7. nóvember 2011

Útópískt barnasamfélag á gulnuðum blaðsíðum

Stundum þegar ég er búin að lesa mjög áhrifamiklar bækur, svona bækur sem soga mann inn í aðra veröld, treysti ég mér ekki beint í nýja skáldsögu. Fyrir mér væri það einhvern veginn eins og að fljúga heim frá Kína og leggja svo beint af stað til Suður Ameríku. Á svona tímapunktum getur verið gott að grípa í bækur sem maður getur rennt í gegnum á 1-2 dögum, reyna ekkert á mann og eru svo hlutlausar að þær virka eins og stutt millilending þar sem maður nær úr sér mestu þotuþreytunni áður en haldið er á næsta áfangastað. Á þessum stundum í lífi mínu virðist ég alltaf leita aftur og aftur í sömu bækurnar. Þetta eru nær undantekningalaust gamlar barnabækur sem tilheyrðu mömmu minni og systkinum hennar og ég fann einhvern tímann í bernsku í bókahillunum hjá ömmu. Allra oftast leita ég á náðir Baldintátubóka Enid Blyton og þótt þær bækur hafi enn tilætluð áhrif finnst mér þær eiginlega verða merkilegri og merkilegri því oftar sem ég les þær.

Eftir því sem ég kemst næst skrifaði Enid Blyton fjórar bækur um baldintátuna Elísabetu Halldórsdóttur og þrjár þeirra komu út á íslensku á árunum 1959-1961, Baldintáta: Óþægasta telpan í skólanum, Baldintáta kemur aftur og Baldintáta verður umsjónarmaður. Ég á bara tvær síðustu bækurnar en las þá fyrstu einu sinni, kannski tíu ára gömul, þegar hún dúkkaði óvænt upp á Borgarbókasafninu (en sást svo aldrei aftur). Bækurnar fjalla sem sagt um fyrrnefnda Elísabetu sem er einkabarn foreldra sinna og svo óstýrilát að barnfóstran hennar segir upp. Hún er þá send í heimavistarskólann Laufstaði þar sem hún er staðráðin í að haga sér svo illa að hún verði rekin heim. En viti menn, þegar allt kemur til alls líkar henni vistin svo vel að hún fellur frá áformum sínum, nýtur þess að umgangast hin börnin í skólanum, lendir í alls kyns ævintýrum, gerir slatta af mistökum en verður líka vinsæl og vel liðin. Þetta eru sem sagt einfaldar bækur að forminu til og minna á allar aðrar skólasögur (til dæmis Harry Potter). Það sem gerir bækurnar sérstakar er hin útópíska jafnaðarstefna sem þar er boðuð af miklum þunga og ákafa.


Laufstaðir eru nefnilega eins og lítið ríki. Þar hafa börnin sjálf sett sínar reglur og halda svo vikulega skólafundi til að fara yfir málefni líðandi stundar og taka í sameiningu á öllum vandamálum sem upp kunna að koma. Tólf umsjónarmenn eru kjörnir á lýðræðislegan hátt og skipt út eins og þurfa þykir. Yfir þeim eru svo foringjarnir Vilhjálmur og Rita sem virðast vera úr elsta árgangi skólans. Efst tróna skólastýrurnar Dýrleif og Málfríður en þær grípa sjaldnast inn í atburðarásina enda mikilvægt að börnin finni sjálf lausnir á sínum málum. En fundurinn greiðir ekki bara úr vanda nemenda, þar er líka safnað saman öllum þeim peningum sem börnin kynnu að hafa eignast á líðandi viku og svo fær hver nemandi úthlutað tveimur skildingum í vikupening til að kaupa það sem hann vanhagar um eins og „frímerki, sælgæti, skóreimar, hárborða og því um líkt“ (Baldintáta kemur aftur, bls. 17). Vel stæðir nemendur og þeir sem eru nýbúnir að eiga afmæli leggja því kannski 10 skildinga í sjóðinn, fá tvo og þeir átta sem þá eru afgangs eru notaðir til að greiða verr stæðum nemendum sína tvo skildinga og svo kannski til að festa kaup á einhverju þarfaþingi fyrir skólann – sem sagt, fullkominn jöfnuður. Auðvitað þykja alltaf einhverjum krökkum þetta asnalegar reglur en flestir sjá að sér og læra fljótlega að hafa hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Að auki virðist óskrifuð regla á Laufstöðum að menn deili með sér af góðgæti sem þeir fá sent að heiman. Til að auka enn á þetta kommúnismayfirbragð skólans er við hann stór matjurtargarður sem sér skólanum fyrir öllu sem hann þarfnast í þeim efnum og að sjálfsögðu eru það nemendurnir sjálfir sem stýra honum og hjálpast að við garðvinnuna. Og svo er ekki laust við að Stóri bróðir sé ævinlega skammt undan, setningin „Það er ekki hægt að fela neitt á Laufstöðum“ (Baldintáta verður umsjónarmaður, bls. 104) bergmálar í ýmsum afbrigðum um bækurnar.
Nú er það auðvitað ekki svo að mér þyki nokkuð að því að fræða unga lesendur um gildi jafnaðar. En þetta tekur stundum á sig dálítið öfgakennda mynd í bókunum og sumir skólafundirnir verða meira eins og lýsing á einhverri 12 spora samkomunni. Það er nefnilega mjög mikilvægt á Laufstöðum að allir átti sig á göllum sínum og bæti ráð sitt. Á einum fundinum biður stúlka um aukaframlag úr sjóðnum þar sem hún hafi tapað skildingunum sínum gegnum gat á vasa. Fundurinn tekur málið til umfjöllunar og í ljós kemur að þetta er ekki í fyrsta sinn sem stúlkan lendir í viðlíka uppákomu. Þegar hún er spurð hvort það sé ekki rétt að hún hafi týnt vasahníf með sama hætti á síðasta misseri svarar hún: „Jú, það er satt. Ég veit ég hefði átt að gera við gatið. Ég er trassafengin og kærulaus um svona hluti. Ég skal þó svei mér ekki ganga með götuga vasa framar. Ég held ég hefði ekki átt að biðja um aukagetu, fyrst þetta var sjálfri mér að kenna“ (Baldintáta kemur aftur, bls. 28).

Það sem er þó merkilegast af öllu er að ég minnist þess ekki að hafa séð viðlíka lífsspeki boðaða í nokkrum öðrum bókum Enid Blyton. Það er að vísu langt síðan ég hef lesið þær en í mínum huga eru Fimmbækurnar, Dularfullubækurnar og Ævintýrabækurnar einstaklega íhaldssamar, fullar af börnum af efri millistétt og lýsa gjarnan fyrirlitningu í garð fólks af lægri samfélagsstéttum svo sem tatörum, sígunum og svertingjum. Ég minnist þess ekki að nokkurs staðar í þessum bókum hafi verið sett spurningamerki við ríkjandi valdakerfi eða misskiptingu auðs. Vissulega voru þær bækur útópískar á sinn hátt en þar var nokkuð örugglega hvorki fjallað um samyrkjubú né skattgreiðslur!

Annað sem er merkilegt við Baldintátubækurnar er hversu hátt kvenkyninu er gert undir höfði þar miðað við aðrar bækur Enid Blyton. Henni hefur oft verið legið á hálsi fyrir ójafnan hlut kynjanna í bókum sínum þar sem stúlkurnar þykja yfirleitt minna hæfar til svaðilfara en drengirnir en þeim mun hentugri til að sinna bústörfum og eldamennsku. En jafnaðarstefna Laufstaða felur í sér að gert er ráð fyrir að hlutverk foringja og umsjónarmanna skiptist jafnt milli kynjanna, íþróttakappleikir eru spilaðar af strákum og stelpum í sama liði og svo eru æðstu skólastjórnendur tvær konur. Það er yfir höfuð nokkuð byltingarkennt miðað við höfundarverk Enid Blyton að heimavistarskólinn skuli vera fyrir bæði kynin. Ég man alla vega ekki betur en að allir Finnarnir, Dísurnar, Jonnarnir og Önnurnar hafi verið í stúlkna- og drengjaskólum. Mörgum stúlknanna (þar á meðal Elísabetu sjálfri þegar hún kemur fyrst á Laufstaði) býður við strákum en á endanum sjá þær auðvitað allar að það er miklu skemmtilegra að vera í blönduðum skóla. Kvenleikanum er ekki gert neitt sérstaklega hátt undir höfði í Baldintátubókunum. Hégómagirnd dekurdrósarinnar Arnfríðar veldur henni töluverðum óvinsældum þegar hún byrjar í skólanum. Það að leggja áherslu á útlit, fatnað og kvenlega framkomu þykir bæði kjánalegt og óaðlaðandi á Laufstöðum. Að vísu er nokkru jafnvægi haldið í þessum efnum því fituborið hár Katrínar Pétursdóttur sem byrjar í skólanum á öðru misseri, flekkótt húð hennar og ólundarsvipur þykja ekki heldur ásættanleg. En á Laufstöðum hafa menn ráð undir rifi hverju: „Ef þú burstaðir á þér hárið hundrað sinnum kvölds og morgna, eins og Inga gerir, mundi það verða silkimjúkt og gljáandi. Ef þú hættir að borða eins mikið sælgæti og þú gerir, mundirðu losna við flekkina, og ef þú vildir bara hafa meiri útivist og hreyfingu, mundirðu innan skamms fá rjóða vanga og glampa í augun!“ (Baldintáta kemur aftur, bls. 114). Það er reyndar dálítið merkilegt og um leið óhugnalegt hvað gengið er langt í að gagnrýna útlit Katrínar. Undir lok misserisins þegar Katrín hefur burstað hárið milljón sinnum og hætt öllu nammiáti mætir móðir hennar til að vera viðstödd skólaslitin. Þegar hún fylgist með dóttur sinni utan úr salnum hugsar hún með sér: „Ég skil ekki, hvað komið hefur fyrir Katrínu litlu hér á Laufstöðum. [...] Hún virðist svo breytt. Hún var alltaf svo ófríð, litla skinnið, en nú er hún bara snotur [...]“ (Baldintáta kemur aftur, bls. 173). Dálítið brútal mamma þar! Það þykir greinilega ekki alveg öllum sinn fugl fagur.

Þrátt fyrir að ég millilendi varla í Baldintátubókunum án þess að sjá einhverja nýja og stórmerkilega hluti í þeim les ég þær samt aðallega af því að ég heillast enn af heimavistalíferninu, vináttunni, skrifpúltunum, kúrennukökunum og hárborðunum. Og alltaf þegar ég fletti gulnuðum og skraufþurrum blaðsíðunum líður mér dálítið eins og ég sitji aftur við eldhúsborðið heima hjá ömmu að borða ristað brauð með osti og drekka heitt kakó. Það er alveg sama hversu gaman það er að fara í lestrarferðir í aðra heima, ég kann alltaf best við mig þar.

P.s. Ég biðst afsökunar á lélegum gæðum myndanna sem fylgja hér með. Ég ákvað að taka bara sjálf myndir af bókunum þar sem ég lagði alls ekki í að reyna að gúggla „the naughtiest girl“!

11 ummæli:

Þórdís Gísladóttir sagði...

Gaman að rifja upp Baldintátu. Já og þessar myndir eru algjörlega þær réttu.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Ég segi samt ekki að smá gúggl um óþekkar stelpur hefði skaðað.

Maríanna Clara sagði...

oh ég elskaði Baldintátu þegar ég var lítil - og las hana einmitt við eldhúsborðið hjá ömmu og drakk kókómalt og borðaði brauð með (reynda) spægipyslu...já bernskan í Þingholtunum...

Ég var líka að rifja upp um daginn að Baldintátubækurnar hefðu verið dálítið ólíkar höfundarverki Blyton - en ég var búin að gleyma HVERSU ólíkar! Það væri forvitnilegt að komast í einhverja umfjöllun um málið - eitthvað hlýtur að hafa verið skrifað um Baldintátu...? Nema Blyton hafi verið þögguð í hel sem kona, barnabókahöfundur og politically uncorrect - plús (greinilega) kommúnisti!

Elísabet sagði...

Úff, þessar lýsingar minntu mig óþyrmilega á æsku mína þegar ég var, á sumrin, send í sveit á risastórt barnaheimili og þar ríktu lögmál sem minntu meira á Lord of the flies en Baldintátu. Ég fékk t.d. oft sent nammi að heiman og var það alltaf tekið af mér og sást það ekki meir (valdar klíkur hæstráðenda hljóta að hafa gætt sér á því).

Takk fyrir þennan skemmtilega pistil um Baldintátu!

Guðrún Lára sagði...

Maríanna, ég hugsaði náttúrulega stöðugt til þín þegar ég var að skrifa þetta þar sem ég veit að þú deilir ást minni á gömlum barnabókum! Og ég hef oft hugsað að ég þyrfti við tækifæri að reyna að grafast eitthvað fyrir um hvað hefði verið skrifað um þessar bækur, hverjar viðtökur þeirra hefðu verið o.s.frv. Annars skilst mér nú að Enid Blyton hafi verið þokkalega þögguð svo það er kannski erfitt.

Annars geri ég ráð fyrir að lífið á heimavist hafi aldrei í rauninni verið eins fallegt og í Baldintátu heldur verið mun meira eins og í lýsingunni hjá baun! Ég er fegin að móðir mín hafði vit fyrir mér á sínum tíma þegar ég lá sem mest í þessum bókum og bað um að fá að fara í heimavistarskóla!

Siggasta sagði...

Takk fyrir þessa afspyrnu skemmtilegu grein. Ég deili ást þinni á gömlum barnabókum og þykir afar fróðlegt að lesa þær núna aftur fyrir stelpurnar mínar. Það kemur margt á óvart, eins og til dæmis allur rasisminn í Narníu og kristinn boðskapur og táknmyndir sem gegnsýra þar allt!

Enid Blyton las ég af áfergju sem barn og hef verið að lesa aftur Ævintýrabækurnar núna. Ég held þær bækur hafi verið mjög á undan sinni samtíð, því þott margt sé gamaldags varðandi hlutverk kynjanna, þá eru stelpurnar samt með í öllum hamaganginum -á tíma þar sem skrifaðar voru sérstakar stúlkna- og drengjabækur. Það kom mér eiginelga á óvart hvað sá bókaflokkur hefur elst vel þrátt fyrir allt, nema reyndar Ævintýrafljótið, sú síðasta, sem er svo uppfull af rasisma að hún er nánast ólesandi. Mæli með að henni sé sleppt!

Ég las mér annars til um Enid nýlega og komst að því að hún skrifaði kringum 600 (!!!) barnabækur á ferlinum og líka að hinn geðstirði og ófríði Gunnar lögregluþjónn er byggður á fyrri eiginmanni hennar!

Guðrún Lára sagði...

Já ég er reyndar þeirrar skoðunar að Enid Blyton hafi um margt verið á undan sinni samtíð hvað kynhlutverkin varðar. Bara það að búa til svona karakter eins og Georg/Georgínu! Að vísu hefði auðvitað verið betra að stelpa hefði getað tekið þátt í ævintýrunum af fullum krafti án þess að þurfa að karlgerast fyrst en þetta hlýtur samt að teljast byltingarkennt miðað við þess tíma barnabækur.

Þetta með Gunnar lögregluþjón er priceless!

Kristín Svava sagði...

Geðveikt skemmtilegur pistill, takk! Einhverra hluta vegna var ég alltaf tortryggin á Baldintátu, fannst þetta sennilega eitthvað asnalegt nafn, og las þær bækur því aldrei þótt ég lægi í Ævintýra-, Fimm- og Dularfullu bókunum.

Frábært þetta með Gunnar lögregluþjón. Það vakti einmitt mikla kátínu á mínu heimili þegar kom í ljós að geðstirði lögregluþjónninn sem var í Stykkishólmi þegar pabbi var þar í heimavistarskóla á sínum tíma hét einmitt Gunnar, og gekk mjög erfiðlega að grípa krakkana fyrir Mackintosh-smygl!

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Skemmtilegt blogg! Ég las Baldintátu margoft sem krakki en hef ekkert gluggað í hana síðan ég var svona 12-13 ára. Þarf greinilega að gera það aftur!

Andrea sagði...

Það er svo gaman að lesa færslurnar eftir ykkur.
Ég las Baldintátu líka sem barn og þar sem ég var alin upp á mjög sósíalísku heimili fannst mér ekkert meira heillandi en lítið ríki þar sem fullkomið jafnrétti ríkti.
Ég hef ekki hugsað um þessar bækur í 20 ár eða svo, þannig að kannski er kominn tími til að fara á loftið í afa og ömmu húsi :)

Andrea sagði...

http://gegnir.is/F/SFHV8MK8T211477H5LJK2M5R5APJYMNTKG8VPF3UPIC15JTGK7-35314?func=find-b&find_code=WOR&request=baldint%C3%A1ta
Þær finnast greinilega allar þrjár á bókasöfnum landsins (í geymslum þó stundum)

En ef þú prófar að gúggla "the naugtieset girl" þá kemur Wikipedia færslan um Baldintátu fyrst upp, svo örvæntið ekki :D