25. nóvember 2011

Dönsk óþægindi og óhugnaður

Bavíani – eftir dönsku skáldkonuna Naja Marie Aidt er ekki þægileg bók, hún er ekki hugguleg lesning – maður hringar sig ekki upp í sófanum með tebolla og súkkulaði og á góða stund. En ég myndi hiklaust lesa aðra bók eftir Aidt – strax í kvöld – svo augljóslega hefur Bavíani ýmislegt annað sér til ágætis.

Naja Marie Aidt fæddist í Grænlandi á aðfangadagskvöld árið 1963 en flutti með fjölskyldu sinni til Kaupmannahafnar þegar hún var sjö ára. Hún gaf út sína fyrstu ljóðabók Saalænge jeg er ung (Meðan ég er ung) árið 1991 og hefur síðan skrifað bæði ljóð, smásögur, kvikmyndahandrit og leikrit – bæði fyrir svið og útvarp. Hún hefur hlotið fjöldamörg verðlaun og fyrir Bavíana fékk hún einmitt Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2008. Bjartur gaf bókina út í ljómandi góðri þýðingu Ingunnar Ásdísardóttur nú í sumar.



Þetta eru eins og áður sagði ekki þægilegar sögur, það grúfir myrkur yfir þeim, stundum í bókstaflegum skilningi, sumar sögurnar gerast í ljóslausu skammdeginu, en jafnvel þegar saga lýsir sólardegi í brúðkaupsferð á Grikklandi þá er andrúmsloftið dökkt og þrungið óhugnaði. Í smásögum Gyrðis Elíassonar liggur stundum einhver óútskýranleg ógn yfir hversdagslegri frásögninni – en hér er ógnin ekki lengur óútskýranleg – það sem maður óttast mest gerist. Þetta eru sögur um martraðir – fjölskylda villist í skógi með slasað barn, kona sér eiginmann sinn með annari konu, móðir misþyrmir barni og mýbit verður að allsherjar sýkingu sem dregur mann nánast til dauða. Sögurnar eru jafnvel eins og hryllingssögur –enda hefur Aidt sjálf líkt stíl sínum við stíl hrollvekjumeistarans Stephen Kings. Þannig má líka líta á sögurnar, sem hrollvekjur. Eiginlega strax eftir fyrstu söguna (og örugglega eftir fyrstu tvær) er lesandinn farinn að búast við hinu versta – hann veit að eitthvað skelfilegt muni líklega gerast og eins og áhorfandi sem situr á sætisbrúninni í kvikmyndahúsinu og bíður eftir að morðinginn stökkvi fram úr skápnum situr lesandinn heima í stofu og býr sig undir komandi skelfingu. Eins og títt er um hryllingsmyndir eru sögur Aidt líka ákaflega líkamlegar – það er mikið um kynlíf, mat, veikindi og rotnandi náttúru. Fólk gubbar, fær graftarkýli, hor og útbrot, verður berjablátt og finnur líkamslykt á meðan að sæði og tár leka í stríðum straumum niður blaðsíðurnar: „Gröftur byrjaði að vella út úr eyrunum á honum, augun voru sokkin og nefið stíflað, hvort tveggja fullt af klístraðri, grænni vilsu, honum var alltaf óglatt, svo fékk hann niðurgang, seinna blóðuga drullu.“ (bls. 191)

Þó væri ekki rétt að segja að sögurnar væru almennt grófar – eða kannski er réttara að segja að þær geti allt eins verið ljóðrænar og jafnvel viðkvæmnislegar þótt stíllinn sé í sjálfu sér blátt áfram: „Laufblöð hníga rótt til jarðar. Sólin brýst fram. Eitt andartak virtist allt vera í samhengi, vera eins og það á að vera; ég horfði á skugga trjákrónanna á stígnum, ég sá hvernig vindurinn feykti laufinu til hátt uppi, ljósblikið; þessi hröðu umskipti milli titrandi sólargeisla og þéttrar dimmu og hljóðið, hæglátt brak, hvískur og muldur, svo róandi að hjarta mitt var við það að bresta.“ (bls. 96) Alveg eins og líkamlegir vessar taka yfir sögu geta komið slíkar ljúfar, næstum huggunarríkar náttúrulýsingar. Hið líkamlega í sögunum er þó engin hending enda vísar nafnið Bavíani að sögn höfundar til þess dýrslega í manneskjunni – Bavíanar eru kjötætur og lang árásargjarnasta apategundin auk þess sem þeir búa við gríðarmikið hírarkí. Svo er nafnið bæði kómískt og hrottalegt.

Margar sögurnar byrja hversdagslega en breytast svo í fullkomna kafkaíska martröð eins og hjónin sem eru að versla í matinn í stórmarkaðnum þegar eiginkonan er skyndilega, fyrir misskilning, ákærð fyrir búðarhnupl og í framhaldi hefst skelfileg atburðarás þar sem hjónin eru föst í ómannlegu öryggiskerfi – eða áðurnefnd saga af litlu mýbiti sem eyðileggur áður en yfir lýkur bæði líkama og sál ungs manns. Aðrar sögur eru mun óræðari og að lestri loknum getur maður varla verið viss um hvort lokatóninn var ljós eða dökkur. Upphaf sagnanna getur verið órætt líka og oft fara fyrstu málsgreinarnar í að átta sig á hverju er verið að segja frá – og ekki síður hver segir frá því söguröddin er viljandi óskýr. Stundum er komið langt inn í sögu þegar ljóst er hver talar og hvaða stöðu hann eða hún hefur í sögunni. Kyn sögumanns er ekki síður látið liggja á milli hluta og í einni sögunni er tvíræðni þess hreinlega viðfangsefni frásagnarinnar. En þótt óbærilegir atburðir hendi persónur þá getur alveg jafn mikill hryllingur falist í hversdagsleikanum eins og má sjá á sögunni „Bílferð“ þar sem barnmörg fjölskylda keyrir af stað í fríið og ástandið í bílnum, sem er sjálfsagt kunnuglegt mörgum fjölskyldum, mætti hreinlega líkja við styrjöld, eða í hinni örstuttu „Hún grætur ekki“ þar sem fullorðna fólkið hlær að viðleitni þriggja ára gamallar stúlku til að vera manneskja og særir hana holundasári. Fólk Aidt á skelfing auðvelt með að særa hvort annað – bæði viljandi og óviljandi. Í viðtali við danska blaðið Information segir Aidt að sögurnar fjalli um persónur sem séu einmana, einangraðar og sjálfhverfar. Jafnframt segist hún hafa, ólíkt fyrri sögum sínum, reynt í Bavíana að forðast tilfinningalega tengingu við persónur sínar, reynt að fjarlægja sig þeim og forðast alla tilfinningasemi.

Þótt Bavíani sé, eins og áður sagði, ekki notaleg lesning þá er hún grípandi og ágeng – maður flettir blaðsíðunum hratt, eins og um spennusögur sé að ræða, og að lestri loknum sitja sögurnar áfram í manni. Þær eru auðvitað misgóðar eins og gengur og gerist, sjálfsagt er það smekksatriði en sumar fannst mér meira skrifaðar fyrir “sjokkeffect” – þær ýttu óþyrmilega við manni en skildu kannski minna eftir sig. Bestu sögurnar fannst mér í raun þær sem voru hvað óræðastar eða þar sem óhugnaðurinn fólst í hversdagsleikanum – þar sem lesandinn var aldrei alveg viss um hvert Aidt var að teyma hann en var engu að síður fullur tortryggni.

(þessi pistill var áður fluttur í Víðsjá í september)

Engin ummæli: