26. nóvember 2015

Lausnamiðuð kanína eignast vini - barnabók Bergrúnar Írisar skoðuð

Viltu vera vinur minn? sem kemur út núna fyrir jólin hjá Bókabeitunni er sérlega falleg og notaleg bók fyrir yngstu bókaormana. Hún fjallar um litla kanínu sem er einmana og finnst eins og allir aðrir eigi vini til að leika við. Þar sem þetta er ráðagóð og lausnamiðuð kanína hefst hún strax handa við að byggja brú yfir ána í von um að hún geti fundið leikfélaga á hinum bakkanum. En ekki byggir maður brú einsamall og fuglarnir, birnirnir og íkornarnir koma henni til hjálpar. Þegar loks brúin er risin er engin ástæða fyrir kanínuna til að fara yfir ána – hún hefur þegar eignast góða vini – og kannski voru þeir þarna allan tímann – kannski er bara nóg að spyrja hvor einhver vilji vera vinur manns!



höfundur með sætum hundi sem þó kemur ekki fyrir í bókinni
Myndir og texti eru eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur sem hefur á síðustu árum vakið sífellt meiri athygli fyrir myndskreytingar og frumsamdar barnabækur. Ég hrósaði henni einmitt í nýlegum pistli hér. Teikningar Bergrúnar eru fallegar og skemmtilegar, sonur minn greip bókina strax af borðinu og var ekki rónni fyrr en hún hafði verið lesin – tvisvar. Hann gerði reyndar athugasemd við að kanínan byggði brú – honum fannst skynsamlegra að byggja bát – og þegar ég hugsaði málið fannst mér þetta raunar skynsamleg afstaða – sérstaklega þegar smiðurinn er staddur öðru megin við ána og kemst ekki á hinn bakkann – mér finnst að það hljóti að vera erfitt að byggja svona frá öðrum bakka yfir á hinn! En þetta truflaði minn mann ekkert að ráði og auðvitað er brúin falleg myndlíking fyrir tengslin milli fólks.

Textinn er á stöku stað örlítið stirður – þótt hér sé um að ræða einfaldan texta fyrir yngstu kynslóðina verður að gæta þess að hann flæði vel. Kanínan er „ég“ sem er vel til fundið svo allir geta speglað sig í henni – en það er sérstaklega tekið fram að stóri björninn sé birna og sá litli björn. Þetta gladdi því við þurfum á slíkum stórum og sterkum birnum að halda í bókmenntasögunni – hamingjan veit að þær eru ekki margar. Þá er lofsvert hjá Bergrúnu að benda á að stundum sé í góðu lagi að vera einn – og geti bara verið notalegt – eins og t.d. þegar kanínan er niðursokkinn í góða bók við kertaljós – en á öðrum stundum er það ekki eins gaman – stundum þarf maður vini. Myndlíkingin fyrir einmanaleikann er sérlega vel heppnuð; kanínan stúrin á svip, situr öðru megin á vegasalti. Myndin er skýr án þess að vera yfir-dramatísk. Það gefur auga leið að á vegasalti þurfa að vera tveir!

Hugmyndin er skemmtileg og vel útfærð og myndirnar eins og áður sagði dásamlegar – ég sé fram á að eyða mörgum fleiri kvöldum við að skoða þær í góðum félagsskap. Sagan er svo fallega römmuð inn með myndskreytingum á saurblöðum fremst og aftast. Ég var sérstaklega veik fyrir slíkum skreytingum sem barn og það hefur ekki elst af mér nema síður sé og hér hefur sérstök alúð verið lögð í saurblöðin. Fremst sýna þau kanínuspor sem liggja þvert yfir opnuna – en aftast hafa fleiri fótspor bæst við – bæði fugla-, íkorna- og bjarnaspor sem fjögra ára sporhundur hafði mjög gaman af að rekja.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli