Sýnir færslur með efnisorðinu brúðuleikhús. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu brúðuleikhús. Sýna allar færslur

30. maí 2013

Hæ, hæ og hó, hó, húsfreyja veit ekki hvað ég heiti

Í síðustu viku las ég einkar fagra barnabók sem er tiltölulega nýkomin út hjá Forlaginu. Listamaðurinn Bernd Ogrodnik hefur komið víða við í íslensku menningarlífi síðustu árin og ekki síst á sviði barnamenningar. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá er Bernd brúðulistamaður sem meðal annars hefur unnið að vel heppnuðum og vönduðum leiksýningum fyrir börn. Fyrir rúmum tveimur árum var frumsýnd barnasýningin Gilitrutt eftir þá Bernd, Benedikt Erlingsson leikstjóra og fleiri góða listamenn. Sú sýning var einstaklega skemmtileg, metnaðarfull og hugvitssamleg, og fer sveimérþá bara efst á listann hjá mér yfir uppáhaldsbarnasýningarnar á síðustu árum. Nú hefur Bernd unnið bók upp úr sýningunni ásamt þeim Kristínu Maríu Ingimarsdóttur hönnuði og Silju Aðalsteinsdóttur þýðanda. Bókin nefnist Gilitrutt og hrafninn, væntanlega til að koma í veg fyrir að henni sé ruglað saman við eldri útgáfur af þjóðsögunni þekktu um bóndakonuna lötu sem lætur blekkjast af tröllskessu en snýr að lokum á hana með aðstoð krumma og bónda síns. Bernd og Kristín María hafa áður unnið saman bókina Pétur og úlfurinn, sem var sömuleiðis unnin upp úr brúðusýningu Bernds.

Kristín María og Bernd á góðri stundu
Sagan er sögð bæði með myndum og orðum. Textinn er ekki látinn flæða inn í myndirnar eins og er ein aðferð við myndskreytingar, heldur er textinn til hliðar við myndirnar. Við fyrstu sýn fannst mér eins og þau Bend og Kristín væru þar með að missa af tækifæri til að samþætta texta og mynd, en við frekari umhugsun komst ég á þveröfuga skoðun og er eiginlega á því að myndirnar - sem eru ljósmyndir af brúðum og leikmynd Bernds - myndu ekki þola að texta væri blandað inn í þær og ómögulegt væri að gera það svo vel færi á. Galdrar þessa tiltekna myndheims liggja í öðru. Höfundur notar í grunninn nútímalegt orðfæri en fléttar við og við inn í "erfiðari" orðum sem er nokkuð sniðug aðferð; þannig skilst sagan þótt lesið sé fyrir lítil börn en tilefni gefst líka til að útskýra ókunnug orð, sem mér finnst sjálfsagður hluti af því að lesa fyrir krakka (vonandi vita foreldrarnir/kennararnir hvað vaðmál og bæjarburst eru!).

20. nóvember 2012

Bókmenntir, brúður og leikhús

Þetta var einhverra hluta vegna fyrsta myndaniðurstaða
þegar ég gúglaði jólabókaflóðið.
Jólabókaflóðið lætur ekki að sér hæða. Ég reyni mitt besta til að fylgjast með úr finnskri fjarlægð, og í það minnsta er internetið morandi í útgáfufögnuðum, kápumyndum, bókadómum og sölutölum. Hérna megin hafs teygir flóðið sig auðvitað líka hvað lengst uppá land fyrir jólin; finnskar bækur, þýddar, barna- og allskonar. Undanfarið hef ég sankað að mér þýddum bókum í vaxandi mæli ‒ verandi hvort sem er ólæs á annað en norræn mál og ensku datt mér í hug að ég gæti sem best lesið franskar, þýskar eða rússneskar bókmenntir í finnskum þýðingum og æft þá finnskuna mína í leiðinni.

Um daginn var ég til dæmis að skoða nýja finnskuþýðingu á þremur leikritum eftir Federico García Lorca, en þetta var einmitt um sama leyti og við kórinn minn vorum að æfa kórverk með texta úr ljóði eftir þann sama Lorca. Síðastliðna helgi sá ég síðan brot úr finnskri uppsetningu á brúðuleikhúsverkinu Retablillo de Don Cristóbal, eftir hvern annan en hinn spænska Federico del Sagrado Corazón de Jesús García Lorca, og flaug þá í hug að alheimurinn væri hugsanlega að reyna að segja mér eitthvað með milligöngu skapbráðu, fjólubláu feltbrúðunnar sem svo þróttmikil sló sambrúður sínar eina af annarri í trékylft rot.