7. janúar 2012

Tíminn er hrotti: jólin gerð upp.

Um jólin las ég tvær frábærar bækur. Sú fyrri, Nóvember 1976 eftir Hauk Ingvarsson, gerði jóladagsleguna afar ánægjulega, en Þórdís Gísladóttir hefur þegar fjallað um bókina hér. Mig langar þó aðeins að minnast á byggingu skáldsögu Hauks: frásögnin flakkar á milli sögupersóna sem eiga það sameiginlegt að búa í sömu blokk þannig að skipt er um sjónarhorn í hverjum kafla. Persónurnar eiga samskipti sín á milli og smám saman hafa þær áhrif á líf hverrar annarrar. Eins og Þórdís bendir á í bloggfærslunni sinni um bókina gerist hún á þremur dögum, í tímaröð og söguþráðurinn er nokkuð beiskk (Haukur gerir þetta allt saman mjög vel, tékkið á þessari bók). Hin bókin sem ég heillaðist af er A Visit from the Goon Squad eftir Jennifer Egan. Bókina fékk ég í tölvupósti á aðfangadagsmorgun og hún rann svo þaðan beint í kyndilinn minn. Ég ákvað að þetta yrði fyrsta bókin sem ég myndi lesa með þessari nýju tækni. Það eina sem ég vissi um bókina áður en ég byrjaði að lesa var að Egan hreppti Pulitzer verðlaun fyrir hana árið 2011. Bygging bókarinnar minnti mig í fyrstu á bók Hauks (ég veit ekki af hverju, en mér fannst það í svolitla stund afskaplega líklegt að Egan myndi barasta gera allt nákvæmlega eins og hann og var alsæl með það), en smám saman áttaði ég mig á því að ég fengi aðeins að kynnast sjónarhorni hverrar persónu einu sinni og að persónurnar tengdust oft mjög lauslega, að hver kafli gerist á ólíku tímabili og söguþráð vantaði í rauninni alveg. Kaflarnir minntu oft frekar á lauslega tengdar smásögur. (Ég veit, ég er að bera saman gjörólíkar bækur en mér finnst ég bara verða að leiða ykkur í gegnum upplifun mína á þessu öllu saman.)

Það tók mig smá stund að sætta mig við þetta, ein af ástæðunum fyrir því að ég les ekki mikið af smásögum er sú að ég tek gjarnan ástfóstri við sögupersónur og vil meira, er ekki tilbúin að sleppa þegar sögunni lýkur, ef hún er á annað borð góð. Hver kafli í A Visit from the Goon Squad gæti staðið sem sjálfstæð saga og nokkrir þeirra hafa raunar birst áður í tímaritunum The New Yorker, Tin House og Granta og í smásagnasafninu This is Not Chick Lit (2006). Það má því kalla bókina „sagnasveig“, en eins og Ásdís Sigmundsdóttir, Víðsjárgagnrýnandi, bendir á í umfjöllun sinni um Valeyrarvals Guðmunds Andra Thorssonar, hafa „sagnasveigar [...] verið skilgreindir sem safn stuttra sagna sem tengjast, í gegnum staðsetningu, þema, eða persónur en geta þrátt fyrir það einnig staðið sjálfstæðar.“

Jennifer Egan að tjilla.
Kaflarnir/sögurnar mynda svo heild sem er að einhverju leyti gloppótt, en þó fannst mér bókin kannski helst sýna hvað hefðbundar skáldsögur sem hafa heilsteyptan söguþráð og skýrt afmarkaðan sögutíma eru blekkjandi og lítið heildstæðar í raun. Samhengið í þessu smásagnasafni er mun stærra, frásögninni eru lítil sem engin takmörk sett í tíma (lokakaflinn gerist í framtíðinni) og persónurnar að mestu afhjúpaðar svo lítið beri á í gegnum aðrar persónur. Það vantar aðalpersónu, þótt allar persónurnar tengist á einhvern hátt aðalpersónunum úr fyrstu tveimur köflunum. Mér leið að minnsta kosti eins og heimurinn væri frekar einhvern veginn svona og að hefðbundnari skáldsögur endurspegluðu þá frekar mína oft á tíðum sjálfmiðuðu upplifun á heiminum (= allt snýst um mig).

Þessi smásögufílingur varð líka til þess að mér fannst yfirleitt eitthvað mjög bitastætt vera í hverjum kafla, eitthvað nýtt sem heillaði, ákveðið andrúmsloft eða hugmyndir sem hefðu kannski ekki passað alveg við hina kaflana/sögurnar.

Ef maður ætti að finna einhver gegnumgangandi umfjöllunarefni í sögunum, þá eru það tíminn og minningar. Að minnsta kosti tvisvar í bókinni er talað um að tíminn sé hrotti (goon – ath. titil!), enda eiga persónur hennar það til að eldast svolítið harkalega. Eins má finna tilvitnanir í verk Proust, Í leit að glötuðum tíma, fremst í bókinni. Hér er önnur þeirra:

„Poets claim that we recapture for a moment the self that we were long ago when we enter some house or garden in which we used to live in our youth. But these are most hazardous pilgrimages, which end as often in disappointment as in success. It is in ourselves that we sould rather seek to find those fixed places, contemporaneous with different years.“

Í bókinni eru ánægjuleg augnablik rifjuð upp, slæmar minningar ásækja fólk – 2. kafli er í uppáhaldi hjá mér, en hann fjallar um plötuútgefandann Bennie sem er alltaf á bömmer yfir einhverju asnalegu sem hann sagði eða gerði fyrir mörgum árum – og persónur hafa gjarnan tilfinningu fyrir því að það sem þær eru að upplifa eigi eftir að geymast í minninu um árabil. Bókin hefst til dæmis með því að Sasha, stelsjúk ung kona, stelur seðlaveski úr tösku inni á kvennaklósetti á meðan á stefnumóti stendur. Hún kemst nokkurn veginn klakklaust frá því og býður Alex, gaurnum sem hún er að hitta, heim með sér. Hann er nýkominn til New York (það er svolítið NY-blæti í nokkrum sagnanna) og verður yfir sig hrifinn þegar hann kemst að því að hún býr í einni af NY-íbúðunum sem eru svo spes að það er baðkar í eldhúsinu (– er það eitthvað sem maður á að kannast við?). Sasha er þá handviss um að hann muni rifja þetta stefnumót upp mörgum árum síðar, en eigi bara eftir að muna eftir baðkarinu. Það kemur hins vegar fram í lokakafla bókarinnar að það reynist ekki vera rétt hjá henni, en kaflinn fer að hluta til í að lýsa tilraunum Alex til að rifja upp stefnumótið sem átti sér stað fyrir meira en tíu árum (hann er orðinn miðaldra og árið er held ég tvöþúsundtuttuguogeitthvað).

Ég ætla svosem ekki að rifja innihald bókarinnar frekar upp í bili, en enda þetta blogg á ummælum Jules, bróður eiginkonu Bennie (muniði, þarna plötuútgefandans í 2. kafla), um það hvernig tíminn hefur liðið á meðan hann var í fangelsi. (Aðallega vegna þess að ég hljóma eins og ég sé freðin hálfan daginn, allt útaf internetinu. Og þið vitið, Tom og Nicole... hver er búinn að jafna sig á því?):

"I go away for a few years and the whole fucking world is upside down,"Jules said angrily. "Buildings are missing You get strip-searched every time you go to someone's office. Everybody sounds stoned, because they're e-mailing people the whole time they're talking to you. Tom and Nicole are with different people...And now my rock-and-roll sister and her husband are hanging around with Republicans. What the fuck!" 
A Visit from the Goon Squad, bls. 123

1 ummæli:

Þórdís Gísladóttir sagði...

Mig langar nú bara að lesa þessa bók.