3. nóvember 2015

Óþekk amma og tröll í léttlestrarbók

Jenny Kolsöe
Núna fyrir skömmu kom út barnabókin Amma óþekka og tröllin í fjöllunum eftir Jenny Kolsöe – bókin vakti fyrst athygli mína af því Bókabeitan gefur hana út en fyrir þá sem ekki vita er Bókabeitan forlag sem þær Birgitta Elín Hassell og Marta Hlín Magnadóttir standa að. Forlagið sérhæfir sig í bókum fyrir börn og unglinga sem er í sjálfu sér bæði magnað og frábært. Enn betra þykir mér svo að þær bækur beitunnar sem rekið hefur á mínar fjörur hafa verið ansi hreint fínar og því er ég nú farin að hafa augun sérstaklega opin fyrir bókum frá þeim.

Höfundur Ömmu óþekku og tröllanna í fjöllunum er Jenny Kolsöe – sem netrannsókn leiðir í ljós að er sjálf amma sem hefur komið víða við og skrifað heilmikið þótt Amma óþekka sé fyrsta bók hennar sem kemur út á pappír. Þetta er eins og áður sagði barnabók – nánar tiltekið léttlestrar bók fyrir þau sem eru að byrja að lesa sjálf. Hér er raunar strax tilefni til að fagna því eins og allir sem hafa lært að lesa vita þá er ekki offramboð af slíku efni. Hver kannast ekki við fleygar setningar á borð við „Anna sá sól” og „Snati á ól“ (Hvað er þetta annars með íslensku stafina og ólar? Sonur minn er alltaf jafn ringlaður þegar við rennum yfir myndskreytt stafróf og segir hikandi: og svo „Ó“ eins og í...belti...?) Amma óþekka er hluti af Ljósaseríunni sem er bókaflokkur ætlaður þeim sem eru að æfa sig í lestri – mér sýnist hún vera önnur bókin í flokknum. Hún er 57 bls. með stóru letri og góðu bili milli fremur stuttra málsgreina til að auðvelda lesturinn.

Vandamálið við léttlestrarbækur er að þær mega ekki vera of langar og ekki með svo miklum textamassa að það fæli byrjendur frá – en hins vegar mega efnistök og setningarnar ekki vera of einfaldar eða barnalegar því þótt lesendurnir séu ungir er skilningur á heiminum yfirleitt kominn langt fram úr lesskilningnum. Það þarf því stutta og auðlesna bók sem þó hefur einhverja áhugaverða og helst skemmtilega sögu að segja. Amma óþekka og tröllin í fjöllunum uppfyllir ágætlega þessar kröfur. Ég las hana raunar með fjögurra ára syni mínum sem féll bæði fyrir nafninu og myndunum og krafðist þess að fá að heyra hana. Myndirnar eru eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur og eru bæði líflegar og skemmtilegar enda hefur Bergrún getið sér gott orð sem myndskreytir á síðustu árum og var nú síðast tilnefnd til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir bókina Vinur minn vindurinn. Sonur minn var sérstaklega heillaður af stærstu myndinni sem er heil opna fyrir miðri bók og sýnir ömmu óþekku sem situr á öxlinni á tröllinu Truntu á meðan stúlkan Fanney Þóra situr á öxlinni á tröllastráknum Tappa sem aukinheldur er með bílinn hennar ömmu undir öðrum handleggnum.

Bergrún Íris myndskreytir
Hér segir sum sé frá stelpunni Fanney Þóru og ömmu hennar sem hefur viðurnefnið óþekka og útilegu sem þær fara saman í. Þær ætla að vera heila viku, tjalda, grilla pylsur á prímus, hita kaffi og kakó og mála. Amma er nefnilega myndlistarkona og bóhem og það er ekki leiðinlegt að eiga svoleiðis ömmu. Strax í bílnum á leiðinni verður ljóst að amma er ekki eins og venjulegar ömmur (ég held reyndar að þessar venjulegu ömmur séu smám saman að verða útdauðar nema í bókmenntum skrifuðum á síðustu öld) þegar hún stingur uppá því að Fanney Þóra leiki sér við tröllabörn þegar þær séu komnar upp í sveit. Fanney Þóra veit í fyrstu ekki hvort amma hennar er að grínast og verður dálítið smeyk. Eins og titill bókarinnar ber með sér hitta þær stöllur svo einmitt tröll og lenda í ýmsum ævintýrum þegar nálægt fjall byrjar að gjósa – en með hjálp tröllanna fer allt vel að lokum.

Hér er unnið með ýmsa þræði – Fanney Þóra er fyrst hrædd við tröllin en svo kemur í ljós að tröllin eru ekki skelfileg heldur hjálpleg – en í staðinn kemur ógn úr annarri óvæntri átt þegar eldgosið hefst. Amma áréttar fyrir barnabarni sínu að bera virðingu fyrir náttúrunni á ýmsa vegu - hún mælist til þess að Fanney Þóra sé kurteis við tröllabörnin og gæti þess að stíga ekki á tærnar á þeim – annars gætu þau farið að grenja og þá rignir ósköpin öll og hætt er við að þær fái báðar tröllakvef sem einkennist af grænu slími og slæmum hósta. Þá er ekki síður mikilvægt að muna að það má pissa bak við runna en ef maður þarf að kúka er mikilvægt að grafa holu með lítilli skóflu og moka vel ofan í hana aftur þegar maður hefur lokið sér af – annars gæti tófan komið og étið skítinn. Þetta eru góð ráð og jafnvel spurning um að fá ömmu óþekku í ferðamálráð? Eins er skemmtilega unnið með mörk raunveruleika og ímyndunar í birtingarmyndum tröllanna. Þegar Fanney Þóra horfir yfir ána sér hún allt í einu risastóran stein sem henni finnst ekki hafa verið þar áður. Steinninn er þegar nánar er að gáð alveg eins og tröllastrákur og talar og hreyfir sig. Þegar amma laumast síðar til að taka mynd af Fanneyju Þóru og tröllunum sést bara mynd af litlu stelpunni á milli tveggja kletta sem þó hafa á sér ákveðna mannsmynd eða öllu heldur tröllamynd. Á leiðinni heim er það svo að frumkvæði Fanneyjar Þóru sem þær ákveða að segja engum frá tröllunum svo þau fái nú örugglega að vera í friði uppi í fjöllunum sínum. Ekki kæra þau sig um straum af fólki og fréttamönnum að elta sig á röndum. Það eru því ýmis skilaboð til ungra lesenda sem leynast í sögunni sem er þó fyrst og fremst skemmtileg og spennandi.

Þetta er eins og áður sagði fyrsta útgefna bók höfundar og textinn er á köflum örlítið flatur og stirður en hins vegar er hann skýr og blátt áfram og sagan er eins og áður segir bæði litrík og skemmtileg. Einstaka sex eða sjö ára börn gætu verið á því að þau séu vaxinn upp úr ömmum og tröllum en ég árétta að þetta er heilmikil hasarbók eins og þegar tröllin hlaupa með þær stöllur undan rauðglóandi hrauninu. Ég mæli hiklaust með þessari bók fyrir unga lesendur – og sömuleiðis þá sem yngri eru og vilja frekar hlusta.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli