21. desember 2013

Af tilgangi og merkingu hausatalninga


Um daginn birti ég hér niðurstöður óvísindalegrar könnunar minnar á kyni höfunda uppáhaldsbóka (í grófum dráttum) kvenna annars vegar og karla hins vegar. Sumir brugðust við þessari talningu með því að hlaupa í vörn og fara að útskýra hvernig kvenmannsleysi á þeirra listum væri sko alls ekki til komið vegna fordóma gagnvart kvenrithöfundum eða bókum eftir konur. Jafnframt fékk ég ýmsar spurningar, t.d. um það hvað mér fyndist þá ásættanlegt kynjahlutfall höfunda sem fólk les eða hvort ég væri virkilega að reyna að neyða fólk til að lesa eitthvað annað en það langar til að lesa, birta falsaða vinsældalista eða þar fram eftir götunum. Af þessu tilefni tel ég rétt að koma á framfæri eftirfarandi atriðum:

1. Umrædd hausatalning var ekki sérlega vísindaleg heldur gerð með hraði í nærumhverfi mínu á samskiptavef. Niðurstöður hennar eru ekki marktækar sem þverskurður af einu eða neinu, hvorki íslensku þjóðinni, vinahóp mínum eða öðru, þær eru ekki fengnar með viðurkenndum vísindalegum aðferðum og eru ekki tölfræðilega marktækar. Hausatalningin gefur hins vegar ákveðna mynd, til dæmis af því sem blasir við mér þegar ég skoða á Facebook hvaða bækur það eru sem fólk segir hafa haft áhrif á sig. Ég hef enga sérstaka ástæðu til að ætla að listarnir, eða kynjahlutföllin á þeim, séu eitthvað mikið öðruvísi annars staðar.

2. Hausatalningin var ekki mín fyrsta uppgötvun á því að margir, og ekki síst karlar, hefðu fordóma gagnvart bókum eftir konur og niðurstöður hennar duga ekki einar og sér til að sýna fram á tilvist þessara fordóma. Ég tel að við lifum í samfélagi þar sem fordómar ríki gagnvart ýmsum verkum kvenna og að við höfum um það sautjánþúsund aðrar vísbendingar. Ef einhver er ekki sammála mér um það þá verður bara að hafa það. Tilgangurinn með þessari hausatalningu var ekki að reyna að sannfæra þá sem viðurkenna ekki tilvist feðraveldisins (og ég má ekkert vera að því að standa í því sannfæringardjobbi núna) heldur að minna okkur öll á tilvist þessara fordóma og vekja til umhugsunar um þá.


3. Niðurstöður hausatalninga segja ósköp lítið um hvert og eitt tilvik. Það er alveg mögulegt að einhver sem taldi bara upp bækur eftir karla hafi alveg frábærar ástæður fyrir vali sínu þar sem fordómar gagnvart bókmenntaverkum kvenna komi hvergi við sögu. Það er engin leið fyrir mig eða aðra að vita það eða að fara að leggjast í analýsu á sérhverju tilviki. Það er einmitt þess vegna sem gögnum er safnað saman í svona talningum; það er ekki verið að velta sér upp úr stökum tilvikum heldur að benda á heildarmynstur. Það er þetta heildarmynstur sem ég segi að sé ekki í lagi. Heildarmynstrið sýnir ákveðið samfélagsvandamál og þegar ég segi að þetta mynstur sé ekki í lagi þá er ég að setja fram nokkuð sem kallast samfélagsgagnrýni. Þeir sem vilja bregðast við samfélagsgagnrýni og vinna að breyttu og bættu samfélagi þurfa að vera reiðubúnir að horfa á eigin hegðun og gildismat og skoða hverju þeir geti breytt hjá sjálfum sér til að stuðla að umbótum. Það er frekar lítið gagn í fólki sem bregst við samfélagsgagnrýni með því að fara að sífra um að það sé nú ekkert við það að sakast persónulega og að það sé sko alveg á hreinu að það sjálft stuðli ekki með nokkrum hætti að því sem gagnrýnin beinist að.

4. Ég hef ekki hugmynd um hvað megi teljast ásættanlegt kynjahlutfall á lista einhvers Jóns Jónssonar og ég tel það ekki í mínum verkahring að setja reglur um það. Ég mælist hins vegar til þess að Jón (eða Gunna, Gísli, Eiríkur eða Helgi) velti því fyrir sér hvers vegna listinn hans er eins og hann er, t.d. hvort þar sé kynjaslagsíða sem ástæða væri til að bæta.

Ég get heldur ekki svarað því hvað væri hæfileg upphæð fyrir Jón Jónsson að eyða í jólagjafir þótt ég haldi því fram að almennt eyðum við allt of miklu og ég get ekki sagt Jóni hvað sé hæfilegur kílómetrafjöldi fyrir hann að aka á bílnum sínum í hverri viku þótt ég haldi því fram að almennt keyrum við allt of mikið.

5. Það að listi sé settur saman „án þess að hugsa“ sýnir ekki fram á að hann sé fordómalaus – þvert á móti. Það er frekar að við náum að leiðrétta og bæta upp fyrir fordóma ef við náum að hugsa okkur um. Það dettur engri heilvita manneskju í hug að þeir sem tefldu fram kvenmannslausu listunum hafi setið og núið saman höndunum og tautað „Ég ætla ekki að hafa neinar bækur eftir konur á mínum lista af því að ég þoli ekki konur, múhahahaha“. Málið snýst um fordóma sem geta jafnvel verið ómeðvitaðir hjá þeim sem í raun kæra sig alls ekki um að hafa þá. Og einmitt þeir fordómar og gildismat sem er til umræðu hér birtast í hugsunarleysi, áhugaleysi, gleymsku og skeytingarleysi; í því að bókmenntaverk eftir konur eru vanmetin og gleymast.

6. Bókmenntasmekkur er ekki meðfæddur og við vinnum hann ekki heldur í happdrætti eða drögum hann upp úr kornflexpakka. Það er ekkert til sem heitir að hafa „einfaldlega“ bara áhuga á tilteknum flokkum bókmennta sem svo vill til að fáar konur skrifi inn í. Að baki því að tiltekin manneskja er eins og hún er með sín áhugamál og sitt gildismat eru alls konar flóknir áhrifaþættir. Það hvaða gerðir bókmennta mér finnast mest spennandi mótast af því samfélagi sem ég lifi í, af öðrum hlutum sem ég sýni áhuga, af hinu og þessu sem ég tek mér fyrir hendur, reynslu sem ég verð fyrir, áhugamálum vina minna og svo má lengi telja. Það hvaða gerðir bókmennta konur (eða karlar) eru líklegri til að skrifa er líka nokkuð sem mótast af alls konar félagslegum þáttum.

Ef listinn yfir uppáhaldsbækurnar mínar er einhæfur, hvort sem er með tilliti til kyns höfunda, þjóðernis, viðfangsefnis, stíls eða annars, þá sýnir það fyrst og fremst að smekkur minn sé einhæfur en ekki að hann sé góður eða að ég sé víðlesin. Vissulega útilokar það ekki að ég sé víðlesin eða að ég hafi góðan smekk (hvað sem það þýðir) en einhæfur listi kemur ekki að miklu gagni við að sýna fram á það. Það er engin dauðasynd að hafa einhæfan smekk en ef mjög margir innan tiltekins hóps sýna sömu tilhneiginguna til einhæfni þá má draga þá ályktun að hópurinn sé að fara á mis við eitthvað eða að kerfisbundið vanmat á því sem fellur utan rammans sé til staðar.

7. Ég hef engin svör á reiðum höndum við því nákvæmlega hvernig sé best að bæta úr vanmati á bókmenntum kvenna. Eins og hefur þegar komið fram lít ég á það sem samfélagsmein og slíkt er nokkuð sem þarf heilt samfélag til að uppræta en ekki eina manneskju. Ég held að margir megi að ósekju taka það til sín að þeir mættu lesa meira af bókum eftir konur og jafnvel prófa að opna bækur úr flokkum sem þeir hafa hingað til sýnt lítinn áhuga. Það má líka hafa það hugfast að í samfélagi þar sem valdamisræmi er til staðar eru verk hinna valdaminni líklegri til að vera fljótari að gleymast og til að vera vanmetin. Hvert og eitt okkar þarf að taka ábyrgð á að reyna að bæta úr því.

Engin ummæli: