Í gær birtu Druslubækur og doðrantar bloggfærslu þar sem bent var á að með helgarviðtali Fréttatímans við nýjustu viðbótina í höfundaflóru Forlagsins, Evu Magnúsdóttur, hefði birst mynd sem tekin er af netinu og er af þeirri tegund sem eru í myndarömmum þegar maður kaupir þá.
Vísir og DV birtu fljótlega frétt um málið. Rætt var við Friðriku Benónýs, sem tók viðtalið við Evu fyrir Fréttatímann, að eigin sögn í góðri trú, og kynningarfulltrúa Forlagsins, sem sór einnig af sér vitneskju um gabbið. Fjölmiðlar náðu hins vegar ekki tali af eiganda Forlagsins, sem sagður var eini maðurinn sem vissi hver stæði á bak við höfundarnafnið Evu Magnúsdóttur. Glöggur lesandi Druslubóka og doðranta benti á að Eva Magnúsdóttir er skráð sem dulnefni í gagnagrunni bókasafna, enda fokkar enginn í bókasafnsfræðingum eins og skáldið sagði.
Í athugasemdum við frétt DV er stungið upp á Þorgrími Þráinssyni og Davíð Oddssyni sem mögulegum pennum á bak við Evu Magnúsdóttur en þótt það séu góðar tillögur og frábærir höfundar tökum við ekki undir þær. Textafræðideild Druslubóka og doðranta rýndi í brot úr bókinni sem finna má á vef Forlagsins og komst að þeirri niðurstöðu að bæði í stíl og efnistökum mætti sjá ýmsar eindregnar hliðstæður við verk höfundarins Steinars Braga.
Við veltum því fyrir okkur hvort hin dularfulla Eva Magnúsdóttir sé þá mögulega persóna í næstu bók Steinars. Hvað finnst lesendum um þá kenningu?
19. október 2015
18. október 2015
Lausnin: Portrait of beautiful woman with charming look
Meðal þeirra bóka sem Forlagið gefur út á þessu hausti er spennutryllirinn Lausnin eftir Evu Magnúsdóttur. Í viðtali við Evu sem birtist í Fréttatímanum um helgina kemur fram að hún sé á ferðalagi á leið til Íran og ætli ekkert að koma til Íslands til að fylgja nýju bókinni eftir. Hún lét þó tilleiðast að svara nokkrum spurningum Fréttatímans, hefur sennilega fengið að komast á netið hjá einhverjum af vinum sínum úr Baháí-söfnuðinum.
En þótt Eva Magnúsdóttir sé ný rödd í íslenskum bókmenntum má til gamans benda á að andlit hennar er að finna víða á netinu, til dæmis á Shutterstock og öðrum vefsíðum sem enda á -stock.
6. október 2015
Cause nothing mends a broken heart like Domino´s
Jólabókaflóðið í ár er sannkallað ljóðabókaflóð. Auk druslubókakvennanna undirritaðrar og Þórdísar Gísladóttur eru Óskar Árni Óskarsson og Halldór „DNA“ Halldórsson með ljóðabækur hjá Bjarti. Linda Vilhjálmsdóttir og Sjón gefa út ljóð hjá Forlaginu og þar er líka enginn annar en Ásbjörn Morthens með sína fyrstu bók. Hjá Meðgönguljóðum gefa tveir stofnendur útgáfunnar, Valgerður Þóroddsdóttir og Kári Tulinius, út bók í haust, í þetta sinn sitt hvora bókina en ekki sameiginlega eins og þau gerðu árið 2012 með Þungum forsetum, fyrstu Meðgönguljóðabókinni. Kári Páll Óskarsson gefur út sína þriðju ljóðabók hjá nýstofnaða grasrótarforlaginu Deigma og Ásgeir H. Ingólfsson gefur út sína aðra bók. Annað nýtt forlag, Bókstafur á Egilsstöðum, gefur út Lubba klettaskáld og Urði Snædal. Það sem ég hef séð af þessum bókum lofar mjög góðu.
Og síðast en ekki síst var ég að enda við að kaupa mér bók eftir splunkunýjan höfund og þann yngsta í þessum hópi, Eydísi Blöndal, sem gefur út hjá forlaginu Lús. Bókin heitir Tíst og bast og er mjög skemmtileg og ég mæli með að ljóðaáhugafólk tékki á henni.
Frá mínum bæjardyrum séð er helsti galli bókarinnar hvað ást og ástarsorg eru þar miðlægt viðfangsefni, sérstaklega í síðari hlutanum. Eins og þeir vita sem þekkja mig hef ég hart og kalt hjarta og mér hefur alltaf þótt ást leiðinlegt umfjöllunarefni í bókmenntum, nema mögulega hún byggi á einhvers konar athyglisverðri brenglun, sjúklegri þráhyggju og stjáklaratendensum, forboðinni ást milli dýrategunda, gúmmístígvélablæti eða einhverju af því tagi. Ég get þó varla ætlast til þess að aðrir fylgi mér endilega í þessu máli.
Eydís yrkir hins vegar líka um strætó, Dominos (sem ég er sérstök áhugamanneskja um að koma inn í íslenska ljóðlist), snjallsímaöldina, femínisma og listina að sjóða hæfilegt magn af pasta, allt á óhátíðlegan og afslappaðan hátt. Það er að mínu mati mjög eftirsóknarverður eiginleiki í ljóðagerð. Einhverra hluta vegna vilja ljóð oft vera tilgerðarleg, hvort sem tilgerðin snýr að erfiðu hlutskipti skáldsins í tilverunni, fegurð vorkvöldsins eða hinu háskalega næturlífi í borg óttans. Þetta eru ótilgerðarleg ljóð, sniðug og fyndin, mörg bara tíst en önnur lengri, ó-formleg og stundum dálítið hrá en vel gerð.
Það er hressandi að sjá aðferðir og einkenni snjallsímaaldarinnar innlimuð í ljóð - kannski finnst sumum það ekki nógu skáldlegt, og kannski er hætta á að ákveðnar vísanir í tækniumhverfið úreldist hratt, en það er eitthvað ankannalegt við að lifa svona stóran hluta daglegrar tilveru á/í netinu án þess að þess sjái merki í ljóðlist sem fjallar um hversdaginn, og það er svo sem fleira en tæknin sem getur fljótt orðið úrelt.
Einhverra hluta vegna höfðar strætó á sunnudegi sérstaklega til mín:
ekkkert segir: „ég er í fríi“
eins og að rölta út í strætóskýli
og pæla ekkert í því
hvað tímanum líður
Tíst og bast er líka mjög falleg bók, með fínni reykvískri kápumynd eftir Margréti Aðalheiði Önnu- og Þorgeirsdóttur.
Semsagt: skemmtilegt að byrja ljóðabókaflóðið á þessari!
Og síðast en ekki síst var ég að enda við að kaupa mér bók eftir splunkunýjan höfund og þann yngsta í þessum hópi, Eydísi Blöndal, sem gefur út hjá forlaginu Lús. Bókin heitir Tíst og bast og er mjög skemmtileg og ég mæli með að ljóðaáhugafólk tékki á henni.
Frá mínum bæjardyrum séð er helsti galli bókarinnar hvað ást og ástarsorg eru þar miðlægt viðfangsefni, sérstaklega í síðari hlutanum. Eins og þeir vita sem þekkja mig hef ég hart og kalt hjarta og mér hefur alltaf þótt ást leiðinlegt umfjöllunarefni í bókmenntum, nema mögulega hún byggi á einhvers konar athyglisverðri brenglun, sjúklegri þráhyggju og stjáklaratendensum, forboðinni ást milli dýrategunda, gúmmístígvélablæti eða einhverju af því tagi. Ég get þó varla ætlast til þess að aðrir fylgi mér endilega í þessu máli.
Eydís yrkir hins vegar líka um strætó, Dominos (sem ég er sérstök áhugamanneskja um að koma inn í íslenska ljóðlist), snjallsímaöldina, femínisma og listina að sjóða hæfilegt magn af pasta, allt á óhátíðlegan og afslappaðan hátt. Það er að mínu mati mjög eftirsóknarverður eiginleiki í ljóðagerð. Einhverra hluta vegna vilja ljóð oft vera tilgerðarleg, hvort sem tilgerðin snýr að erfiðu hlutskipti skáldsins í tilverunni, fegurð vorkvöldsins eða hinu háskalega næturlífi í borg óttans. Þetta eru ótilgerðarleg ljóð, sniðug og fyndin, mörg bara tíst en önnur lengri, ó-formleg og stundum dálítið hrá en vel gerð.
Það er hressandi að sjá aðferðir og einkenni snjallsímaaldarinnar innlimuð í ljóð - kannski finnst sumum það ekki nógu skáldlegt, og kannski er hætta á að ákveðnar vísanir í tækniumhverfið úreldist hratt, en það er eitthvað ankannalegt við að lifa svona stóran hluta daglegrar tilveru á/í netinu án þess að þess sjái merki í ljóðlist sem fjallar um hversdaginn, og það er svo sem fleira en tæknin sem getur fljótt orðið úrelt.
Einhverra hluta vegna höfðar strætó á sunnudegi sérstaklega til mín:
ekkkert segir: „ég er í fríi“
eins og að rölta út í strætóskýli
og pæla ekkert í því
hvað tímanum líður
Tíst og bast er líka mjög falleg bók, með fínni reykvískri kápumynd eftir Margréti Aðalheiði Önnu- og Þorgeirsdóttur.
Semsagt: skemmtilegt að byrja ljóðabókaflóðið á þessari!