7. nóvember 2015

Flugnagildran

„Enginn viti borinn maður hefur áhuga á flugum, allra síst kvenfólk. Ekki ennþá, er ég vanur að hugsa en á endanum er ég samt alltaf svolítið feginn að aðrir skuli ekki hafa áhuga á þeim. Samkeppnin er ekki sérlega hörð.“  (Flugnagildran bls.15)

Fredrik Sjöberg
Í þessari tilvitnun í bókina Flugnagildran, sem nýlega kom út í Neon-klúbbi Bjarts í þýðingu Sigrúnar Ástríðar Eiríksdóttur, felst kannski sannleikur. En það eru auðvitað til margar undantekningar, ég hef nefnilega svolítinn áhuga á flugum og áður en ég las bókina vissi ég meira að segja að sveifflugur (bókin fjallar að miklu leyti um þær) eru með tvo vængi en geitungar og hunangsflugur, sem fólk ruglar þeim oft saman við, eru með fjóra. Mér skilst að fáir viti þetta, og líklega enn færri Íslendingar en Svíar. Mér hefur lengi fundist fólk grunsamlega áhugalaust um flugur, aðallega keppast Íslendingar um að vera hræddir við þær, hversu undarlegt sem það nú er. En hvað sem þessu líður þá er Flugnagildran alls ekki bara fyrir okkur sem höfum áhuga á að lesa alþýðlegan fróðleik um flugur.

Flugnagildran er eftir sænska skordýrafræðinginn Fredrik Sjöberg (f. 1958) og hún er ein af þeim bókum sem bókasafnsfræðingar eiga áreiðanlega í stökustu vandræðum með að flokka því hún fjallar um svo margt. Í upphafi bókarinnar segir höfundurinn frá því þegar hann starfaði í leikmunadeild Konunglega leikhússins í Stokkhólmi og þurfti að hafa hemil á lifandi lambi og skúra pissið úr Peter Stormare, sem kastaði af sér vatni í sýningu eftir sýningu á verki eftir Sam Shepard. Í stuttu máli þá missti Sjöberg fljótlega áhugann á þessu starfi og flutti til eyjar í Skerjagarðinum fyrir utan Stokkhólm, þar sem búa um 300 manns, og fór að safna sveifflugum. Þegar þar er komið sögu að hann er að skrifa bókina hefur hann safnað 202 ólíkum tegundum.
Sveiffluga - Episyrphus balteatus

Við söfnunina notar Fredrik Sjöberg merkilega flugnagildru, sem er 6x3 metrar og kennd við sænskan skordýrafræðing, landkönnuð og listaverkasafnara sem hét René Malaise (1892-1978). Malaise stundaði merkar rannsóknir, meðal annars á Kamtjatka, en hann er líka ein aðalpersóna Flugnagildrunnar því hún segir ævisögu hans. Inn í ævisögu Malaise og frásögn af eigin lífi vefur Fredrik Sjöberg síðan allskonar vangaveltum og fróðleik. Hann segir frá skordýraveiðum sínum, ferðamönnum og grasafræðingum sem koma til eyjarinnar og spjalla við hann og frá ferðum sínum um heiminn, m.a. siglingu upp Kongó-fljót. Hann víkur líka að allskonar hlutum sem koma okkur öllum við og vísar í hina og þessa rithöfunda í ýmsu samhengi, við sögu koma m.a. D.H. Lawrence, William Golding, Milan Kundera og Bruce Chatwin. Hér og þar er líka ýmsu gaukað að lesendum: „staðreyndin er sú að einhleypar konur finna varla betri veiðilendur en samkomur skordýrafræðinga. Þangað mæta frumlegar manngerðir og samkeppnin er engin. Ég vildi bara stinga þessu að.“ (bls. 160).

Skordýrasafn úr bernsku sonar bókabloggara og eintak af Flugnagildrunni
Flugnagildran er sem sagt saga höfundarins og ævisaga René Malaise, hún er ferðasaga, náttúrufræðibók, skordýrafræðibók, esseiubók og bók um ástríðurnar, listina og bókmenntirnar og um söfnunaráráttu almennt og hún fjallar líka um margt annað. Þetta er lítið rit sem er alltaf hægt að grípa niður í og lesa nokkrar síður, það er alveg óþarfi að gleypa hana í sig frá upphafi til enda í einum bita. Mjög áhugaverð bók fyrir fólk sem hefur gaman af að lesa óvenjulegar og vel skrifaðar bækur, hvort sem menn hafa sérstakan áhuga á flugum eða ekki.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli