Báðar gerast nóvellurnar að stærstum hluta í Reykjavík og tímarammi beggja spannar fáeinar vikur. Á yfirborðinu eru sögurnar og aðalpersónur þeirra annars nokkuð ólíkar, auk þess sem við kynnumst Söru í frásögn alviturs sögumanns á meðan Þórir segir frá í fyrstu persónu. Bæði verða þau fyrir einhvers konar vitrun, sem verður ekki betur séð en hafi verið ætluð þeim einum og sem kemur til með að hafa töluverð áhrif á líf þeirra, en nálgast þó þessar vitranir og tilheyrandi afleiðingar með ólíku móti hvort um sig. Á meðan Þórir er sannfærður um það frá byrjun að honum hafi verið falin mikilvæg skilaboð til umheimsins er það fyrst eftir viðbrögð annarra að Söru fer að detta í hug að hennar upplifun hafi kannski verið eitthvað merkileg. Þrátt fyrir sterka sannfæringu þarf Þórir líka að hafa töluvert meira fyrir því en Sara að miðla boðskapnum sem hann telur sig hafa að flytja, og þegar athyglin loks næst er hún ekki beinlínis af þeim toga sem hann hafði séð fyrir sér. Þórir er eldhress á yfirborðinu en í raun félagslega einangraður; þráir nánd í samskiptum en veit ekki hvernig hann ætti að bera sig að við að nálgast aðra. Í vitrun hans birtist nokkuð sem hann telur eiga almennt erindi, eitthvað sem fólk gæti sameinast um, en það gengur ekki eftir. Þetta er þó einmitt það sem gerist í tilfelli Söru, án þess að hún hafi séð það fyrir eða vonast eftir því sjálf. Með öðrum orðum birtist afar tilviljunarkennt samband milli persónulegrar sannfæringar og viðleitni annars vegar og viðbragða umhverfisins hins vegar.
Halldór Armand Ásgeirsson |
Mér þótti seinni sagan betri en sú fyrri þótt báðar séu góðar; bæði vel og skemmtilega skrifaðar (við sambýlisfólkið hlógum bæði nokkrum sinnum upphátt við lesturinn) og samspilið milli þeirra sömuleiðis vel heppnað. Mér fannst líka sérlega gaman að sjá reykvískri sundlaugamenningu gerð svo góð skil í skáldskap. Stórfín frumraun sem ég mæli svo sannarlega með til jólagjafa, annarra tækifærisgjafa eða bara í eigið bókasafn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli