8. október 2012

Þegar ég keypti dónabók handa barninu mínu

Í febrúar ár hvert halda bókabúðir út um alla Svíþjóð sameiginlega bókaútsölu. Hún er kynnt vel og rækilega fyrirfram, meðal annars með bæklingum sem sendir eru heim þar sem greint er frá hvaða titlar verði í boði og á hvaða verði. Nokkrum dögum áður en útsalan hefst byrja starfsmenn búðanna að stafla bókum á löng borð og á miðnætti aðfaranótt fyrsta dagsins opna búðirnar gjarnan í einn til tvo tíma til að svala eftirvæntingu þeirra allra spenntustu sem hafa þá jafnvel staðið í röð í einhverja tíma til að grípa bestu bitana. Þegar líður á útsölutímabilið tínist úr titlunum og úrvalið sem eftir er hefur tilhneigingu til að lenda í dálitlum hrærigraut, sérstaklega í stórmörkuðunum þar sem starfsfólk hefur kannski minni tök á að umstafla og raða. Það var einmitt á bókaútsölunni í einum slíkum sem ég gerði afdrifarík mistök fyrir örfáum árum.

Við mæðgurnar, ég og dóttir mín sem þá var um tíu ára, stóðum við barnabókaborðið og leituðum að ákjósanlegu lesefni fyrir þá síðarnefndu. Hún var sjálf búin að þrengja valið niður í tvær bækur, eina eftir Meg Cabot (sem hefur m.a. skrifað Dagbók prinsessu) og svo bók sem bar heitið Borta bäst og var eftir Söru Kadefors höfund bókarinnar Nyckelbarnen sem hún hafði lesið skömmu áður og verið yfir sig hrifin af. Sú stutta var eitthvað tvístígandi svo ég greip sænsku bókina og las aftan á hana. Samkvæmt káputexta fjallaði bókin um konu sem bjó í bíl fyrir utan Ikea og lifði af því að borða leifar af diskum veitingastaðarins þar eftir að hafa yfirgefið fjölskyldu sína, vinnu og heimili í kjölfar einhverrar uppákomu sem maður þyrfti vitanlega að lesa bókina til að komast að hver væri. Þetta fannst mér hljóma sem stórkostlega frumlegt og athyglisvert efni í barna- og unglingabók! Ég lýsti því yfir með miklum þunga að þessa bók litist mér vel á og þegar ég sá að barnið horfði enn efasemdaraugum á græna kápuna hóf ég langan fyrirlestur um að auðvitað gætu barnabækur fjallað um fullorðið fólk, það þyrftu ekkert endilega að vera börn í bókum fyrir börn, að það sem skipti máli væri hvernig væri sagt frá og þetta væri nú heldur betur athyglisvert umfjöllunarefni fyrir alla krakka sem hefðu áhuga á samfélagsmálefnum. Skítt með einhverjar amerískar prinsessur, þetta væru hlutir sem skipti sköpum fyrir börn að lesa um! Ég var komin í mikinn ham þarna milli útsöluborðanna (maður verður líka svo sveittur í dúnúlpunni inni í búðum svona í febrúar) þannig að dóttirin sá sér auðvitað ekki annað fært en að velja Borta bäst. Þar sem ég var búin að leggja mikið undir í þessu vali fylgdist ég sennilega betur með lestrinum en nokkru sinni fyrr. Ég spurði reglulega hvernig bókin væri og fékk framan af þau svör að hún væri skemmtileg en að hana grunaði nú samt að þetta væri ekki skrifað fyrir krakka. Ég lét mér hins vegar ekki segjast og taldi mögulegt að hún væri bara ekki orðinn nógu þroskaður lesandi til að kunna að meta svona snjalla og öðruvísi barnabók. Þangað til einn daginn að hún kom stormandi út úr herberginu sínu, rjóð í vöngum og illúðleg á svip og sagði ásakandi: „Bókin sem þú keyptir handa mér – hún er POTTÞÉTT ekki barnabók“! Eitthvað í látbragði hennar og rödd sannfærði mig samstundis. Og ég vissi, ég bara vissi að ég hefði óvart neytt barnið til að lesa kynlífslýsingu. Strax sama kvöld var komin ný bók á náttborðið og sú græna horfin veg allrar veraldar. Ég lagði aldrei í að spyrja hvað það hefði verið nákvæmlega sem hún hefði lesið enda fannst mér svo sem nóg að hafa neytt upp á barnið einhverjum dónaskap að ég væri ekki að ætlast til þess að hún þyldi hann svo aftur upp fyrir móður sína.

Á árunum sem síðan eru liðin hef ég alltaf af og til leitt hugann að þessari bók og sakbitin velt því fyrir mér hvar hún hafi eiginlega endað. Svarið fékk ég um daginn þegar ég fann hana óvænt djúpt inni í hinum svo kallaða draslskáp í herbergi dóttur minnar. Ég stóðst ekki mátið, opnaði hana á fyrstu síðu og byrjaði að lesa. Á fyrstu sextíu síðunum eða svo hafði eftirfarandi verið tekið til umfjöllunar: vændi, sprautufíkn, eiturlyfjasala, þjófnaður og líkamsárásir. Að vísu allt í fremur léttum dúr en ég fékk samt dálítið illt í magann. Hafi ég ekki verið fullviss fram að þessu um að bókin væri ekki ætluð börnum var ég það núna. Ég þurfti hins vegar að lesa nánast til enda til að finna hana, setninguna sem olli uppþotinu á sínum tíma. En um leið og ég las hana þá vissi ég það. Fyrir fullorðna lesendur var þetta kannski ósköp pen kynlífslýsing en fyrir börn var þetta einfaldlega allt of greinargott – og ég íhugaði eitt augnablik að hringja í barnaverndarnefnd og kæra sjálfa mig.

Fyrir utan kynlífslýsingu, eiturlyfjaneyslu og það allt verð ég hins vegar að segja að í raun fannst mér bókin um margt höfða sterkt til ungra lesenda. Í það minnsta var eitt og annað í henni sem minnti mig á vangaveltur mínar og minna vinkvenna á snemm-unglingsárum: Ætli maður gæti lifað af því að borða kynningarmatinn í Hagkaup?! Myndi einhver taka eftir því ef maður smyglaði sér inn í bíó í hlénu og sæi bara seinni helminginn af öllum myndum?! Guð, ætli það hafi einhvern tímann einhver óvart sofnað þegar hann var að prófa rúm í Ikea?! (Lesist með hysterísku gelgjuflissi). Það hefði alveg verið hægt að gera glimrandi unglingabók úr þessu efni. En bókin sem ég las var hins vegar ekki glimrandi. Ég veit til dæmis ekki enn upp að hve miklu marki hún átti að vera grín (sem var þá ekki allskostar vel heppnað verð ég að segja) og hvað átti að vera djúp samfélagsumfjöllun. Persónusköpunin var líka algjörlega flöt enda kannski ekki von á öðru þegar unnið er með margtuggnar klisjur. Sem dæmi má taka konuna sem elskar bara sjálfa sig og getur þar af leiðandi ekki elskað aðra, einstaklinginn sem reynir að klifra upp kapítalíska pýramídann en verður fótaskortur og hrapar á botninn, eiturlyfjasalann með hjarta úr gulli (tilbrigði við hóruna með hjarta úr gulli) og slúðurkerlingar í úthverfasamfélögum. Boðskapur bókarinnar virðist vera að konur sem hugsi um starfsframann og útlitið séu vondar mömmur. Þótt það sé út af fyrir sig ágætt að segja neysluhyggju og yfirborðsmennsku stríð á hendur þá held ég að það hljóti að vera til áhrifaríkari leiðir til þess. Þar fyrir utan hallast ég nú að því að það séu umfram allt konur sem kaupi klám handa börnunum sínum sem séu vondar mömmur.

1 ummæli:

Hildigunnur sagði...

Já væntanlega hefði Meg Cabot verið betri - mér finnst hún reyndar oft fá óréttláta gagnrýni, bráðskemmtilegar bækur. (hins vegar ekkert varið í myndirnar).