20. júlí 2015

Sænskur hryllingur fyrir sumarfríið

Kristina Ohlsson í góðum gir
Það er vert að taka það strax fram að ef einhver er að leita að notalegum reyfara sem gerist á sveitasetri í Englandi og hvar böndin berast að brytanum þá er Davíðsstjörnur ekki rétta bókin. Ef verið er að leita að ofbeldisfullum og þunglyndislegum reyfara þar sem rannsóknarmaðurinn er hvítur, miðaldra, alkóhólíseraður karlmaður og í sífelldum útistöðum við yfirmenn sína þá er Davíðsstjörnur ekki heldur rétta bókin. Hér er sem sagt hvorki um að ræða líkindi við Agatha Christie, Jo Nesbö né Henning Mannkell. Þetta er hins vegar frekar óþægileg og afskaplega spennandi bók – svo ef lesandinn er að leita að slíku þá er Davíðsstjörnur rétti sumarreyfarinn!


Höfundurinn - hin sænska Kristina Ohlsson er stjórnmálafræðingur og hefur meðal annars starfað hjá sænsku öryggislögreglunni, í utanríkisráðuneytinu og sem yfirmaður hryðjuverkasviðs OSCE. Einng var hún sérfræðingur í málefnum Mið-Austurlanda. Lengi vel sinnti Ohlsson ofannefndum afreksmanna-vinnum og skrifaði svo bækurnar í frítíma sínum (!!) en árið 2011 sneri hún sér alfarið að ritstörfum. Davíðsstjörnur er fimmta bókin í spennusagnaflokknum um Alex Recht og Fredriku Bergman og Peder Rydh (Salka Guðmundsdóttir skrifaði um þriðju bókina hér) en þar að auki hefur Ohlsson skrifað spennubækur fyrir börn og unglinga og tvisvar verið tilnefnd til sænsku glæpasagnaverðlaunanna...og já – hún er fædd 1979 (hér er gaman að geta þess að ég lærði að hekla í janúar). Bókin er prýðilega þýdd af Eyrúnu Eddu Hjörleifsdóttur.

Ef ég hefði verið búin að lesa almennilega aftan á Davíðsstjörnur hefði ég mögulega aldrei opnað hana – en í einhverjum æðibunugangi greip ég bókina bara og byrjaði að lesa og þá varð ekki aftur snúið. Fyrir viðkvæma lesendur vil ég hins vegar ítreka – hér snýst allt um glæpi gegn börnum – þetta er ekki notaleg lesning. Plottið snýst í örstuttu máli um að leikskólakennari er skotinn af færi fyrir framan nemendur sína (lesist - leikskólabörn) og stuttu síðar er tveimur 10 ára drengjum rænt. Öll eru fórnarlömbin gyðingar og meðlimir í Salómonssöfnuðinum (til gamans má geta þess að umboðsskrifstofa höfundar heitir einmitt Salomonsson). Stóra spurningin er hvort atburðirnir tveir séu tengdir – og aftur – hvernig þeir tengjast óhugnanlegri ísraelskri þjóðsögu um „Pappírsstrákinn“ sem rændi börnum, drap þau og skildi eftir nakin með pappírspoka á höfðinu...sem sagt - þú drekkur ekki mímósur í sólinni með þessari bók. En hver hefur svo sem tíma fyrir mímósur í svona spenningi…

Bókin er knöpp í stíl og atburðarásin hröð, engin sérstök stílsnilld á ferðinni – en persónulýsingar óvenjugóðar miðað við marga reyfara. Þetta er eins og áður sagði fimmta bókin í flokknum og margt hefur greinilega drifið á daga aðalpersónanna í síðustu bókum sem sífellt vísað til. Það er í aðra röndina svolítið þreytandi en fyllir um leið upp í myndina sem birtist smám saman af persónunum. Ég er ekki frá því að kvenpersónurnar séu dregnar aðeins skýrari dráttum en karlarnir en ég þyrfti eiginlega að lesa fleiri bækur til að geta fullyrt um það – ég hef á tilfinningunni að heilmiklu púðri hafi verið eytt í Alex Recht áður og því finnist höfundi kannski óþarfi að skrifa mikið um hann núna. Nógu mikinn tíma fær hann þó til að skera sig eins og áður sagði frá hinum „sígildu“ skandinavísku lögreglumönnum. Enda segir Ohlsson í viðtali hér að hún hafi unnið með lögreglunni í fimm ár og aldrei séð löggu undir áhrifum í vinnunni. Hún ákvað því að skapa lögreglumann sem væri í góðu jafnvægi, fær í mannlegum samskiptum og í góðu sambandi við börnin sín. Hér endurnýja lesendur líka kynnin við fyrrverandi lögreglumanninn Peder Rydh sem stóð greinilega af sér ýmsa storma í síðustu bók. Áhugaverðasta persónan er þó greinandinn og fiðluleikarinn Fredrika Bergman sem ég gæti vel hugsaði mér að lesa meira um.


Bókin gerist í Svíþjóð og að nokkru leyti í Ísrael – þangað sem flestir þræðir rannsóknarinnar liggja. Stríðið í Palestínu fléttast óbeint inn í atburðarásina og spilar í raun heilmikla rullu án þess þó að höfundur fjalli beint um málið eða virðist taka nokkra afstöðu stríðsins. Það þarf að sjálfsögðu ekki að vera galli og augljóslega er það ekki af vanþekkingu enda höfundur sérfræðingur í málefnum Mið-Austurlanda – en hér virkar það dálítið máttlaust – að draga lesendur alla þessa leið og tipla svo einhver veginn bara á tánum í kringum eitt stærsta og óhugnalegasta mál líðandi stundar. Þá finnst mér (miðað við alla skelfinguna sem maður veit að hefur átt sér stað þarna á síðustu árum) dálítið ósannfærandi að yfirvöld í Ísrael séu tilbúin að ganga jafn langt og raun ber vitni til að halda vissum þáttum þessa stríðs leyndu. En nú er ég farin að hljóma of dularfull – ég vil ekki eyðileggja plottið fyrir lesendum! Í öllu falli kemur niðurstaðan kannski ekki óvart – í stríði eru það alltaf þeir sem síst skyldi sem allt bitnar á – börnin.

En sem sagt – ef maður þolir að lesa um glæpi gegn börnum og lætur óljósar pælingar um stríðið í Palestínu ekki fara í taugarnar á sér þá er Davíðsstjörnur gríðarlega spennandi og vel skrifaður reyfari sem lesandinn gleypir í sig á methraða og getur þá róað taugarnar með súkkulaði, hannyrðum og áhorfi á Midsomer Murders (þessi dæmi eru að sjálfsögðu algjörlega úr lausu lofti gripin).

Engin ummæli: