10. janúar 2012

Ef Einar og Gyrðir leggðu í púkk ...

Það er allur gangur á því hvað það gerir fyrir mig að heyra höfunda lesa úr eigin verkum, stundum virkar það fremur eins og viðvörun en hvatning, en undir lok síðasta árs heyrði ég sænska rithöfundinn Önnu Ringberg lesa upp úr nýrri bók sinni og varð svo áhugasöm að mér fannst ég verða að ná í bókina. Bókin heitir Boys og er fyrsta bók Önnu, hún var tilnefnd til a.m.k. tveggja debútantaverðlauna í Svíþjóð í fyrra (þar eru nokkur bókmenntaverðlaun sérstaklega tileinkuð fyrstu verkum höfunda). Á meðan ég var að bíða eftir að bókin kæmi með póstinum gúgglaði ég nokkur viðtöl við höfundinn og umfjallanir um bókina og komst að því að hún hefur almennt fengið frábæra dóma. Engu að síður var ég með ofurlitlar efasemdir fyrirfram og vissi ekki alveg hverju ég ætti að búast við. Bók sem hefur hund sem eina af þremur aðalpersónum er ekki alveg það sem ég veldi mér fyrst af öllu sem lesefni, talandi krúttdýr eru ekki í uppáhaldi hjá mér. Efinn fylgdi mér í gegnum fyrstu síður bókarinnar en þegar ég var búin með upphafskaflann var ég steinhætt að efast, ég komst að því hundurinn Boys er ekkert talandi dúlludýr og hann fær alveg að vera hundur. Boys er mjög fín bók og tvímælalaust með því besta og eftirminnilegasta sem ég las árið 2011.
Aðalpersónur bókarinnar eru hundurinn Boys, eigandi hans Lasse, sem er 65 ára og býr í gömlum og hroðalega draslaralegum sumarbústað fyrir utan einhvern bæ, og sonur Lasse, Matti, sem umgengst föður sinn ekkert og starfar sem einhverskonar ráðgjafi. Þegar sagan hefst er Lasse að undirbúa 65 ára afmælið sitt og sonurinn ætlar loks að koma í heimsókn. Lasse er drykkfelldur, en fer á AA-fundi og er nokkurnveginn búinn að ná tökum á neyslunni þó að hann falli öðru hverju, hann er í „starfsþjálfun“ á dagsetri fyrir utangarðsfólk, það kemur fram að hann hefur hlotið vægan dóm einhvern tíma og hann er í stríði við nágrannana og félagsmálayfirvöld. Í upphafi týnist hundurinn og hann er fjarverandi eigandanum alla bókina. Matti veit hins vegar meira en Lasse um hundshvarfið og lesandinn fylgist með hundinum og sér inn í huga hans öðru hverju, upplifir meira að segja með honum hressilega hundaerótík.

Persónulýsingarnar í Boys eru alveg einstaklega vel gerðar. Týpa á borð við Lasse gæti auðveldlega orðið einn af klisjukenndum lúserum sem víða má finna, en það er hann nefnilega ekki. Hann á hund sem er dýr og vel ættaður og þarf að vera í fötum í kuldanum (en Lasse gefur honum kattamat því hundamaturinn er svo dýr), hann er tvíkynhneigður og það er afar fátt klisjukennt við kallinn. Lasse kemur lesandanum þægilega á óvart og eftir því sem líður á bókina finnst manni auðvitað vænna og vænna um hann.

Svíar eiga sér ríka hefð fyrir svokölluðum „arbetarlitteratur“ - bókum um stéttaskiptingu, kúgun og óréttlæti sem verkalýðurinn þarf að þola, en höfundurinn sagði í viðtali að þessi bók væri e.k. öfugur arbetarlitteratur, það er ósköp lítið pláss á vinnumarkaðinum fyrir fólk eins og Lasse. Hann er á einhverjum bótum og vill vinna eitthvað, en það er bara ekkert í boði fyrir svona kalla og því finnst honum hann allsstaðar mæta mótlæti og ræktar alveg með sér vænisýkina. Það er samt ekkert verið að troða boðskap ofan í kokið á lesandanum í þessari bók. Boys er afskaplega vel unnin og úthugsuð enda er Anna Ringberg sjálf ritstjóri á forlagi og veit vel hvað hún er að gera. Hún dettur ekkert í að skýra alltof mikið. Maður þarf alveg að lesa á milli línanna, samt ekki þannig að persónurnar og saga þeirra séu í þoku. Sjónarhornið er ansi lunkið, það flakkar á milli Matta (þar er 1. persónu frásögn), Lasse og hundsins og það er frekar spes og skemmtileg kombínasjón og býsna djarft að þora að skella þessum hundi í aðalhlutverk finnst mér, það hefði auðveldlega getað orðið kjánalegt og sentímentalt. Frásögnin verður aldrei uppáþrengjandi eins og þær eiga til að verða raunsæislegu frásagnirnar af sérkennilegum mönnum sem búa í skítugum húsum, vakna oft skelþunnir, eru orðheppnir og sótbölva í tíma og ótíma og eru búnir að klúðra meira og minna lífi sínu.

Ég skrifaði í gríni á facebook um daginn eitthvað í þá átt að Boys væri eins og ef Einar Kárason og Gyrðir Elíasson, hefðu skrifað hana í sameiningu en fengið snjalla sænska konu sem ritstjóra. Þarna er einmana og klár náungi með sérkennilegan talanda og óljósa fortíð, sem býr í sumarhúsi í jaðri þéttbýlis og á son sem hann umgengst ekkert og líður illa yfir því. En hann á líka fullt af skrítnum vinum, þeirra á meðal eru grískur smákrimmi, ógeðfelldur dópisti og leðurhommi á mótorhjóli og svo fær hann heimsókn frá fúlum félagsráðgjafa sem ræktar naggrísi og hann grunar hana um lifa á naggrísafóðri.

Boys ekkert löng bók en hún segir býsna yfirgripsmikla sögu og er bæði fyndin og sorgleg, já og hún er líka spennandi. Bókin fjallar um félagslegan veruleika fólks sem ekkert pláss er fundið fyrir í samfélaginu. Hún fjallar samt kannski aðallega um einmana fólk, samskipti föður og sonar, samskipti manns og hunds, og samskipti karls og konu, já bara sambönd almennt, en þau eru auðvitað það flóknasta og áhugaverðasta sem til er.


Engin ummæli: