverjum ógurlegum pirringi í hvert sinn sem höndin nálgast kjölinn á kiljunni sem vinkona mín lánaði mér og neitaði að taka við aftur (álíka mikill aðdáandi og ég).
![]() |
Mikið var ég vitlaus að geyma þennan gullmola uppi í hillu svona lengi |
Málið er samt að oft þegar ég loksins tek mig til og les einhverja af þessum ólesnu, ásakandi, bitru bókum reynast þær iðulega afskaplega góðar. Ég til dæmis átti Cloud Atlas ólesna uppi í hillu í örugglega hálft ár eftir að ég fékk hana í jólagjöf árið 2005, en síðan ég las hana hefur hún verið ein af mínum eftirlætisskáldsögum. Ég hafði lengi hörfað undan Ivanhoe eftir Sir Walter Scott, þótti hún eitthvað óárennileg, en hafði heilmikið gaman af henni þegar ég tók mig til og las hana í fyrra. Það sama á við um nokkrar fræðibækur og pólitískar skruddur.
![]() |
Ef ég ætti þessa bók væri hún örugglega í ólesnu, bitru hillunni |