
Hér fyrir neðan er nýjasta bréfið og myndir fylgja líka :)
Ég uppgötvaði nýlega síðuna ykkar og núna er ég orðinn eldheitur aðdáandi sem fær gleðifiðring í magann þegar nýtt efni birtist. Litabækurnar þekki ég ágætlega en eins og Eiríkur Örn hef ég skoðað "bókahillan mín" dálkinn í Lesbókinni og án þess að segja nokkrum frá því látið mig dreyma um að sýna mína.
Þegar ég flutti inn í íbúðina fyrir 3 árum var svart og hvítt allsráðandi í innlit/útlit og þar sem ég er með eindæmum áhrifagjörn kona ákvað ég að lakka hillurnar háglanshvítar. En af því að ég vissi að svarthvíta myndi líða hjá á einni mínútu ákvað ég að mála vegginn á bakvið ekki svartan þó ég óskaði einskis heitar. Hann er hins vegar dökkbrúnn og þegar ég opnaði málningardósina varð ég að passa mig að hella málningunni ekki út á ís því hún var alveg eins og súkkulaðisósa.
Hillurnar eru vel á minnst vínkassar úr tré sem ég fékk gefins í ríkinu og skrúfaði beint í vegginn. (Ég var á undan Fótógrafí svo því sé líka haldið til haga. (ekki það að ég sé að springa úr hégóma))

Litaflokkunarþemað er svo þjófstolið frá Tinnu vinkonu minni sem þjófstal því úr eldgömlu tölublaði Húsa og híbýla en mér finnst það smellpassa í hillurnar góðu. Það er eitthvað svo ótrúlega frelsandi að reyna ekki einusinni að finna system heldur líta bara á lit á kili. Þetta er líka svo ótrúlega yfirborðskennt og dásamlegt.
Svörtu og hvítu bækurnar enduðu uppi á svefnlofti, bæði af því að það var ekki pláss fyrir allar og vegna þess að þar fékk ég útrás fyrir svart/hvítu áráttuna. Blessunarlega gerði ég það ekki annarsstaðar því ég gubba ef ég sé fleira svart og hvítt.
Kærustu kveðjur
Fífa