Sýnir færslur með efnisorðinu bókahillur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu bókahillur. Sýna allar færslur

22. mars 2012

Land hinna ólesnu bóka

Kannast lesendur bloggsins við það að eiga ólesnar bækur upp í hillu sem horfa á mann ásökunaraugum ár eftir ár, en aldrei druslast maður til þess að taka þær úr hillunni og lesa?

Kannski myndi ég frekar nenna að lesa
Kommúnistaávarpið á velsku
Nýlega áskotnaðist mér lítið og huggulegt vinnuherbergi á heimili mínu þegar við sambýlingarnir breyttum skipulaginu á íbúðinni og framkvæmdum alls kyns tilfærslur. Af því tilefni fóru fram talsverðir bókaflutningar hjá mér; þótt ég sé aðeins með brotabrot af bókunum mínum hér í þessari íbúð eru þetta þónokkrir hillufermetrar og skemmtilegt púsluspil að ákveða hvað á að vera hvar, leggja höfuðið í bleyti, velja besta fyrirkomulagið, rölta með bækur úr stofu inn í svefnherbergi, þaðan inn í vinnuherbergi og jafnvel aftur inn í stofu á endanum. Eins og alltaf þegar ég fikta í hilluskipulaginu tók ég eftir bókum sem ég hafði svo gott sem gleymt. Þótt ég hafi haft þær fyrir augunum á hverjum degi í tvö ár var ég einhvern veginn hætt að taka eftir þeim. Slíkt er kærkomið og ég er t.d. núna að lesa tvær bækur sem ég var búin að steingleyma að væru til á heimilinu.

Hins vegar virðist ég ferðast hús úr húsi og jafnvel milli landa með ákveðnar bækur í farteskinu sem ég hef keypt eða fengið að gjöf en einfaldlega kem mér ekki í að lesa. Ástæðan er ekki alltaf ljós. Stundum er kápan ljót og fráhrindandi (já, ég er jafnhégómleg og aðrir þegar kemur að estetík lesefnis), stundum er eitthvað óárennilegt við bókina eða efni hennar. Nokkrar bækur á ég ókláraðar í sérstakri "þarf að klára"-hillu - eins og fleiri druslubókadömur er ég ófær um að hætta að lesa bók og finn mig knúna til að klára hverja einustu þótt stundum líði mörg ár frá fyrstu blaðsíðu til þeirrar síðustu. Þar er t.d. að finna To the Lighthouse eftir Virginiu Woolf, sem mér þykir óbærilega leiðinleg bók (fyrirgefið, þið sem tengið betur við stream of consciousness en ég og hafið dálæti á Woolf) en las ca. 4/5 af þegar ég var í mastersnámi í Glasgow; þar var hún á leslista. Ég er alltaf að reyna að mana mig upp í að klára hana en fyllist einhverjum ógurlegum pirringi í hvert sinn sem höndin nálgast kjölinn á kiljunni sem vinkona mín lánaði mér og neitaði að taka við aftur (álíka mikill aðdáandi og ég).

Mikið var ég vitlaus að geyma þennan
gullmola uppi í hillu svona lengi
Svo eru bækur sem ég er alltaf á leiðinni að lesa en verða bara aldrei fyrir valinu þegar eitthvað meira freistandi stendur til boða. Ein sem mér dettur í hug er Kommúnistaávarpið sem er hér í enskri þýðingu uppi í hillu; reyndar hef ég lesið hluta af því en finnst samt að ég verði að lesa hana alveg í gegn, varla geta ungkommar verið þekktir fyrir annað? Marabou Stork Nightmares eftir Irvine Welsh er önnur; ég fékk hana að gjöf fyrir nokkrum árum og veit ekki alveg af hverju ég hef ekki lesið hana ennþá, kannski er það ljóta kápan (einhver mjög billeg útgáfa frá tíunda áratugnum, sem verður að teljast versti áratugurinn í bókakápubissnessinum). Mér hefur fundist margt fínt eftir Welsh þannig að það er ekki óbeit á höfundinum sem veldur. Kannski er bókin bara búin að vera svo lengi í hillunni að ég er orðin eitthvað pirruð á henni.

Málið er samt að oft þegar ég loksins tek mig til og les einhverja af þessum ólesnu, ásakandi, bitru bókum reynast þær iðulega afskaplega góðar. Ég til dæmis átti Cloud Atlas ólesna uppi í hillu í örugglega hálft ár eftir að ég fékk hana í jólagjöf árið 2005, en síðan ég las hana hefur hún verið ein af mínum eftirlætisskáldsögum. Ég hafði lengi hörfað undan Ivanhoe eftir Sir Walter Scott, þótti hún eitthvað óárennileg, en hafði heilmikið gaman af henni þegar ég tók mig til og las hana í fyrra. Það sama á við um nokkrar fræðibækur og pólitískar skruddur.



Ef ég ætti þessa bók væri hún örugglega
í ólesnu, bitru hillunni
Sennilega er best að grípa einhverja úr hillunni áður en ég skríð upp í rúm ...

19. september 2011

Óyfirstíganleg bókavandræði


Ég er að velta fyrir mér hvort ég eigi að kaupa mér rafbókalesgræju. Fyrir nokkrum árum fannst mér hugmyndin fáránleg en núna er ég að reyna að selja sjálfri mér þá hugmynd að ég þurfi ekki að kaupa mér nýjar bókahillur (sem er til marks um sjálfsblekkingu á háu stigi) ef ég hætti einfaldlega að kaupa bækur í pappírsformi. En þetta er ekki svona einfalt, upp koma ýmis vandamál:

1. Hvað með bækurnar sem fyrir eru í hillunum? Er ekki eitthvað fáránlegt að hætta allt í einu að kaupa pappírsbækur og hafa gömlu bækurnar samt í hillunni? Þá halda gestir að ég hafi hætt að lesa bækur árið 2011 (gisp!). Á maður þá kannski gefa allar bækur nema uppáhaldsbækurnar, hætta einfaldlega að vera með bækur í hillum? Þetta finnst mér óyfirstíganlegt. Fréttir herma að IKEA ætli nú að setja á markað dýpri Billy bókaskápa (já, ég veit, fáránleg hugmynd, þeir eru of djúpir sem stendur) fyrir þá sem ætla ekki að hafa bækur í bókaskápunum, nema þá kannski einstaka menningarhornstein. IKEA býr sig þannig undir rafbókabyltinguna, í framtíðinni verða ekki bækur í bókaskápum, bara eitthvað dót. Hillurnar verða þannig aðalmálið en ekki bækurnar.

2. Ég er svona týpa sem grannskoða bókahillur heima hjá fólki. Fyrir mér eru bækur í hillum nefnilega vitnisburður um eiganda þeirra. Ég veit að þetta er ekkert sérlega gáfuleg árátta, hún býður upp á allskonar sleggjudóma og vitleysu. Ég hef tildæmis mikla fordóma fyrir þeim sem raða bókunum sínum í stafrófsröð eða eru mjög harðir á Dewey kerfinu. Svo segja bækur auðvitað stundum nákvæmlega ekki neitt um eigandann. Fyrir mörgum árum vann ég í bókabúð á Laugaveginum. Þangað kom einu sinni alþekktur nýríkisdrengur sem vildi kaupa bækur sem áttu að passa í nýjar, sérsmíðaðar hillur í piparsveinsíbúðinni hans. Hann mætti með hönnuðinn með sér til að kaupa réttu bækurnar sem áttu fyrst og fremst að líta vel út í hillu en þurftu einnig að endurspegla einhverja tilbúna sjálfsímynd drengsins, ef ég man rétt. Bókasafn þessa drengs endurspeglaði sumsé bara einhverja þvælu. Punkturinn er semsagt þessi. Ef enginn sér bækurnar mínar, hvernig getur fólk þá vitað hversu stórkóstlegan og víðfeðman bókmenntasmekk ég hef? Lætur maður kindelinn ganga í matarboðum eða....?


3. Hér kemur svo alvöru vandamál. Hvernig græju á maður að velja? Er ekki glatað að eiga Kindle af því að maður verður að kaupa bækurnar á amazon? Á ég þá að kaupa ipad? Ef ég kaupi ipad er þá ekki líklegt að ég noti hann bara til að leggja kapal í strætó? Hætti ég þá kannski að lesa af því að það er baklýsing (eða af því að það er ekki baklýsing, hvort er aftur betra?).

Ef einhver á svona græju og getur sagt reynslusögu/r þá er það vel þegið...eða bara fordómasögur...eða aðrar skemmtisögur...

26. ágúst 2011

Bókahillur draumórakvenna?




Einhver hönnuður hjá fyrirtæki úti í heimi sem heitir Dripta Design Studio lét sér detta í hug að gera svona hillur sem eru eins og ský eða hugsanablöðrur. Ef ég ætti svona þá hefði ég þær fyrir ofan rúmið mitt.

10. desember 2009

Allsberar bókahillur!

Bookshelves1Ónefndur forelggjari sendi okkur þessa mynd af náttúrulegustu bókahillum sem hægt er að hugsa sér. Þvílík fegurð!

28. júlí 2009

Freydís í bókahillunni

Og enn berast okkur bréf og svo dásamlega fallegar myndir að hörðustu töffarar klökkna.

Sælar dömur!

Bókahillusyrpan ykkar er ákaflega skemmtileg. Hér er svolítið spin á hana: Við hjónin eigum bæði við það að stríða að kunna okkur ekki hóf þegar kemur að bókasöfnun (enda eigum við bæði starfsferla að baki á bókasöfnum) og þegar fór að örla á erfingja varð ljóst að eitthvað varð undan að láta til þess að barnunginn kæmist fyrir á heimilinu. Í stað þess að fækka bókum brugðum við á það ráð, eins og sönnum bókafíklum sæmir, að auka frekar hillupláss. Það tókst naumlega í tæka tíð og hálfum mánuði fyrir fæðingu barnsins voru komnar upp þessar fínu veggföstu hillur frá gólfi upp í loft með innbyggðum ljósum eins og hjá fínu fólki.

Þegar barnið var vikugamalt fengum við svo ljósmyndara í heimsókn til að festa afkvæmið undursamlega á filmu - www.gudbjorg.is - og hún sá strax möguleika á því að nýta hilluna fínu við myndatökurnar. Hér er afraksturinn:
Vikugömul Freydís í fornbókmenntunum
(athugið að barnið er stafrófsraðað - Flateyjarbók, Freydís, Grágás) og vikugömul Freydís í bókmenntafræðinni.

Mbk,

Dúnja

Enn af bókahillum - bækur eftir litum

Lesendur síðunnar halda áfram að kæta okkur og gleðja með bréfum og myndum af bókahillunum sínum. Við erum að sjálfsögðu afar ánægðar með þetta. Þið sem eruð í stuði megið gjarna senda okkur línu á bokvit@gmail.com.
Hér fyrir neðan er nýjasta bréfið og myndir fylgja líka :)


Ég uppgötvaði nýlega síðuna ykkar og núna er ég orðinn eldheitur aðdáandi sem fær gleðifiðring í magann þegar nýtt efni birtist. Litabækurnar þekki ég ágætlega en eins og Eiríkur Örn hef ég skoðað "bókahillan mín" dálkinn í Lesbókinni og án þess að segja nokkrum frá því látið mig dreyma um að sýna mína.

Þegar ég flutti inn í íbúðina fyrir 3 árum var svart og hvítt allsráðandi í innlit/útlit og þar sem ég er með eindæmum áhrifagjörn kona ákvað ég að lakka hillurnar háglanshvítar. En af því að ég vissi að svarthvíta myndi líða hjá á einni mínútu ákvað ég að mála vegginn á bakvið ekki svartan þó ég óskaði einskis heitar. Hann er hins vegar dökkbrúnn og þegar ég opnaði málningardósina varð ég að passa mig að hella málningunni ekki út á ís því hún var alveg eins og súkkulaðisósa.

Hillurnar eru vel á minnst vínkassar úr tré sem ég fékk gefins í ríkinu og skrúfaði beint í vegginn. (Ég var á undan Fótógrafí svo því sé líka haldið til haga. (ekki það að ég sé að springa úr hégóma))

Litaflokkunarþemað er svo þjófstolið frá Tinnu vinkonu minni sem þjófstal því úr eldgömlu tölublaði Húsa og híbýla en mér finnst það smellpassa í hillurnar góðu. Það er eitthvað svo ótrúlega frelsandi að reyna ekki einusinni að finna system heldur líta bara á lit á kili. Þetta er líka svo ótrúlega yfirborðskennt og dásamlegt.

Svörtu og hvítu bækurnar enduðu uppi á svefnlofti, bæði af því að það var ekki pláss fyrir allar og vegna þess að þar fékk ég útrás fyrir svart/hvítu áráttuna. Blessunarlega gerði ég það ekki annarsstaðar því ég gubba ef ég sé fleira svart og hvítt.

Kærustu kveðjur
Fífa

22. júlí 2009

Klósettbókahillur Kristínar Parísardömu

Ég bý, ásamt eiginmanni og tveimur börnum, í 69 m2 íbúð í úthverfi nálægt París. Þegar við fluttum í þessa íbúð fyrir fimm árum síðan, þurftum við heldur betur að grisja bókaeign okkar, aðallega vegna þess að í íbúðinni er ekkert sérlega mikið af veggjaplássi fyrir bókahillur. Við vorum snögg að sjá möguleikann á að koma dágóðu magni af bókum fyrir á klósettinu, en í Frakklandi tíðkast það að skipta baðherberginu í tvö aðskilin svæði, það þykir ekki fínt að ganga örna sinna og þrífa sig í sama rýminu. Þess vegna er klósettið ekki rakt herbergi og algengt í smáum íbúðum að nýta það sem geymslupláss líka.

Sakir þrengsla var tilvalið að láta saga mjóar hillur og koma vasabrotsbókunum okkar þarna upp á vegginn vinstra megin. Við vorum ægilega hörð og gáfum frá okkur gífurlegt magn af kiljum, en berjumst því miður bæði vonlausri baráttu gegn söfnunaráráttu og ég efast ekki um að megnið af þessum bókum verða ekki teknar úr hillunum aftur nema ef ég ákveð að ég neyðist til þess þegar ég mála næst - sem átti að vera í fyrrasumar, en framkvæmdin strandaði einmitt á þessari úlfakreppu, þ.e. hvort ég ætti að mála í kringum bækurnar eða ekki.

Þarna kennir ýmissa grasa, allt frá léttum reyfurum upp í dýrindis skáldsögur og ljóð, heimspekirit, sagnfræði og annað gáfulegt. Þessi flokkun einkennir reyndar allar bókahillur heimilisins, það er frekar raðað eftir stærð og útgáfum en í stafrófsröð eða eftir efni, einfaldlega vegna þess að þannig kemst meira fyrir. Þessar klósetthillur eru einu sérsmíðuðu hillurnar okkar, aðrir bókaskápar koma úr IKEA, utan einn smáan sem er úr búi langömmu minnar.
Neðsta hillan er eflaust sú sem mesta hreyfing er í, þar eru nokkrar bækur sem ég glugga reglulega í þegar klósettferðin vill verða löng og er ég nokkuð viss um að fleiri fari eins að, þó ekki minnist ég þess að það hafi verið rætt, þó heimilismeðlimir eigi það reyndar til að missa sig í einum of djúpar samræður um klósettferðir.

Ég er til dæmis búin að lesa undanfarið ár aftur og aftur á brotakenndan hátt Dúfuna eftir Patrick Süskind og hef verið að glugga hér og hvar í Stefnumót í Dublin eftir Þráinn Bertelsson, bók sem mér var gefin þegar ég lagði af stað til Parísar fyrir tuttugu árum til að búa þar og skipar því sérstakan sess í hjarta mínu. Þegar ég vil ekki ílengjast um of, gríp ég einhverja þunga heimspekibók frá manninum mínum og voilà, það virkar alltaf.

Í hillunum til hægri, sem eru dýpri vegna þess að þær falla inn í hið undarlega holrúm sem var þarna fyrir, voru vídeóspólur safnarans mannsins míns. Þær eru að hverfa, hann hefur verið að færa þær á stafrænt form og áttaði sig vitanlega í leiðinni á því að megnið mátti nú bara fara beint í ruslið. Í stað vídeóspólanna hefur plássið verið tekið undir bækur sem hann hefur til sölu á netinu, Arnaud er nefnilega bóksali. Hann kaupir bækur fyrir slikk á ókristilegum tíma á flóamörkuðum og í litlum rykugum holum í ytri hverfum borgarinnar og selur þær svo á mismiklum okurprís á ebay og priceminister og græðir á tá og fingri. Reyndar ekki nóg til að kaupa handa mér húsið með stóru bóka-, koníaks- og vindlastofunni sem mig dreymir um að eignast einhvern daginn, en nóg til að börnin okkar eru aldrei svöng þó að tekjulindin mín, íslenskir ferðalangar í Parísarheimsókn, sé í smá þurrð þessa dagana.

Reykjavík, 20. júlí 2009,
Kristín Jónsdóttir.

4. júlí 2009

Hilla Eiríks Arnar

Skáldið og þýðandinn Eiríkur Örn Norðdahl sendi síðunni mynd af bókahillunni sinni og bréf með. Við ákváðum að birta það bara í heilu lagi því það er svo skemmtilegt:

Hæ.

Það er sosum ekkert merkilegra við þessa hillu en hverja aðra, en ég er andvaka og datt í hug að senda þessa mynd, fyrst ég á hana. Þetta eru ljóðabækurnar mínar. Mig langaði líka alltaf að vera í dálknum í Lesbókinni, þar sem fólk fékk að monta sig af bókaskápnum sínum. En blaðamenn hafa aldrei sýnt því áhuga að spyrja mig um annað en það sem ég er með í vösunum.

Myndin var tekin fyrir nokkrum mánuðum, þá voru enn bækur um ljóð og stíl og ævisögur skálda þarna efst, en þær hafa nú verið fluttar til systkina sinna
í öðrum bókaskáp (sem hefur reyndar verið tekinn í sundur vegna yfirvofandi flutninga, en það er önnur saga) og nýjar ljóðabækur hafa komið í þeirra
stað. Fremstur er Hómer á íslensku og ensku. Þarnæst bækur sem eru "í lestri" (annar eins bunki er jafnan líka á skrifborðinu mínu, og alltaf 5-6 ljóðabækur á klósettinu). Síðan eru safnrit. Þá bækur á ensku, að meðtöldum þýðingum yfir á ensku. Síðan þýskar og franskar bækur (mjög fáar). Ef einhverjum pervertaskap er þar einnig Vie: Mode d'emploi eftir Perec, sem er víst ekki beinlínis ljóðabók. Þaráeftir skandinavískar ljóðabækur. Þá þýðingar á skandinavísku og svo íslensku. Nú hefur þeim verið blandað saman, íslensku og skandinavísku þýðingunum - ég man ekki hvers vegna ég gerði það. Loks eru það svo íslensku ljóðabækurnar í neðstu tveimur hillunum.

Á gólfinu undir skápnum liggur svo greinilega bæklingur með ljóðinu Höpöhöpö Böks, sem var gefinn út í Kanada fyrir nokkrum árum. Hann skrifaði ég alveg sjálfur. Á veggnum við hliðina er myndljóð eftir derek beaulieu.

Mér hefur tekist að halda þessu kerfi í þau tvö ár sem ég hef búið í Helsinki, og var með svipað þegar ég bjó á Ísafirði. Öðrum bókum en ljóðabókum og bókum um bókmenntir raða ég bara þar sem þær passa í hillu. En ef maður skipuleggur ekki ljóðahilluna sína finnur maður aldrei neitt í henni, enda eru þær flestar óskaplega þunnar og vilja því drukkna í skápum.

Með bestu þökkum fyrir skrifin ykkar,
Eiríkur

1. júlí 2009

litabækur



Kristín Viðarsdóttir á Borgarbókasafninu sendi tvær myndir af bókum sem raðað er eftir lit. Neðri myndin er af regnbogaútstillingu sem var á Hinsegin dögum en efri myndin er af bleikum bókum sem stillt var upp 19. júní.

Er einhver sem les þetta sem raðar bókunum sínum eftir lit?

Bakaradrengurinn Proust og litflokkun bóka


Marcel Proust var einu sinni í selskap þar sem menn voru að ræða hvað þeir vildu vera í lífinu ef þeir væru ekki það sem þeir væru. Proust sagði að ef hann væri ekki rithöfundur þá væri hann bakari, honum fannst svo fögur tilhugsun að hnoða deig og brauðfæða fólk. Þetta fannst einhverjum mjög fyndið, þeir sem þekktu Proust og þeir sem hafa lesið eitthvað um hann, vita nefnilega líklega að hann hefði áreiðanlega ekki getað ristað sér brauðsneið þótt hann væri í þann veginn að deyja úr hungri. Proust var víst eiginlega alveg ósjálfbjarga hvað varðaði praktíska lífið, hann lét mömmu sína og vinnukonu sjá um flest það sem ofurviðkvæmir rithöfundar, sem liggja oftast sjúgandi upp í nefið í rúminu, þurfa til að lifa af.

Mér datt þetta í hug þegar ég rakst á þessa mynd af bókahillu um daginn á bókahórusíðunni. Ein af ritdömunum þar er búin að raða öllum bókunum sínum eftir lit. Það hvarflaði í alvörunni að mér í nokkrar mínútur að reyna að leika þetta eftir. Bókahilluvandinn er eilífðarpróblem heima hjá mér, það er sama hvað ég reyni að raða í stafrófsröð eða eftir einhverjum Dewey-amatörkerfum, alltaf enda bækurnar tvist og bast í tilviljanakenndri röð eða í stöflum og hrúgum útum allt hús eða þversum fyrir framan hinar bækurnar í hillunum. Það eina góða við minn bókavanda er að ég á frekar auðvelt með að láta frá mér bækur, ég gef miskunnarlaust bókakassa í nytjagáma Sorpu í þeirri góðu trú að þaðan rati þær í Góða hirðinn og í hendur einhverra sem þær þurfa. En semsagt þar sem allt er í steik hvað varðar röðun eftir höfundum og efni, er þá ekki bara dálítið smart að raða svona eftir lit? Ég byrjaði að raða eftir þessu sýstemi í litla hillu í stofunni (hugsanlega spilaði inn í framtakssemina að ég hef meira en nóg á minni könnu og á að vera að gera eitthvað allt annað en raða bókum eða skrifa hér ef út í það er farið). Í stuttu máli þá féllust mér hendur eftir sjö sekúndur, ég gafst upp eftir að hafa raðað fimm gulleitum kjölum í röð. Ég er alveg hætt við litaröðunina í bili. Þótt ég sé sannkallaður völundur og verksnillingur miðað við Proust þá ætla ég bara að sætta mig við að ég hef meira úthald og er betri í ýmsu öðru en bókaröðun og mun frekar einbeita mér að því sem ég er góð í.

P.S. Ef þið eigið áhugaverðar bókahillur (fagrar eða ljótar) sem þið viljið deila með lesendum þessarar síðu þá takið endilega mynd og sendið á bokvit@gmail.com og ég skal setja þær á síðuna svo við getum öll inspírerast.

6. febrúar 2009

Bókaspurningalisti á föstudegi

Þessi bókadrusludama er mjög forvitin um lestur og lesvenjur annarra. Því setti hún saman þennan hnýsna spurningalista sem þið mættuð gjarnan svara í kommentakerfinu.

1. Eftir hvaða kerfi raðar þú í bókahillurnar þínar?
Dewey-kerfið eins nákvæmlega og það er hægt án þess að númera bækurnar. Eiginmaðurinn skildi ekki hvað var í gangi þegar ég tók fyrsta kast sambúðar okkar. Ég greip hann í miðjum klíðum við að stinga bók aftur í bókahilluna “bara einhverstaðar”. Á mínu heimili er það ekki til. Kannski dáldið anal en þetta eru mín einu trúarbrögð.

2. Áttu þér bók sem þú vildir gjarnan geta sagst hafa lesið en aldrei haft það af að klára?
Vildi að ég gæti svarað einhverju frumlegra en Ulysses eftir James Joyce en því miður hún er minn Moby Dick. Hef gert nokkrar atrennur að bókinni en hún sleppur alltaf undan. Taldi málið komið í höfn þegar leshringurinn minn tók hana fyrir en hringurinn gafst upp á bókinni áður en við byrjuðum. Hef meira að segja gefist upp á að lesa mikið niðursoðna teiknaða útgáfu af bókinni. Fyrst ég tók ekki Ulysses-námskeiðið hjá Ástráði Eysteins í denn og synti í gegnum bókina með kút og kork undir hans styrku stjórn þá verður líklega aldrei af  þessum lestri.

3. Eftir hvaða höfund áttu flestar bækur?
Ef ég tel arfgóssið með þá fara óneitanlega flestir hillumetrar undir Laxness, en af því sem ég hef pungað út fyrir sjálf hljóta glæpa- og vísindaskáldsagnahöfundar að vera með flestar bækur. Fór og tók út hillurnar, sem er sérlega auðvelt sökum vinar míns Dewey, og niðurstaðan var allt önnur en ég hafði talið. Ekki glæpir eða vísindi heldur japanskur súrrealismi. Hr Murakami var með flestar bækur, ellefu talsins. Gaman að því.

4. Áttu þér uppáhalds- eða draumalesstað?
Ég veit ekki með uppáhaldslesstað en þegar ég var krakki þá dreymdi mig um lestur í breiðum bogagluggakistum (á ensku: bay window, ævintýrabækur Blyton voru fullar af þeim) á bak við gardínur í fullkomnum friði. Hef aldrei komist í það en efrihæðin á Borgarbókasafninu í Þingholtsstræti að sumarlagi var góður staður fyrir lestur.

5. Hvaða bók ertu að lesa?
Það er magnað með tilviljanirnar. Ég er að lesa “Bókin mín” eftir Ingunni Jónsdóttur, sem gefin var út 1926 . Hef átt hana lengi en greip í hana fyrir rælni í gær. Ákvað svo að gúgla Ingunni þegar ég er að skrifa þetta og kemst að því að 30. janúar var á Rás eitt Sagnaslóðarþáttur um bókina og höfundinn Ingunni. Eitthvað í etherinu eða hvað? Hér er þátturinn ef ykkur vantar hressilegan skammt af sveitalýsingum.