Um er að ræða þroskasögu ungrar konu, Níníar, sem er í byrjun kennari á Íslandi. Hún er orðin leið á tilbreytingarlausu lífi sínu og ákveður að flytja til Spánar án þess að stefna þar á neitt sérstakt starf eða nám. Hún kemur sér þar fyrir í litlu þorpi og síðar á sveitabæ, og kynnist í kjölfarið nýjum hliðum á sjálfri sér. Bókin virðist hugsuð sem svokölluð skvísubók, að minnsta kosti eru áherslurnar á þá lund. Mikið er lagt upp úr hinu ljúfa lífi á Spáni, sem virðist felast í sólböðum og sundi og alls konar notalegheitum, sem og verslunarferðum á markaði sem og í stærri verslunarkjarna og er þá iðulega keyptur fatnaður. Við fáum oftast að vita hverju söguhetjan klæðist þann daginn og svo eru þarna heitir spænskir elskhugar, sveitasæla og mikið lagt upp úr vinkvennastússi.
Heildarplottið er ekki slæmt. Ég vil ekki gefa of mikið upp en þarna koma fram hlutir sem vel er vert að skrifa um sögu. Eins er sett fram ákveðin hliðstæðusaga fólks sem áður hefur búið á sveitabænum sem Níní dvelur á, sem getur verið skemmtileg flétta og gjarnan hefði mátt gera enn meira með. Hins vegar verð ég að segja að útfærslunni sé verulega ábótavant og að þetta handrit hafi alls ekki verið tilbúið fyrir útgáfu.
Við textann sjálfan sé ég ýmislegt athugavert. Málfar er oft ankannalegt og ambögur á hverju strái: „Þetta er saðsamur diskur“ (bls. 87), „Síst af öllu hugsar hann henni gott til glóðarinnar“ (bls. 178).
Stundum, eða jafnvel nokkuð oft, er málnotkunin þannig að maður skilur hreinlega ekki hvað er verið að segja: „Svo finnur hún fersk afklippt blóm og borðdúk með frönsku mynstri í öllum regnbogans litum. Til að skapa umhverfi. Í stíl við nýlundu“ (bls. 53).
Auk þessa virðist Steinunn hafa tamið sér sérstakan stíl sem gengur út á að klippa sundur setningar eða skrifa setningabrot. Vissulega er það nokkuð algengt stílbragð að hafa einstaka setningabrot innan um heilar setningar, til áhersluauka eða til að draga fram einhver ákveðin blæbrigði. Steinunn gerir þetta hins vegar miklu oftar en venja er og mér finnst þetta ekki koma vel út. Almennt er ég frekar hlynnt því að fólk leiki sér með stíl en það þarf að vera einhver glóra í slíkum leik og ég sé hana ekki í þessum. Dæmi um þetta má sjá hér:
Loks er hún búin að mála og búin að fá nóg í bili af annars hugar streði. María eldar migas fyrir alla; skítuga karla og unga konu með málningu á höndunum og ryk í hárinu. Erfið matseld úr hveiti, vatni og olíu. Sem hoggið er til á pönnu uns formað í smáar kúlur. Hveitikúlur. Með fjölbreyttu meðlæti; hvítlauk, papriku, sardínum og ólífum. Því sem til má tína (bls. 87).
Það sem mér þykir þó enn stærri galli en hnökrarnir á textanum er að frásögnin er lítið grípandi og virðist að miklu leyti ganga út á alls konar hversdagsleg smáatriði sem eru eins og til uppfyllingar. Vissulega getur það í sumum tilfellum auðgað frásögn að segja frá því að söguhetja fái sér að borða eða fari í sturtu en það er eins og frásagnir af slíku verði nánast að uppistöðu í bókinni. Við fáum ítrekaðar lýsingar á kvöldmatargerð og Níní virðist ekki svo mikið sem geta fengið sér brauðsneið með osti eða vínglas án þess að okkur sé sagt frá því. Eins fáum við aftur og aftur að vita að hún sé sveitt og fari í sturtu (og setur þá gjarnan hárið upp með klemmu) og svo smeygir hún sér iðulega í einhvern bol eða kjól eftir baðið. Við fáum líka lýsingar á því þegar tekið er upp úr ferðatöskum og raðað í skúffur, lýsingar á fötum sem Níní kaupir sér á markaðnum og á innanstokksmunum sem Níní dundar sér við að handfjatla og raða. Ég fór alvarlega að hugleiða að telja þau skipti sem sagt er frá því að einhver fari í sturtu í þessari bók. Lýsingar á hlutum eða einföldum athöfnum geta, eins og ég nefndi, nýst til að gefa mynd af lífi söguhetjunnar, af staðháttum eða öðru slíku, en þetta er bara allt, allt of mikið. Hins vegar þykir mér heldur lítið um samtöl í bókinni og við kynnumst í raun persónunum lítið. Það fólk sem Níní heillast af er allan tímann frekar fjarlægt og það er ósköp fátt sem sýnir hvað á að vera svona heillandi við það. Í raun verður Níní ekkert ljóslifandi fyrir manni heldur, hún er bara einhver kennari frá Íslandi sem fer í sturtu og borðar og kaupir sér föt og minjagripi.
3 ummæli:
Gagnrýni þín á þessa bók er fín og sanngjörn, og á fyllilega rétt á sér.
Svo að eru fleiri sem gerast sekir um setningabrot: http://jthorsson.com/2011/10/30/ad-gefast-upp-a-bok/
Þarna er ég að tala um það af hverju ég gafst upp á Ljósu, bók sem fékk mikið lof, en ég gafst upp á út af setningabrotum.
Ég var mjög hrifin af Ljósu og man ekki til þess að þetta hafi truflað mig þar.
Það er einmitt það sem fólk segir þegar ég pirra mig á þessu. Nær öllum sem lásu hana fannst hún mjög góð.
Skrifa ummæli