4. desember 2013

Upplestrarstagl til að örva lestraráhuga?

Lesandi barn í Taíwan árið 2007
Mynd: Will Chen
Um þessar mundir er mikið rætt um slaka lestrarkunnáttu íslenskra unglinga samkvæmt PISA-könnun nokkurri. Af því tilefni er talað um mikilvægi þess að börn æfi sig í lestri heima hjá sér og að þau læri að það sé gaman að lesa. Sjálf verð ég æ sannfærðari um að sá háttur sem er hafður á því sem kallað er „heimalestur“ í íslenskum grunnskólum, sérstaklega á yngsta stigi, þjóni engan veginn þeim tilgangi að hvetja börn til að lesa sér til ánægju.

Ég les mikið sjálf, hef mikinn áhuga á alls konar bókum og hef alltaf lesið talsvert mikið fyrir börnin mín, haldið að þeim ýmsu lesefni og var sjálf mikill bókaormur sem barn. Ég hlusta stundum á hljóðbækur og hef gaman af góðum upplestri. En hér er játning: Mér finnst ekkert skemmtilegt að hlusta á 9 ára dóttur mína lesa heimalesturinn sinn og mér þótti heldur ekkert gaman að hlusta á eldri systur hennar lesa upphátt. Það var gaman að hlusta á framfarir þeirra þegar þær voru að byrja að geta lesið en svo var það búið. Meðan dóttir mín les upphátt dett ég iðulega út og fer að hugsa um eitthvað allt annað. Hún er sjálfsagt alveg prýðilegur upplesari miðað við aldur og fyrri störf en hún les of hratt, oft óskýrt og hún tekur því afar illa ef ég reyni eitthvað að stoppa hana og segja henni til um framsögnina. Bækurnar sem hún les þykja mér misskemmtilegar; ég jafna mig seint á upplestri hennar í fyrra á tveimur bókum um Skúla skelfi. Ég hef lagt það til við hana að hún lesi bara í hljóði og ég kvitti svo fyrir en hún er allt of heiðarleg til að samþykkja það. Hún vill ekki blekkja kennarann sinn.

Þeim til upplýsingar sem ekki eiga börn í grunnskólum þá er venjan sú að í 1. til 4. bekk eru börnin send heim með svokallaðar lestrarbækur og úr þeim eiga þau að lesa upphátt daglega fyrir foreldra sína sem kvitta svo fyrir í hvert skipti. Með þessu fylgist kennarinn vandlega og mikil áhersla er lögð á að þessi upplestur fari fram oft og reglulega, helst daglega. Talað er um að gríðarlega mikilvægt sé að foreldrar leggi rækt við þennan heimalestur barna sinna svo þau venjist á að lesa sér til gagns og ánægju, til að efla lesskilning og til að þjálfast í lestri. Þetta er, eftir því sem ég kemst næst, yfirlýstur tilgangur þessa upplestrar í heimahúsum.

Lesandi barn í Bandaríkjunum árið 2008
Mynd: Zen Sutherland
Við þetta fyrirkomulag hef ég ýmsar athugasemdir. Þegar börn eru að læra að lesa þurfa þau yfirleitt að lesa upphátt meðan þau eru að átta sig á hvernig þetta virkar allt saman og til að æfa sig í grundvallaratriðum lesturs. Þá þurfa þau líka aðstoð sér reyndara fólks, til dæmis kennara eða foreldra, til að finna út úr því hvort þau lesi orðin rétt og þurfa þá auðvitað að lesa upphátt. Þegar þau eru komin yfir það stig að vera byrjendur í lestri fara þau hins vegar að geta lesið í hljóði. Til að byrja með auka þau kannski leshraða sinn með því að lesa hraðar og hraðar upphátt en þegar þau eru farin að geta lesið þjált og vandræðalaust lesa þau væntanlega í hljóði á meiri hraða en æskilegt væri að nota til upplestrar. Ég veit ekki nákvæmlega hvenær það gerist, svona að meðaltali, en ég vona að flest börn í 3. og 4. bekk séu alla vega farin að lesa hraðar í hljóði en upphátt. Það liggur því fyrir að upplestraræfingarnar gagnast tæplega þeim börnum til að auka lestrarhraða sinn heldur draga þær úr honum.

Oft hefur verið lögð áhersla á það af hálfu skóla og/eða kennara að bækurnar sem notaðar væru til heimalestrar yrðu að koma frá skólunum og að þær væru svokallaðar lestrarbækur gefnar út af námsbókaforlögum. Þá hefur ekki mátt notast við neinar aðrar bækur, til dæmis skáldsögur eða annað lesefni sem börnunum hefur þótt áhugavert og eftirsóknarvert að lesa. Þetta mun vera misjafnt eftir skólum og kennurum en ég stóð t.d. í talsverðu ströggli við kennara elstu dóttur minnar á sínum tíma út af þessu. Það taldist heimalestur ef lesið var upphátt úr Litlu gulu hænunni en það var víst eitthvað allt annað ef hún las Börnin í Ólátagarði eða Harry Potter. Það átti einhvern veginn að felast meiri þjálfun í að lesa mun léttari texta af því að hann var prentaður í þar til gerða bók og það átti að örva áhuga hennar á lestri meira að láta hana lesa sögur sem henni þóttu leiðinlegar en að leyfa henni að lesa bækur sem hún þráði að fá að lesa. Eða hvað? Var tilgangur heimalestursins kannski eitthvað allt annað en að þjálfa lestur og hvetja til hans? Þessi kvöð með þar til gerðu lestrarbækurnar virðist reyndar ekki eins ströng nú til dags og elsta dóttirin er nú komin yfir tvítugt og getur eftir því sem ég best fæ séð lesið sér bæði til gagns og ánægju þrátt fyrir að ég hafi stundum svindlað og kvittað fyrir upplestur hjá henni þegar hún hafði bara lesið í hljóði (því hún vildi flýta sér að klára heimalesturinn svo hún hefði tíma til að lesa bækurnar sem hana langaði að lesa). Hún hefur kannski verið harðsvíraðri en yngsta systir hennar. En þótt sumir kennarar og/eða skólar leyfi börnum núorðið að velja sér bækur af skólabókasafninu fyrir heimalesturinn, alla vega þegar komið er upp í 3. og 4. bekk, þá er það enn ófrávíkjanleg skylda að lesa í þeim upphátt.

Stundum hef ég heyrt þá skýringu á upplestraráherslunni að tilgangur hennar sé að þjálfa börnin í framsögn.
Frá almenningsbókasafni
á Nýja-Sjálandi árið 1966
Gott og vel, það er auðvitað gagnlegt á ýmsa lund að þjálfa bæði börn og fullorðna í framsögn. En þyrftu börnin þá ekki að fá meiri tilsögn í framsögn? Þyrftu foreldrarnir ekki einhverjar betri leiðbeiningar um það hvernig þau geti stutt börnin sín í framsagnarnáminu? Ég hef sjálf farið á nokkur framsagnarnámskeið á ýmsum skeiðum lífs míns og lærði þar margt gott og gagnlegt. Þau áttu það öll sameiginlegt að þar var leikari eða annar fagmaður með mikið vit á framsögn sem þjálfaði nemendurna með markvissum hætti. Þessi námskeið áttu hins vegar afar lítið sameiginlegt með lestrarþjálfun eða lestrarörvun – sem er jú það sem hamrað er á að sé megintilgangur heimalestursins. Ég veit ekki með aðra, en ég get ekki sagt að framsagnaræfingar hafi gert mikið til að örva áhuga minn á lestri góðra bóka. Það sem hefur örvað hann er fyrst og fremst að hafa getað lesið bækur sem mér finnast skemmtilegar á þeim hraða sem mér finnst þægilegur – sem hefur allar götur síðan ég komst af stautstiginu verið talsvert meiri hraði en það sem hæfilegt gæti talist fyrir upplestur. Sennilega drægi það úr vilja mínum til lesturs ef ég mætti bara lesa upphátt.

Eldri dætur mínar tvær voru báðar miklir lestrarhestar frá því á unga aldri (sú þriðja hefur ekki verið eins bókaóð enn sem komið er en tekur samt skorpur af og til), voru tíðir gestir á bókasöfnum og vissu fátt skemmtilegra en að lesa. Þær hötuðust hins vegar báðar mikið út í heimalesturinn fyrir skólann. Hvaða skilaboð gefur það okkur að börn sem njóta þess í botn að lesa líti á heimaupplesturinn sem hvimleiða kvöð? Er líklegt að þetta sé góð aðferð til að örva áhuga á lestri meðal þeirra sem ekki hafa hann fyrir?

5 ummæli:

Sigfríður sagði...

Ég hætti að láta mína dóttur lesa upphátt um leið og hún var farin að geta lesið sér til gagns. Sennilega bara afþví að það fór framhjá mér í upphafi að hún ætti endilega að lesa upphátt. Þegar ég fattaði það þá bara ákvað ég að halda uppteknum hætti. Sé ekki ástæðu til að láta vel læsa krakka stagla heima við það að lesa upphátt.

Eyja M. Brynjarsdóttir sagði...

Ég er alvarlega farin að hugsa um að senda kennara dóttur minnar bréf þar sem ég lýsi því yfir að ég muni ekki láta barnið lesa upphátt nema ég fái skiljanlegan rökstuðning frá skólanum fyrir nauðsyn þess. Hins vegar hafi ég ekkert á móti því að láta hana lesa í hljóði daglega.

Harpa sagði...

Þegar ég var ungur kennari fékk ég skömm í hattinn fyrir að láta (fluglæsa) 6ára nemendur ekki lesa upphátt á hverjum degi og ganga hart á eftir því að foreldrar gerðu það líka. Ég mátti sem sagt ekki leyfa þeim að lesa í hljóði það var ómark. En síðan eru liðin ansi mörg ár og mér þykir leitt að heyra að þetta sé enn svona.

Unknown sagði...

Ég var að aðstoða við heimanám 6-8 ára barna fyrir fjórum árum, og þá var þessi blessaði daglegi upplestur helsta verkefnið. Bækurnar voru mjög misskemmtilegar og höfðuðu misvel til barnanna. Held að þessi aðferð sé ekki til þess fallin að auka áhuga barna á lestri.

Nafnlaus sagði...

Alveg er ég innilega sammála þessum pælingum. Þetta fyrirkomulag með heimalesturinn var ekki í gangi þegar ég var í grunnskóla, eða ekki svo ég muni, en ég man hins vegar eftir óendanlegum pirringi mínum þegar allur bekkurinn átti að skiptast á að lesa upphátt í hverjum móðurmálstímanum á fætur öðrum. Ég var þá búin að vera fluglæs í mörg ár og hafði sannarlega ekki gaman af því að hægja á mér, vera löngu búin að lesa blaðsíðuna (og alla bókina heima, fyrsta dag skólaársins vanalega) og sitja svo bara og bíða. Og ekki hefur þetta verið skemmtilegra fyrir fólkið sem átti erfitt með lestur og opinberaði þessa erfiðleika sína fyrir öllum hópnum hvað eftir annað. Þetta efast ég um að hafi örvað lestraráhuga nokkurs barns.

Og ég segi eins og Eyja, ég skil að það sé mikilvægt að lesa upphátt meðan grunnfærni í lestri er náð, og svo skil ég líka alveg að þau séu látin lesa upphátt þegar verið er að vinna með framsögn og upplestur sem slíkan - og þá með leiðsögn sem beinist að þessum þáttum - en þegar krakkar eru orðnir vel læsir þá er þetta bara til að drepa mann og annan.

Það jákvæðasta sem ég hef samt tekið eftir núna í haust, eigandi bróðurdóttur sem var að byrja í skóla, er að nú fá krakkarnir þó að halda áfram og lesa bækur sem henta eigin lesfærni, þ.e.a.s. í skóla frænku minnar þurfa þau ekki að bíða eftir að allur bekkurinn sé búinn með sömu bókina (eins og back in the day) heldur fá þau að gera þetta á sínum hraða. Þetta eru MASSÍVAR framfarir frá minni grunnskólagöngu (ég er rúmlega þrítug). En ekki eru þetta sérlega spennandi bækur, hvers vegna er ekki hægt að hafa söguþráð þótt textinn sé einfaldur? Það eru t.d. til miklu, miklu skemmtilegri léttlestrarbækur frá Bandaríkjunum og Bretlandi.

Salka