
Fyrir tæpum sex árum síðan kom út í Bretlandi fyrsta bók höfundarins Catherine O'Flynn,
What Was Lost. Bókin kom út hjá litlu forlagi í Birmingham - O'Flynn hafði gengið á milli umboðsmanna og forlaga með handritið sitt áður en þau hjá Tindal Street Press tóku hana upp á arma sína. Það er skemmst frá því að segja að skáldsaga þessi var óvænti smellurinn í bresku bókmenntalífi árið 2007; O'Flynn hreppti verðlaun fyrir bestu frumraunina hjá Costa Book Awards og var tilnefnd til Booker-verðlaunanna sem og Orange-verðlaunanna, svo eitthvað sé nefnt. Það hefur væntanlega ekki verið árennilegt fyrir höfundinn að fylgja þessum gríðarlega sökksess eftir, en rúmlega þremur árum eftir útkomu
What Was Lost birtist önnur skáldsaga O'Flynn,
The News Where You Are. Ég nældi mér í hana í Oxfam á Byres Road í Glasgow nú í haust (mæli með þeirri bókabúð fyrir þá sem koma til Glasgow og hafa gaman af second hand-bókabúðum með góðu úrvali) og las í kjölfarið
What Was Lost, sem ég hafði gefið mömmu minni í jólagjöf fyrir mörgum árum og lengi ætlað að lesa sjálf.
Ég ætla mér í rauninni ekki að skrifa eiginlega krítík um skáldsögurnar tvær eða lýsa söguþræðinum í löngu máli heldur langar mig að draga fram og íhuga einn af þeim vinklum sem mér þótti hvað áhugaverðastur þegar ég las þessar tvær bækur svona í einni bunu. Stuttlega samt um söguþráð beggja:
What Was Lost gerist annars vegar árið 1984 og hins vegar árið 2003; sögusviðið er Birmingham og þá sérstaklega verslanamiðstöðin Green Oaks sem er nýrisin þegar sagan hefst. Við kynnumst Kate Meaney, tíu ára gamalli foreldralausri telpu sem eyðir frístundum sínum við spæjarastörf í verslanamiðstöðinni með aðstoð bókarinnar How to Be a Detective. Árið 2003 finnur Lisa sem er aðstoðarverslunarstjóri í steingeldri tónlistar- og myndbandakeðju velktan tuskuapa í grámóskulegu rangölunum sem teygja sig um miðstöðina alla. Öryggisvörðurinn Kurt sér lítilli telpu bregða fyrir í öryggismyndavélunum en grípur í tómt þegar hann reynir að finna barnið og koma því til hjálpar. Bókin fjallar um einmanaleika, um vítahringina sem fólk festist í gagnvart sjálfu sér og öðrum, um svör sem finnast ekki því réttu spurningarnar hafa ekki verið bornar upp. Mögnuð bók og persónusköpunin eftirminnileg; þrátt fyrir þung, jafnvel sár umfjöllunarefni er líka húmor í sögunni og persónurnar eru aldrei vonlaus fórnarlömb heldur er í kjarna textans sterkur vonarneisti og möguleiki á að þetta einmana fólk nái að mynda raunveruleg tengsl. Ég skil afar vel að þessi bók hafi vakið svona mikla athygli, og fæ eiginlega í magann fyrir hönd Catherine O'Flynn þegar ég hugsa um það hvernig henni gæti hafa liðið að senda frá sér aðra bók við allt aðrar aðstæður en í fyrra skiptið. The News Where You Are er hins vegar virkilega fín bók; hún hafði ekki jafn sterk áhrif á mig og What Was Lost enda er lagt upp með allt annan tón.
The News Where You Are er kómískari (á tragíkómískan máta þó) og ekki jafn stingandi sár, en hún er vel skrifuð og aftur þessi sanni strengur í persónunum. Í þetta sinn er aðalpersónan sjónvarpsfréttaþulur að nafni Frank Allcroft. Frank er rúmlega fertugur og hefur alltaf upplifað sig sem einhvers konar miðlungsmann; hann er í svæðisfréttunum á Midlands-svæðinu (þaðan kemur titill bókarinnar en þegar skipt er úr aðalfréttatíma yfir í svæðisfréttir í bresku sjónvarpi er gjarnan sagt: "And now, the news where you are") og býr rétt fyrir utan Birmingham en hefur sterka tengingu við borgina í gegnum föður sinn heitinn sem var einn af arkitektunum sem settu mark sitt á borgina upp úr miðri síðustu öld. Forveri Franks í starfi - vinsæll með eindæmum - lést þegar ekið var á hann við undarlegar aðstæður og Frank verður smám saman heltekinn af ráðgátunni um andlátið þrátt fyrir að enginn annar sjái neitt dularfullt við atvik þetta. Brotin raðast saman eitt af öðru og þótt Frank sé í öndvegi fáum við einnig að kynnast sjónarhorni hins látna kollega sem og einstæðings sem fannst látinn á bekk í almenningsgarði. Frank er nefnilega líka heltekinn af þeim sem deyja einir, þeim sem daga uppi án þess að það snerti nokkurn.
 |
Hér má sjá borgarbókasafnið í Birmingham
sem hefur verið smekklega komið fyrir á þessu torgi |
Sá rauði þráður sem öðru fremur tengir bækurnar tvær er borgarlandslagið - borgarlandslagið og firringin sem leggst yfir þegar byggingar eru ekki í tengslum við fólkið sem á að blása lífi í þær.