Sýnir færslur með efnisorðinu flokkun. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu flokkun. Sýna allar færslur

28. júlí 2009

Enn af bókahillum - bækur eftir litum

Lesendur síðunnar halda áfram að kæta okkur og gleðja með bréfum og myndum af bókahillunum sínum. Við erum að sjálfsögðu afar ánægðar með þetta. Þið sem eruð í stuði megið gjarna senda okkur línu á bokvit@gmail.com.
Hér fyrir neðan er nýjasta bréfið og myndir fylgja líka :)


Ég uppgötvaði nýlega síðuna ykkar og núna er ég orðinn eldheitur aðdáandi sem fær gleðifiðring í magann þegar nýtt efni birtist. Litabækurnar þekki ég ágætlega en eins og Eiríkur Örn hef ég skoðað "bókahillan mín" dálkinn í Lesbókinni og án þess að segja nokkrum frá því látið mig dreyma um að sýna mína.

Þegar ég flutti inn í íbúðina fyrir 3 árum var svart og hvítt allsráðandi í innlit/útlit og þar sem ég er með eindæmum áhrifagjörn kona ákvað ég að lakka hillurnar háglanshvítar. En af því að ég vissi að svarthvíta myndi líða hjá á einni mínútu ákvað ég að mála vegginn á bakvið ekki svartan þó ég óskaði einskis heitar. Hann er hins vegar dökkbrúnn og þegar ég opnaði málningardósina varð ég að passa mig að hella málningunni ekki út á ís því hún var alveg eins og súkkulaðisósa.

Hillurnar eru vel á minnst vínkassar úr tré sem ég fékk gefins í ríkinu og skrúfaði beint í vegginn. (Ég var á undan Fótógrafí svo því sé líka haldið til haga. (ekki það að ég sé að springa úr hégóma))

Litaflokkunarþemað er svo þjófstolið frá Tinnu vinkonu minni sem þjófstal því úr eldgömlu tölublaði Húsa og híbýla en mér finnst það smellpassa í hillurnar góðu. Það er eitthvað svo ótrúlega frelsandi að reyna ekki einusinni að finna system heldur líta bara á lit á kili. Þetta er líka svo ótrúlega yfirborðskennt og dásamlegt.

Svörtu og hvítu bækurnar enduðu uppi á svefnlofti, bæði af því að það var ekki pláss fyrir allar og vegna þess að þar fékk ég útrás fyrir svart/hvítu áráttuna. Blessunarlega gerði ég það ekki annarsstaðar því ég gubba ef ég sé fleira svart og hvítt.

Kærustu kveðjur
Fífa

1. júlí 2009

litabækur



Kristín Viðarsdóttir á Borgarbókasafninu sendi tvær myndir af bókum sem raðað er eftir lit. Neðri myndin er af regnbogaútstillingu sem var á Hinsegin dögum en efri myndin er af bleikum bókum sem stillt var upp 19. júní.

Er einhver sem les þetta sem raðar bókunum sínum eftir lit?

Bakaradrengurinn Proust og litflokkun bóka


Marcel Proust var einu sinni í selskap þar sem menn voru að ræða hvað þeir vildu vera í lífinu ef þeir væru ekki það sem þeir væru. Proust sagði að ef hann væri ekki rithöfundur þá væri hann bakari, honum fannst svo fögur tilhugsun að hnoða deig og brauðfæða fólk. Þetta fannst einhverjum mjög fyndið, þeir sem þekktu Proust og þeir sem hafa lesið eitthvað um hann, vita nefnilega líklega að hann hefði áreiðanlega ekki getað ristað sér brauðsneið þótt hann væri í þann veginn að deyja úr hungri. Proust var víst eiginlega alveg ósjálfbjarga hvað varðaði praktíska lífið, hann lét mömmu sína og vinnukonu sjá um flest það sem ofurviðkvæmir rithöfundar, sem liggja oftast sjúgandi upp í nefið í rúminu, þurfa til að lifa af.

Mér datt þetta í hug þegar ég rakst á þessa mynd af bókahillu um daginn á bókahórusíðunni. Ein af ritdömunum þar er búin að raða öllum bókunum sínum eftir lit. Það hvarflaði í alvörunni að mér í nokkrar mínútur að reyna að leika þetta eftir. Bókahilluvandinn er eilífðarpróblem heima hjá mér, það er sama hvað ég reyni að raða í stafrófsröð eða eftir einhverjum Dewey-amatörkerfum, alltaf enda bækurnar tvist og bast í tilviljanakenndri röð eða í stöflum og hrúgum útum allt hús eða þversum fyrir framan hinar bækurnar í hillunum. Það eina góða við minn bókavanda er að ég á frekar auðvelt með að láta frá mér bækur, ég gef miskunnarlaust bókakassa í nytjagáma Sorpu í þeirri góðu trú að þaðan rati þær í Góða hirðinn og í hendur einhverra sem þær þurfa. En semsagt þar sem allt er í steik hvað varðar röðun eftir höfundum og efni, er þá ekki bara dálítið smart að raða svona eftir lit? Ég byrjaði að raða eftir þessu sýstemi í litla hillu í stofunni (hugsanlega spilaði inn í framtakssemina að ég hef meira en nóg á minni könnu og á að vera að gera eitthvað allt annað en raða bókum eða skrifa hér ef út í það er farið). Í stuttu máli þá féllust mér hendur eftir sjö sekúndur, ég gafst upp eftir að hafa raðað fimm gulleitum kjölum í röð. Ég er alveg hætt við litaröðunina í bili. Þótt ég sé sannkallaður völundur og verksnillingur miðað við Proust þá ætla ég bara að sætta mig við að ég hef meira úthald og er betri í ýmsu öðru en bókaröðun og mun frekar einbeita mér að því sem ég er góð í.

P.S. Ef þið eigið áhugaverðar bókahillur (fagrar eða ljótar) sem þið viljið deila með lesendum þessarar síðu þá takið endilega mynd og sendið á bokvit@gmail.com og ég skal setja þær á síðuna svo við getum öll inspírerast.

6. febrúar 2009

Bókaspurningalisti á föstudegi

Þessi bókadrusludama er mjög forvitin um lestur og lesvenjur annarra. Því setti hún saman þennan hnýsna spurningalista sem þið mættuð gjarnan svara í kommentakerfinu.

1. Eftir hvaða kerfi raðar þú í bókahillurnar þínar?
Dewey-kerfið eins nákvæmlega og það er hægt án þess að númera bækurnar. Eiginmaðurinn skildi ekki hvað var í gangi þegar ég tók fyrsta kast sambúðar okkar. Ég greip hann í miðjum klíðum við að stinga bók aftur í bókahilluna “bara einhverstaðar”. Á mínu heimili er það ekki til. Kannski dáldið anal en þetta eru mín einu trúarbrögð.

2. Áttu þér bók sem þú vildir gjarnan geta sagst hafa lesið en aldrei haft það af að klára?
Vildi að ég gæti svarað einhverju frumlegra en Ulysses eftir James Joyce en því miður hún er minn Moby Dick. Hef gert nokkrar atrennur að bókinni en hún sleppur alltaf undan. Taldi málið komið í höfn þegar leshringurinn minn tók hana fyrir en hringurinn gafst upp á bókinni áður en við byrjuðum. Hef meira að segja gefist upp á að lesa mikið niðursoðna teiknaða útgáfu af bókinni. Fyrst ég tók ekki Ulysses-námskeiðið hjá Ástráði Eysteins í denn og synti í gegnum bókina með kút og kork undir hans styrku stjórn þá verður líklega aldrei af  þessum lestri.

3. Eftir hvaða höfund áttu flestar bækur?
Ef ég tel arfgóssið með þá fara óneitanlega flestir hillumetrar undir Laxness, en af því sem ég hef pungað út fyrir sjálf hljóta glæpa- og vísindaskáldsagnahöfundar að vera með flestar bækur. Fór og tók út hillurnar, sem er sérlega auðvelt sökum vinar míns Dewey, og niðurstaðan var allt önnur en ég hafði talið. Ekki glæpir eða vísindi heldur japanskur súrrealismi. Hr Murakami var með flestar bækur, ellefu talsins. Gaman að því.

4. Áttu þér uppáhalds- eða draumalesstað?
Ég veit ekki með uppáhaldslesstað en þegar ég var krakki þá dreymdi mig um lestur í breiðum bogagluggakistum (á ensku: bay window, ævintýrabækur Blyton voru fullar af þeim) á bak við gardínur í fullkomnum friði. Hef aldrei komist í það en efrihæðin á Borgarbókasafninu í Þingholtsstræti að sumarlagi var góður staður fyrir lestur.

5. Hvaða bók ertu að lesa?
Það er magnað með tilviljanirnar. Ég er að lesa “Bókin mín” eftir Ingunni Jónsdóttur, sem gefin var út 1926 . Hef átt hana lengi en greip í hana fyrir rælni í gær. Ákvað svo að gúgla Ingunni þegar ég er að skrifa þetta og kemst að því að 30. janúar var á Rás eitt Sagnaslóðarþáttur um bókina og höfundinn Ingunni. Eitthvað í etherinu eða hvað? Hér er þátturinn ef ykkur vantar hressilegan skammt af sveitalýsingum.