9. nóvember 2011

Druslubókadömur setjast í sófa á bókamessu

Um helgina standa Bókmenntaborgin Reykjavík og Félag íslenskra bókaútgefenda fyrir bókamessu í Iðnó og Ráðhúsinu. Þetta verður heljarinnar dagskrá sem finna má í heild sinni hér.

Á sunnudeginum, 13. nóvember, verðum við druslubókadömur með sérstakt innlegg á bókamessunni, en þá mun undirrituð ásamt Hildi Knútsdóttur og Sölku Guðmundsdóttur setjast í sófa í Iðnó klukkan 14:00 og spjalla við rithöfundana Auði Övu Ólafsdóttur, Bryndísi Björgvinsdóttur og Sigríði Víðis Jónsdóttur.

Þetta eru augljóslega eðalviðmælendur. Auður Ava hefur gefið út skáldsögur og ljóðabók og nú er hennar fyrsta leikrit, Svartur hundur prestsins, á fjölunum í Þjóðleikhúsinu. Bryndís er nýbakaður handhafi Íslensku barnabókaverðlaunanna fyrir Fluguna sem stöðvaði stríðið og Sigríður er höfundur bókarinnar Ríkisfang: Ekkert, sem fjallar um tvær þeirra palestínsku kvenna sem komu til Akraness sem hælisleitendur ásamt börnum sínum árið 2008 og um palestínska flóttamenn í heiminum.

Svo maður oti sínum tota svolítið í leiðinni verð ég líka að lesa upp ljóð í Iðnó síðar á sunnudaginn, klukkan 17:00, ásamt Sindra Freyssyni, Ingunni Snædal, Sigmundi Erni Rúnarssyni, Steinunni G. Helgadóttur, Eyþóri Árnasyni og Unni Guttormsdóttur.

Engin ummæli: