12. desember 2010

„það þarf að murka líftóruna úr áhættufælnum frösum“

Okkurgulur sandur er nýtt safn með tíu ritgerðum um bókmenntaverk Gyrðis Elíassonar. Höfundarnir eru Guðmundur Andri Thorsson, Guðrún Eva Mínervudóttir, Halldór Guðmundsson, Helgi Þorgils Friðjónsson, Hermann Stefánsson, Ingunn Snædal, Jón Kalman Stefánsson, Sigurbjörg Þrastardóttir, Sveinn Yngvi Egilsson og Fríða Björk Ingvarsdóttir.

Í inngangi ritstjórans, Magnúsar Sigurðssonar, segir að tilgangurinn með bókinni sé að kortleggja eftir megni þann margbrotna og um margt einstaka sagna- og ljóðaheim sem Gyrðir hefur dregið upp frá fyrstu bók sinni Svarthvít axlabönd sem kom út 1983, en hann tekur auðvitað fram að slík kortlagning sé takmörkunum háð, enda verk Gyrðis, þýdd og frumsamin, á fimmta tuginn. Ritgerðirnar geta varla talist langar, bókin er ekki nema 125 bls. með inngangi, svo það er augljóst að þetta er engan veginn tæmandi verk. Höfundarverk Gyrðis hefur þróast og tekið miklum breytingum í gegnum árin. Það er fátt líkt, að minnsta kosti á yfirborðinu,  með ljóðabókinni Tvíbreitt (svig)rúm frá 1984 og Sandárbókinni, sem kom út 2007, svo ég nefni tvö verk Gyrðis sem ég hef lesið (ég hef ekki lesið allar bækur hans) en oft finnst mér fólk ræða verk Gyrðis Elíassonar eins og þau séu einsleit og hvert þeirra öðru líkt, sem er alls ekki rétt þó að auðvitað megi alveg tala um ákveðin höfundareinkenni. En það er sem sagt ljóst að í þessari stuttu bók er aðeins drepið á hinu og þessu en bókin er þó happafengur fyrir þá sem vilja kynna sér verk Gyrðis. Mér finnst þetta líka afskaplega skemmtilegt form, það er gaman að fá svona safn sem er eingöngu helgað verkum eins höfundar og þau rædd á fjölbreyttum nótum af ólíkum höfundum.

Ritgerðunum í bókinni er ætlað að vera aðgengilegar og fræðandi (en ekki endilega fræðilegar eins og tekið er fram – hvað það svo sem þýðir). Þær má margar segja lýsingar á lestrarreynslu höfundanna, en sjónarhorn hvers ritara er þó hnitmiðað. Margar greinanna eru skrifaðar af mikilli aðdáun á skáldinu Gyrði Elíassyni og fer ekki hjá því að sumar eru skáldlega fram settar, enda oftar en ekki skáld sem halda á penna eða berja á lyklaborð. Sem dæmi má nefna innlegg Jóns Kalmans Stefánssonar, Á svörtum vængjum inn í ljósið, þar sem segir :
Skáldskapur er undurfurðuleg blanda af fegurð og feigð, grimmd og kvíða, visku og barnaskap, og þá kannski vegna þess að hann er órökvís í eðli sínu. Órökvís og getur þess vegna orkað undarlega sterkt á okkur, sér í lagi ljóðið, andblær þess smýgur inn og andar á það sem sefur í djúpinu. Ljóðið getur hjálpað okkur þegar möguleikum lífsins virðist fækka, birtan hefur dofnað, við fálmum kannski inn í runnaþykkni eftir ljóskúlu sem hefur verið falin annarsstaðar; þá getur ljóðið komið til hjálpar með órökvísi, djúpri og stundum barnalegri visku sinni; hjálpað okkur til að sjá eða gruna að kuldinn er hugsanlega bara yfirborð: (bls. 11)


Þetta, og fleira í grein JKS, finnst mér óneitanlega ansi páfuglslega skrifað þó að það sé svolítið skemmtilegt, en við Jón Kalman erum greinilega óskaplega ólíkt fólk, hann segir á öðrum stað frá því þegar hann sá Gyrði í fyrsta skipti í Ríkinu við Lindargötu: „Ég man að það var talsvert áfall fyrir mig, að hann skyldi vera svona kátur, ég stóð þá í þeirri trú að skáld bæru sársaukann utan á sér, …" (bls. 12). Undirrituð, hafandi ekki umgengist mörg skáld fram eftir aldri, er svo óskáldlega innréttuð að hafa aldrei látið hvarfla að sér annað en að skáld bæru ekki meira sársauka utan á sér eða innan í sér en annað fólk. Jafnvel held ég að ég hafi talið þau hljóta að vera glaðbeitta lukkuriddara að fá að vinna skemmtilegri vinnu en flestir aðrir. En hvað um það Jón Kalman fjallar ágætlega um ljóð Gyrðis og tengir verk hans við verk annarra skálda og gerir þetta býsna skemmtilega og greindarlega. Grein Guðrúnar Evu fjallar um Bréfbátarigninguna, hún er á persónulegum nótum í nálgun sinni og greinin er fremur stutt, fyrir mér var þetta mest upprifjun á þessari ágætu bók. Það er margt ágætt í grein Fríðu Bjarkar um þýðingar. Hún fjallar meðal annars um galdurinn við góða þýðingu, sem hún telur byggðan á skapandi mætti þýðandans og hæfileikum hans til að miðla því sem eitt tungumál getur tjáð yfir á annað þannig að þýðingin sé ekki síðra verk en frumtextinn. Þýðandinn þarf að lesa í hugarheim höfundarins og menningarheiminn handan orðanna, þann sem verkið rís úr. Guðmundur Andri Thorsson skrifar grein um tónlist í verkum Gyrðis. Hann minnist meðal annars á munnhörpuna, sem hann segir eftirlætishljóðfærið og finna má víða í verkunum. Tónlist hljómar sífellt hjá Gyrði og undirtitill Sandárbókarinnar, Pastoralsónata, vísar jú einmitt til fimmtándu píanósónötu Beethovens.

Ég er á því að grein Hermanns Stefánssonar um Sandárbókina sé sú beittasta og besta í bókinni. Hermann skrifar: „það þarf að murka líftóruna úr áhættufælnum frösum sem ávallt koma upp í tengslum við verk einstakra höfunda, þjóða og kynslóða.“ (bls. 73). Hann segir líka að það sé alkunna að þeim mun auðveldara sé að fabúlera um verk rithöfunda sem þau séu meira drasl og að nóg sé til af vaðli um slakar bækur eftir vonda höfunda. Hermann telur Sandárbókina einhverja mest afgerandi pólitísku yfirlýsingu sem út kom á tímum góðærisins. Fyrir þessu færir hann góð rök og þessi grein er lúnkin og gagnleg greining á Sandárbókinni. Mig langar að lauma því að hér að mér finnst að það ætti að kvikmynda Sandárbókina (hefur það kannski einhversstaðar verið rætt?) þar sem sagan er svo myndræn, ég sé hana fyrir mér sem bíómynd. Ég ætla ekki að tíunda fleiri greinar í þessu safni sérstaklega en mæli eindregið með Okkurgulum sandi (ég hefði samt ekki valið þennan titil á bókina).

Hefði ég verið beðin að skrifa grein í safn um verk Gyrðis Elíassonar hefði greinin mín fléttað saman verkum Gyrðis og Tove Jansson, þeirrar sem skrifaði bækurnar um Múmínálfana og um tug annarra skáldverka. Ég sé samtengjandi þræði á hverju strái. Í Múmínálfabókunum leikur til dæmis tjaldbúinn og einfarinn Snúður á munnhörpu og virðist smellpassa inn í vissar sögur Gyrðis og í Sommarboken (sem ekki hefur verið þýdd á íslensku) minna samskipti gamallar konu og sérviturrar stelpu, sem búa saman á eyju, á persónur í bókum Gyrðis þar sem sérvitur börn og einræn gamalmenni eru gjarna á stjákli og stússandi í ýmsu í öllum veðrum.

Þórdís Gísladóttir

1 ummæli:

HelgaF sagði...

Takk fyrir greinina. Handfjatlaði Okkurgulan sand í Eymó í gær. Útlitið minnir á bækur frá 5. áratugnum en ég hef mikið dálæti á bókakápum frá þeim tíma. Gott að vita að umbúðagræðgina verður hægt að réttlæta með innihaldinu.