Svo ritaði Ólafur Davíðsson, nemi við Lærða skólann í Reykjavík, í dagbók sína föstudaginn 19. maí 1882, skömmu áður en hann sigldi til framhaldsnáms í Kaupmannahöfn. Hinn innanfeiti Ólafur Davíðsson var tvítugur þegar þetta var, fæddur í janúar 1862, prestssonur að norðan. Hann lagði stund á náttúrufræði við Kaupmannahafnarháskóla en varð síðar þekktastur fyrir söfnun sína á íslenskum þjóðsögum, gátum, vikivökum og þulum. Árið 1955 gaf Finnur Sigmundsson út dagbók Ólafs frá námsárum hans á Íslandi og í Danmörku, ásamt bréfum hans til föður síns á sama tíma, undir titlinum Ég læt allt fjúka.
Ólafur Davíðsson. Myndin er fengin úr grein Eyþórs Einarssonar um Ólaf í Náttúrufræðingnum 1962 |
Líf Ólafs í Lærða skólanum er ekki að öllu leyti frábrugðið menntaskólalífi okkar daga: hann spásserar um götur Reykjavíkur með félögum sínum, borðar vínarbrauð, drekkur hálfbjóra og verður svínkaður, skrópar í tíma, les undir próf og spjallar við skólabræður sína um landsins gagn og nauðsynjar, pólitík, trúmál, bókmenntir og kvenfólk. Og tekst á hörkunni að læra að reykja, eins og mörgum fyrr og síðar: „Mér hefur oft orðið dauðillt af tóbaksnautn. Ég hef bliknað og hnigið næstum því í dá, fengið jafnvel nábít og velgju og gubbað, en ég hef ekki látið það á mig fá og haldið áfram, og nú hef ég unnið sigur. Nú kann ég að reykja og taka í nefið.“
Örmynd af Ólafi |
Það er ekki laust við að það sé djammað í Lærða skólanum og lýsingar Ólafs á skemmtanalífi piltanna eru afar líflegar og myndu sóma sér vel í raunveruleikasjónvarpsþáttum okkar daga. Stendur þar upp úr löng og nákvæm lýsing á dansleik sem haldinn var í tilefni af afmæli konungs vorið 1882, en þar gerðust „busar og kastringar“ sérstaklega mjög ölvaðir. Einn þeirra meig og gubbaði í rúmið sitt, dröslaði svo félaga sínum blindfullum upp í rúmið „svo að honum yrði kennt um ósóma þann, er hann hafði gjört sjálfur“ og marseraði að því búnu aftur inn í samdrykkjusalinn „á sokkaleistunum og hafði penem útbyrðis“.
Þótt Ólafur láti vissulega allt fjúka er titill útgáfunnar kaldhæðnislegur, því þótt Finnur Sigmundsson prenti margt treystir hann sér ekki til þess að prenta allt og þær stuttu klausur sem hann fjarlægir úr dagbók Ólafs eru kapítuli út af fyrir sig. Á nokkrum stöðum í dagbókinni segir Ólafur frá sambandi sínu við annan skólapilt, Geir Sæmundsson, sem var fimm árum yngri en Ólafur. Þeir eiga í ástarsambandi, Ólafur kallar Geir „unnustu sína“ og þeir eru mikið að kyssast og knúsast í rökkrinu. Af og til í dagbókinni lýsir Ólafur vangaveltum sínum um eðli hrifningarinnar á piltum annars vegar og stúlkum hins vegar, og það kemur fram að hann ræðir við félaga sína um „sveinaástir“.
Þorsteinn Antonsson vann það þjóðþrifaverk að taka saman kaflana sem felldir voru úr dagbókinni og birti þá í greinasafninu Vaxandi vængir árið 1990. Þorsteinn hefur skrifað aðra bók, Örlagasögu, sem er að nokkru leyti byggð á skrifum Ólafs Davíðssonar en fjallar aðallega um skólabróður hans, Gísla Guðmundsson, sem varð honum samferða bæði í Lærða skólanum og við Kaupmannahafnarháskóla. (Það er að vísu mynd af Hannesi Hafstein á kápunni með þeim Ólafi og Gísla, en hann kemur lítið við sögu.) Örlagasaga er sérstæð bók, eins og miðja vegu milli heimildaútgáfu og sagnfræðiverks, og samanstendur að miklu leyti af beinum uppskriftum á misáhugaverðu efni sem liggur eftir Gísla, Ólaf og ýmsa samtíðarmenn þeirra, til dæmis mannlýsingum og bókmenntaumfjöllun, en þar eru einnig nokkrar skemmtilegar lýsingum á stúdentalífinu.
Gísli Guðmundsson og Ólafur Davíðsson áttu það sameiginlegt að deyja fyrir aldur fram, þótt Gísli færi á undan, og báðir drukknuðu. Ólafur drukknaði í Hörgá rétt rúmlega fertugur árið 1903 en Gísli stytti sér aldur aðeins hálfþrítugur, stökk fyrir borð á ferju frá Jótlandi. Og Ólafur hélt áfram að láta allt fjúka: „Það hleypur einhver hundakæti í mig þegar ég heyri að kunningjar mínir hrökkva upp af.“
Engin ummæli:
Skrifa ummæli