Útgáfa sem þessi er fyllilega nauðsynleg og tímabær. Gyrðir er eitt fremsta ljóðskáld landsins og meira en sjálfsagt að ljóð hans séu gerð aðgengileg nýjum kynslóðum – þá meina ég mér – ekki bara á bókasöfnum heldur líka til kaups, en elstu bækur hans eru löngu uppseldar í almennum bókaverslunum og fást nú einkum á fágætisverði í fornbókabúðum, sé maður ekki svo heppinn að rekast á þær hjá kristniboðunum (elsta ljóðabókin eftir Gyrði sem er til á Bókin.is þegar þetta er skrifað er Mold í Skuggadal frá 1992 og hún kostar 5900 krónur, eða 2810 krónum meira en ljóðaúrvalið, sem er á mjög sanngjörnu verði).
Það er sumpart vandmeðfarið að endurútgefa skáld sem eru enn í fullu fjöri og ekki að fara að „loka ferlinum“ með heildarljóðasafni. Ljóðaúrval sem þetta er vel til þess fallið að kynna skáldið fyrir nýjum lesendum, og dregur upp ákveðna heildarmynd af þróun ljóðagerðar Gyrðis á þrjátíu ára tímabili. Sem slík er þessi bók prýðileg.
Fyrir lesendur sem þekkja ljóðin fyrir og vilja eignast þau án þess að leggja út í óþarfa fjárútlát eða nytjamarkaðaráp er hins vegar dálítið frústrerandi að fá bara brot úr hverri bók. Í tilfelli Gyrðis hefði ég allra helst viljað fá fyrstu fimm ljóðabækur hans í heild saman í pakka, frá Svarthvítum axlaböndum til Blindfugl/Svartflug. (Svarthvít axlabönd, Bakvið maríuglerið og Blindfugl/Svartfugl komu reyndar út endurskoðaðar í einni bók undir titlinum Haugrof árið 1987, en sú bók er væntanlega orðin jafn sjaldséð og upprunalegu útgáfurnar.) Eftir Blindfugl/Svartflug verða ákveðin skil í ljóðagerð Gyrðis. Í viðtali við útkomu næstu ljóðabókar þar á eftir, Tvö tungl árið 1989, lýsir hann því að hann hafi verið kominn á ákveðinn endapunkt í ljóðagerð sinni, hann hafi verið „alltaf lokaður inni í húsi“, en sé nú kominn út undir beran himin (með svolítilli umorðun minni). Vönduð heildarútgáfa á „fyrsta hollinu“ af ljóðum Gyrðis, ljóðum sem eru í raun orðin klassísk, stæði fyrir sínu óháð því sem hann á eftir að gera í framtíðinni, en ljóðaúrval eins og þetta afmarkar óhjákvæmilega ákveðið tímabil í ferli skáldsins án þess að það séu endilega fyrir því fagurfræðileg rök.
Ég reyndi að finna kápumynd Blindfugl/Svartflug á Tímarit.is. Þessi var á sömu síðu. |
Allar bækur Gyrðis frá 9. áratugnum finnst mér frábærar og mörg bestu ljóðanna er að finna í þessu úrvali, en Blindfugl/Svartflug er eins og kaflinn um æxlun í Íslenskri alfræði þegar ég var barn; þótt ég þykist vera að fletta öðrum köflum leita fingur mínir þennan ósjálfrátt uppi. Það er erfitt að detta ekki í óþolandi klisjur um ljóðakonfekt, flugeldasýningar og orðkynngi, en sú síðastnefnda er samt slík í þessum bálki að það jaðrar við að manni finnist skáldið vera að sýna sig – þetta eru svokölluð tilþrif, í tungumáli og myndmáli. Lesturinn er upplifun, þetta er allt svo safaríkt, það er svo mikið í gangi að maður verður næstum því andstuttur af einbeitingu, fyrir nú utan paranojuna og innilokunarkenndina sem ljóðið miðlar til manns „innan úr húsinu“. Á sama tíma og ég var að lesa Blindfugl/Svartflug var ég líka að lesa frásögn geðhvarfasjúks manns af löngu maníukasti, með tilheyrandi of(ur)næmi fyrir birtu, hlutum, hljóðum og blæbrigðum í umhverfinu, og þessir textar kölluðust á á ansi áhrifaríkan hátt. Ég var eiginlega öll á nálum eftir lesturinn. (Tilfinningin minnti á aðra frábæra bók sem ég las á síðasta ári, Cosmos eftir pólska rithöfundinn Witold Gombrowicz, mæli líka með henni ef einhverja aðra perverta þarna úti langar að rækta í sér paranojuna.)
Ég er alltaf að leita að „besta upphafinu á íslenskri bók“. Málfríður Einarsdóttir hefur hampað þeim titli (ég ætti kannski að búa til bikar, farandbikar) síðan ég las Samastað í tilverunni en ég er að pæla í að láta höfund Blindfugl/Svartflug fá hann næst:
Rósemi get ég ekki miðlað,
af henni á ég ekkert, flugþol
órólegra hugmynda virðist án
takmarka, þær hefja sig á loft
í hvelfingunni og sveima nótt
eftir nótt í húðvængjulíki milli
súlna, ég ligg og fylgist með
þeim undir glerinu, ekki vonlaus
um að þær tylli sér andartak
á límborna veggina
Er eitthvað að ráði úr Tvíbreiðu svigrúmi og Ein konar höfuðlausn?
SvaraEyðaÞað er ekki mikið úr Einskonar höfuðlausn, þrjú ljóð, en sex úr Tvíbreiðu svigrúmi. Það eru fleiri ljóð úr nýrri bókunum en þeim gömlu.
SvaraEyða