8. nóvember 2011

Berklar, skák, bíó og fleira

Það er kunnara en frá þurfi að segja að Marion Briem er aðalpersónan í nýjustu bók Arnaldar Indriðasonar, Einvíginu, og að meginþráður bókarinnar gerist í Reykjavík sumarið 1972. Til rannsóknar er dauðsfall unglingspilts sem finnst stunginn til bana í Hafnarbíói eftir fimmsýningu á vestranum Undir urðarmána. Nokkrum dögum síðar á skákeinvígi Fischers og Spassky að hefjast í bænum svo lögreglan hefur í nógu að snúast. Æska Marion og dvöl á bæði Vífilsstöðum og dönsku berklahæli blandast einnig inn í söguna og sú forsaga er allítarleg.

Höfundi virðist oft, sérstaklega í fyrri hluta bókarinnar, fullannt um ýmiss konar fróðleik sem hann hefur sankað að sér. Það getur skiljanlega verið erfitt að sleppa hendinni af þess háttar hlutum og vissulega gagnast staðreyndamolar oft til að gefa frásögn lit og trúverðugleika. Þeir eru þó oft óþarflega margir í bókinni, m.a. má nefna upplýsingar um heiti berklalyfja sem koma sögunni í raun ekki við og ítarlega lýsingu á því hvernig ferðalagi Marion á berklahælið í Kolding var háttað, svo dæmi séu nefnd. Ferðinni milli Kaupmannahafnar og Kolding er t.d. lýst svona:
Ferðalagið tók um sex stundir. Lestin stansaði við Korsør á Sjálandi og þaðan var farið með ferju yfir Stórabelti til Nýborgar á Fjóni. Þar steig Marion aftur upp í lest sem fór yfir Fjón til Middelfart þaðan sem önnur ferja tók farþegana yfir Litlabelti til Fredericia á Jótlandi. Þegar lestin frá Fredericia nam staðar í Kolding var krökkunum smalað saman …
Vettvangur morðsins
í Einvígi
Í fyrri hluta bókarinnar urðu smáatriði af þessu tagi og sögulegi bakgrunnurinn ansi yfirgnæfandi. Lengi framan af hafði ég líka efasemdir um plottið og þá stefnu sem rannsóknin fór að taka. Þegar sígarettupakki sem fannst í námunda við morðstaðinn varð leiðarstef í rannsókn málsins fannst mér ég næstum lent inn í einhverri af Dularfullu-bókunum eftir Enid Blyton sem var nokkuð á skjön við væntingarnar. (Ég tek samt fram að líkt og ýmsum öðrum druslubókadömum þykir mér Enid Blyton stórskemmtileg en allt hefur sinn tíma.) Það rættist aftur á móti úr plottinu og ég var ánægð með hvernig málin þróuðust á endanum en vil ekki segja meira um það. Margt í samtímasögunni var líka vel gert, til dæmis fannst mér umfjöllunin um reykvísk kvikmyndahús og sætaval í þeim afar skemmtileg og flest eða allt sem tengdist skákeinvíginu var fléttað vel inn í söguna.

Marion hefur brugðið lítillega fyrir í ýmsum fyrri bókum Arnaldar og verið býsna dularfull persóna. Öðru hverju hefur því verið velt upp að kynferði Marion væri óljóst. Í Einvíginu er þeim leik haldið áfram en hann er ekki nógu vel heppnaður fyrr en undir lokin. Tvær athugasemdir í fyrri hluta bókarinnar þar sem velt er upp tvíræðni eða efa í sambandi við kynið eru t.d. ekki nógu trúverðugar í samhengi sögunnar heldur virðast fyrst og fremst þjóna þeim tilgangi að minna lesandann á að höfundurinn geti skrifað texta þar sem hvorki persónufornöfn né kynbeyging annarra orða vísar til líffræðilegs kyns aðalpersónunnar.

Spassky og Fischer tefla
Þetta er þó aukaatriði. Stærsti veikleikinn á meðferð kynjasögunnar í Einvíginu er að karlkynið hefur ósjaldan talist sjálfgefið kyn og kvenkynið frávik og það var tvímælalaust tilfellið í lögreglunni árið 1972. Þar sem kynferði Marion vekur lengst af bókinni hvorki viðbrögð fólks né verður tilefni athugasemda (fyrir utan það sem áður var nefnt) veikir það töluvert þann möguleika að Marion geti verið kona. Seint í bókinni heyrist þó athugasemd frá yfirmanni Marion um ekki hafi allir verið hrifnir af því þegar hann réð Marion. Ástæðan er ekki tilgreind en þetta gefur möguleikanum á kvenkyni undir fótinn og heldur efanum þar með inni í myndinni sem er nauðsynlegt fyrir söguna, það gerist bara ansi seint.

Í bókarlok bregður fyrir ungum og óreyndum lögreglumanni sem nefnist Erlendur og það vekur spurningar um hvað Arnaldur hyggst fyrir næst. Verður kannski haldið áfram þar sem frá er horfið eða nokkrum árum síðar og sagt frá samstarfi Marion og Erlends? Það gæti boðið upp á skemmtilega möguleika.

Hvað varð annars um Erlend?

Síðustu fjórar bækur Arnaldar gerðust allar árið 2007. Harðskafa lauk á því að Erlendur stóð við rætur samnefnds fjalls og lagði á brattann og næstu þrjár bækur gerðust skömmu síðar, allar á sama tíma. Í Myrká og Svörtuloftum voru Elínbjörg og Sigurður Óli aðalpersónurnar og þar kom í ljós að þau geta hvort um sig verið burðarásinn í bók. Erlendur sjálfur var austur á landi en enginn vissi meira um ferðir hans. Í Furðuströndum, sem komu út í fyrra varð síðan ljóst hvað á daga Erlends dreif og þar kom loksins að því að bróðurkomplexar hans yrðu gerðir upp. Það er langt síðan sá baggi varð ansi þungur, bæði fyrir Erlend sjálfan og lesendur (a.m.k. hef ég kvartað yfir honum lengi).

Í Furðuströndum er Erlendur á bernskuslóðum og fær útrás fyrir áhugann á hrakningum og heiðavegum, m.a. við rannsókn gamallar ráðgátu. Sagan um bróðurinn er þó rauði þráðurinn í bókinni og undiraldan er köld; reyndar einkenna kuldi, þrengsli og dauðageigur frásögnina alla. Snemma í bókinni er aðstæðunum á dvalarstað Erlends t.d. lýst svo: „Luktin varpaði á hann fölri rökkurbirtu en allt um kring var myrkt eins og í kistu.“ Svipuð stef eru gegnumgangandi í sögunni og ýmsir hafa væntanlega velt þvi fyrir sér hvort Erlendur hefur komist ofan af fjallinu eða borið beinin þar. Það verður forvitnilegt að sjá hvort einhvern tíma fæst botn í málið. Kannski yrði samt best að örlög Erlends yrðu eilíf ráðgáta, það gæti allavega orðið óþrjótandi deiluefni fyrir ýmsa.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég hef lesið velflestar bækurnar eftir Arnald og finnst hann alveg ágætur, en eru fleiri en ég sem hafa furðað sig á því hvað gagnrýnendur og bókmenntafólk er farið að nota stór orð um bækurnar hans? Eins og þetta lof um að hann hafi náð rosalegum hæðum í stíl í Furðuströndum? Mér finnst þetta alltaf hljóma eins og háð.

-kst

Erna Erlingsdóttir sagði...

Sammála. Mér finnst yfirleitt gaman að lesa bækurnar hans en þótt hann hafi gert margt virkilega vel eru allar þessar hástemmdu yfirlýsingar dálítið út úr kortinu og gera honum varla neinn greiða því eins og þú bendir á er einmitt hætta á að svona dramatískt lof snúist upp í andhveru sína.

Erna Erlingsdóttir sagði...

P.S.
Spurning hvort sumar af þessum ýktu lofrullum eiga rætur að rekja til þess að margt fólk taki glæpasögur í raun ekki alvarlega sem bókmenntagrein, það geri ómeðvitað ráð fyrir því að glæpasögur séu almennt illa skrifað drasl og það sem er vel gert fari svona gríðarlega fram úr væntingum að lofið verði stjórnlaust.

En kannski er þetta bara múgsefjun.

Nafnlaus sagði...

Tja, ef ég tala bara fyrir sjálfa mig þá hef ég lesið allar bækur Arnaldars (nema þessa nýjustu) og fannst ekki nein neitt sérlega vel skrifuð fyrr en Furðustrandir komu út. Það var fyrsta bókin frá honum sem ég fékk svona "aha! Hann ER frábær rithöfundur!"-móment. Það var sérstaklega áberandi þegar ég las síðan Napóleonsskjölin strax á eftir Furðuströndum ...úff, ÞAÐ er óhugnalega illa skrifuð bók! Ég hreinlega skil ekki hvernig ritstjórinn hans fékk borgað fyrir "vinnu" sína við þá bók...