Inngangskafli bókarinnar hljóðar svona í hrárri þýðingu minni:
Kona hét Ester Nilsson. Hún var skáld og pistlahöfundur sem þrjátíu og eins árs að aldri hafði gefið út átta knapporðar bækur. Sérstakar sögðu sumir, fjörlega skrifaðar sögðu aðrir, flestir höfðu aldrei heyrt á hana minnst.
Af einstakri nákvæmni skilgreindi hún raunveruleikann út frá eigin skynjun og taldi veröldina vera eins og hún upplifði hana. Eða réttara sagt að fólk væri þannig gert að það skildi heiminn réttum skilningi ef það notaði athyglisgáfuna og lygi ekki að sjálfu sér. Hið huglæga var hlutlægt og hið hlutlæga huglægt. Hún reyndi að minnsta kosti að lifa samkvæmt þessu.
Hún vissi að leitin að viðlíka nákvæmni varðandi tungumálið væri ómöguleg en hún leitaði samt, vegna þess að annað gerði loddurum og froðusnökkum sem þóttust vera gáfaðir of auðvelt fyrir; mönnum sem höfðu ekki nægan áhuga á hvernig tungumálið afhjúpaði tengsl fyrirbæranna. Þó neyddist hún hvað eftir annað til þess viðurkenna að orðin voru ónákvæm. Hugsunin líka, þó að hún væri byggð upp af kerfisbundnum fyrirbærum og að tungumálið væri ekki eins traust og það gaf sig út fyrir að vera. Þessi saga fjallar um hinar ógnvænlegu gjár milli orða og hugsunar, ætlunar og tjáningar, raunveruleika og óraunveruleika, ásamt því sem grær í þessum gjám.
Síðan Ester Nilsson hafði, átján ára gömul, áttað sig á því að lífið gengur mestmegnis út á að berjast gegn leiðindunum og í viðleitni gegn þeim hafði hún á eigin spýtur uppgötvað tungumálið og hugmyndinar, hafði hún aldrei fundið til vanlíðunar, varla orðið niðurdregin. Hún vann stöðugt að því að túlka eðli manns og heims. Heimspekinámið stundaði hún í Konunglega tækniháskólanum og eftir að hún lauk við doktorsritgerðina, þar sem hún bar saman hið engilsaxneska og franska, það er að segja beitti naumhyggju og rökfræðilegri greiningu analítíska skólans á viðfeðmar kenningar meginlandsskólans um lífið og tilveruna, starfaði hún sjálfstætt við ritstörf.
Uppfrá þeim degi, þegar hún uppgötvaði tungumálið og hugmyndirnar og áttaði sig á hlutverki sínu, tók hún upp sparsama lifnaðarhætti, át ódýran mat, passaði upp á að nota getnaðarvarnir, ferðaðist skynsamlega, hún skuldaði hvorki bönkum né einkaaðilum og kom sér ekki í aðstæður sem kröfðust þess að hún þyrfti að gera eitthvað annað en það sem hún kaus helst að eyða tíma sínum í; að lesa, hugsa, skrifa og spjalla við fólk. Í þrettán ár hafði hún lifað á þennan hátt, meira en helming þess tíma í þægilegu og friðsælu sambandi við karlmann sem bæði leyfði henni að vera í friði og sinnti líkamlegum og andlegum þörfum hennar.
Svo hringdi síminn.
Lena Andersson |
Engin ummæli:
Skrifa ummæli