Í gær birtu Druslubækur og doðrantar bloggfærslu þar sem bent var á að með helgarviðtali Fréttatímans við nýjustu viðbótina í höfundaflóru Forlagsins, Evu Magnúsdóttur, hefði birst mynd sem tekin er af netinu og er af þeirri tegund sem eru í myndarömmum þegar maður kaupir þá.
Vísir og DV birtu fljótlega frétt um málið. Rætt var við Friðriku Benónýs, sem tók viðtalið við Evu fyrir Fréttatímann, að eigin sögn í góðri trú, og kynningarfulltrúa Forlagsins, sem sór einnig af sér vitneskju um gabbið. Fjölmiðlar náðu hins vegar ekki tali af eiganda Forlagsins, sem sagður var eini maðurinn sem vissi hver stæði á bak við höfundarnafnið Evu Magnúsdóttur. Glöggur lesandi Druslubóka og doðranta benti á að Eva Magnúsdóttir er skráð sem dulnefni í gagnagrunni bókasafna, enda fokkar enginn í bókasafnsfræðingum eins og skáldið sagði.
Í athugasemdum við frétt DV er stungið upp á Þorgrími Þráinssyni og Davíð Oddssyni sem mögulegum pennum á bak við Evu Magnúsdóttur en þótt það séu góðar tillögur og frábærir höfundar tökum við ekki undir þær. Textafræðideild Druslubóka og doðranta rýndi í brot úr bókinni sem finna má á vef Forlagsins og komst að þeirri niðurstöðu að bæði í stíl og efnistökum mætti sjá ýmsar eindregnar hliðstæður við verk höfundarins Steinars Braga.
Við veltum því fyrir okkur hvort hin dularfulla Eva Magnúsdóttir sé þá mögulega persóna í næstu bók Steinars. Hvað finnst lesendum um þá kenningu?
Það er kenning sem ég kaupi.
SvaraEyða