18. desember 2013

Doctor Sleep, nýlegt framhald The Shining, veldur druslubókadömu ekki vonbrigðum

Falleg, jólarauð kápa.
Í haust kom út ný skáldsaga eftir Stephen King, Doctor Sleep, sem er framhald einhverrar bestu hryllingssögu allra tíma, The Shining. Ég hafði beðið bókarinnar með töluverðri eftirvæntingu, endurlas The Shining til að vera sem undirbúnust fyrir lesturinn og keypti mér meira að segja nýja útgáfu sem hafði að geyma brot úr fyrstu köflum framhaldsins óútgefna á lokablaðsíðunum. Það var vel við hæfi þar sem Doctor Sleep hefst árið 1981, ekki svo löngu eftir að Overlook-hótelið brennur til grunna. Lesendum er þá gefin svolítil hugmynd um afdrif mæðginanna Danny og Wendy Torrence í kjölfar hryllilegra atburða fyrri bókarinnar, en svo er fókusinn færður alveg yfir á Danny þegar hann er vaxinn úr grasi. Það kemur kannski ekki á óvart að draugar fortíðarinnar – sama hvaða skilning maður leggur í þau orð – skuli fylgja söguhetjunni okkar út fyrir lóðarmörk hótelsins óhugnanlega. Danny Torrence er semsagt ekki sá heilsteypti fullorðni einstaklingur sem við hefðum ef til vill vonast til að hinn ungi og afar viðkunnanlegi „doc“ yrði einhvern daginn, heldur flakkar hann einn milli bandarískra borga þar sem hann fær iðulega ráðningu á hjúkrunar- og elliheimilum um skeið, eða þangað til hann hættir að mæta sökum drykkju og ólifnaðar. Þá bíður hans enn ein rútuferðin, enn ein borgin, enn meiri þynnka og vesen.


Danny ungur í kvikmyndaaðlögun Stanley Kubricks.
Það hefði verið skemmtilega fríkað ef King hefði skrifað niðurdrepandi en raunsæislega sögu manns sem drekkur sig smám saman í hel þegar hann reynir að flýja bernskutráma, en það á þó ekki við hér. Danny nær áður óþekktum lægðum í óreglunni í mjög vel skrifuðu og eftirminnilegu atriði snemma í bókinni og það á stóran þátt í því að hann þurrkar sig upp. Hann fer að mæta á AA-fundi og tekst í þetta sinn að endast í vinnu á hjúkrunarheimili, þar sem hann er kallaður Doctor Sleep vegna þess að yfirnáttúrulegir hæfileikar hans nýtast við að hjálpa deyjandi fólk að sofna svefninum langa (ekkert skylt við líknarmorð samt, það er frekar eins og hann styðji gamla fólkið yfir þröskuld, úr þessum heimi yfir í þann næsta). Þegar áfengisdoðinn hefur rjátlast af Danny myndast tengsl milli hans og Öbru, ungrar stúlku sem býr yfir svo stórkostlegum mætti að Danny virkar eins og Sigríður Klingenberg í samanburði. Abra er ansi flott persóna og samband hennar við Danny minnir að mörgu leyti á samband hans við kokkinn Hallorann í The Shining, sem kemur sér vel þegar hættu ber að garði. Ógnin er True Knot-hópurinn, aldagamlar verur sem ferðast um í hjólhýsum og nærast á gufu sem hægt er að fá úr börnum sem „skína“, (yfirleitt bara smá, ekkert í líkingu við Danny og Öbru) með því að pynta þau hægt til dauða.

Mrs. Massey, konan í herbergi 217,
lætur sig ekki vanta í nýju bókina.
Stóra spurningin hlýtur að vera hvort bókin sé verðugt framhald meistaraverksins sem King sendi frá sér árið 1977. Það er í rauninni erfitt að bera verkin tvö saman, svo ólík eru þau. Innilokunarkenndin sem einangrunin í Overlook-hótelinu kallaði fram breytist í allt annars konar óþægindi í Doctor Sleep, þar sem sögunni vindur fram víðsvegar um Bandaríkin en hryllingurinn, hvers eðlis sem hann kann að vera, eltir persónur uppi – og meðal þess sem Danny þarf að horfast í augu við er að „maður tekur sjálfan sig með sér, hvert sem maður fer.“ Og þótt Doctor Sleep fjalli um fjölskyldur eins og Margaret Atwood bendir á í sínum dómi um bókina, alveg eins og The Shining, þá eru „fjölskyldurnar“ sem eru hvað fyrirferðarmestar í bókinni hópar eins og the True Knot, vonda, vampýrulega hjólhýsispakkið sem tengist tryggðarböndum vegna fíknarinnar í gufu, og svo AA-fjölskyldan, sem sameinast í baráttunni gegn sinni fíkn. Loks má segja að áhrif bókanna tveggja séu ansi ólík, að minnsta kosti þótti mér Doctor Sleep frekar spennandi en hryllileg, á meðan hryllingurinn er ríkjandi í The Shining (þótt ég viti um fátt jafnspennandi og lokatrylling hins morðóða Jacks, þar sem hann hleypur um, sveiflandi krokketkylfunni…)

King lýsir því sjálfur yfir í eftirmála að hann hafi verið uggandi þegar hann réðst í að skrifa bókina og þannig nálgast lesandi hana líka, ekki síst þeir sem hafa lengi haldið upp á fyrra verkið. Það gleður mig því sérstaklega að geta sagt, með góðri samvisku, að Doctor Sleep olli mér alls ekki vonbrigðum. Hún er góð. Ekki eins góð og The Shining, en góð samt.

Engin ummæli: