29. febrúar 2016

Sögunni er alls ekki lokið: Viðtal við Kára Pál Óskarsson

stóri g var fjarstaddur
en heilagur andi á stjákli
margnotuð orð reyndust nothæf
um hríð
myrkur kuldi eldur
straumurinn rofnaði
ég er í þvögunni miðri
en samt til hliðar
fyrst sætt bragð
síðan beiskt
gluggi opnast
gluggi lokast
troðið aftur í hversdaginn
hægt en örugglega létu dagarnir sína nýfengnu liti
hægt en örugglega gömlu fleygarnir reknir á milli
óbærilegt
ormur í heilanum
eins langt aftur og ég man
tungumál óvinarins
allsstaðar
eins og táragashylki
í gluggalausum klefa

Ljóðið Mannshöfuð er nokkuð góð fæða fyrir orma er úr splunkunýrri ljóðabók eftir Kára Pál Óskarsson, Ekkert tekur enda. Bókin kom út á dögunum hjá forlaginu Deigma, hún er komin í verzlanir og það er óhætt að mæla með því að ljóðaunnendur tryggi sér eintak. Þetta er þriðja bók Kára Páls, en hann hefur áður gefið út Með villidýrum hjá Nýhil árið 2008 og Oubliette sem kom út hjá Nykri 2007. Útsendari Druslubóka og doðranta tók viðtal við Kára í tilefni af útgáfu nýju bókarinnar.

  
Til hamingju með bókina! Ekkert tekur enda er þín þriðja ljóðabók, síðast gafstu út Með villidýrum árið 2008. Það eru ákveðin stef sem má sjá í báðum þessum bókum; pælingar um vald og ofbeldi og valdaleysi, um „sársauka annarra“ og það að þola, fylgjast með og taka afstöðu gegn misrétti og kúgun og hverju ef nokkru er hægt að áorka með því. Það sem er sérstaklega áberandi í nýju bókinni er áherslan á tungumálið sjálft og hlutverk þess í þessu valdakerfi - eða eins og þú hefur eftir sitúasjónistunum: „Orð vinna, í þágu hins ríkjandi skipulags lífsins.“ Hvernig getur ljóðskáld tekist á við það að verkfæri þess, tungumálið, er jafnframt alltumlykjandi „tungumál óvinarins“?

Kærar þakkir, mjög gaman að fá að koma í smá spjall á hinu frábæra druslubókabloggi. Stór spurning sem kallar helst á löng ritgerðaskrif. Enda þótt kerfið, eða hvað við viljum kalla það, sé vissulega alltumlykjandi hugsa ég að það séu ýmsar leiðir færar. Ég er semsagt ekkert mjög svartsýnn eða haldinn einhverju níhílísku ressentiment, sem kannski mætti segja að liti gömlu bækurnar mínar. Fyrst af öllu held ég að ljóðlist verði að vera sjálf-reflexíf í beitingu sinni á tungumálinu. Síðan getur hún til dæmis verið kritísk, eða greinandi, eða hafnað rökvísinni að baki flestri notkun tungumálsins í síð-kapítalísku samfélagi, þ.e. boðskiptahlutverki þess, verið „skrýtin“ og ógagnsæ og þar með á vissan hátt verið svið frelsis innan tungumálsins. Kannski (vonandi) má finna dæmi um allt þetta þrennt í bókinni minni, enda er hún orðin til á löngum tíma og endurspeglar mismunandi hugðarefni.

Varðandi kritíska þáttinn, þá var til dæmis eitt sem mig langaði sérstaklega að vinna með í þetta sinn og það er fyrirbærið sem í vestrænum marxisma er kallað hugmyndafræði. Nú er það flókið hugtak, gengur undir ýmsum nöfnum og deildar meiningar um hvað það sé nákvæmlega, og ég langt frá því að vera neitt sérfróður um það, en mér finnst freistandi að hugsa um það sem límið sem heldur samfélaginu saman. Til málamynda getum við kannski sagt að það sé þessar óorðuðu hugmyndir sem liggja í loftinu, móta hegðun og bjaga hugsun fólks til að viðhalda óbreyttum valdahlutföllum í samfélaginu og sá fræjum óra og óöryggis í hugskotinu.

Tungumálið er svo auðvitað einn helsti miðill hugmyndafræðinnar. Það eru nokkur skáld í samtímanum, til dæmis fólk sem er viðriðið tímaritið OEI í Svíþjóð eins og Ida Börjel og UKON, sem mér finnst nálgast þetta á skemmtilegan hátt sem mig langaði að stæla. Án þess að ég vilji gera þeim upp skoðanir þá virðast mér sum verk þeirra hafa snertiflöt við og vera jafnvel sjálf afbrigði af gagnrýni á hugmyndafræði, að því leyti að þau vinna með þessar grillur, pota dálítið í viðkvæmu blettina. Hjá sumum þessara skálda má líka sjá notkun forms sem ég tel að búi yfir ákveðnum möguleikum í þessu sambandi, en það er upptalningin. Upptalningarljóðið er opið form, faktískt séð væri hægt að bæta endalaust við það, og það hefur enga úrlausn. Mér finnst eftirsóknarvert að neita lesandanum um úrlausn eða niðurstöðu.

Það eru reyndar ekki bara orð og setningar í bókinni heldur líka myndir, myndljóð - við fáum nasaþef af því á bókarkápunni. Er það miðill sem þú hefur verið að prófa þig áfram með? Hvernig passa myndljóð inn í þessa umræðu um tungumálið sem verkfæri valdsins? 

Myndljóðin eru reyndar með elsta efninu í bókinni. Ég var mjög áhugasamur um mynd- og konkretljóð á tímabili, svona 2008-2010, en ekki eins mikið í seinni tíð. Fyrir mér er þetta innan hefðar sem á rætur að rekja að minnsta kosti aftur til Mallarmé og tilrauna hans með frelsun orðanna á blaðsíðunni, sem voru sprottnar af anarkískum viðhorfum hans. Þetta var útópísk pæling um algjört frelsi, ekki bara í ljóðrænu heldur einnig samfélagslegu tilliti, þ.e. að ljóðið sé fyrirmynd að samfélaginu. Annað sem mér finnst mjög áhugavert í þessu sambandi er hugmyndir Mallarmé um verkfallið, að skáldið sé í verkfalli gagnvart samfélaginu, og mikilvægi þagnarinnar. En þegar ég var að gera þessi myndljóð á sínum tíma þá voru mínar helstu beinu fyrirmyndir nokkur eldri verk kanadíska skáldsins Derek Beaulieu, sem benti einhvers staðar á að gallinn við mikið af konkretljóðlist í nútímanum sé að hún er of „smooth“, gæti of auðveldlega verið notuð sem lógó einhverra fyrirtækja. Ég er hrifnari af myndljóðum sem virðast vera að molna eða tærast sundur.

Mér hafa alltaf þótt ljóðin þín dálítið Sigfúsarleg sum hver og andi Sigfúsar Daðasonar svífur víða yfir vötnum í Ekkert tekur enda, til dæmis í ljóðinu sem birtist hér í upphafi. Að sama skapi vitnarðu á einum stað í annað höfuðskáld vinstrimanna á Íslandi, Jóhannes úr Kötlum, og þau orð hans að skáldin verði „að reyna að ná til fólksins, beint inn í hug þess og hjarta, án þess þó að slaka á kröfum sínum í glímunni við hið ósegjanlega“. Hvernig finnst þér þín (af)staða sem skálds vera í samanburði við þá kynslóð eða kynslóðir íslenskra vinstrimanna sem Sigfús og Jóhannes tilheyrðu? Er þetta í grundvallaratriðum sami heimur og sama barátta sem blasir við okkur? 

 Já, Sigfús er uppáhalds atómskáldið mitt og eitt af mínum uppáhalds skáldum frá 20. öld. Það er bara einhver tónn og hrynjandi sem höfða sterkt til mín, ég veit ekki alveg af hverju. Kannski þessi alveg óhátíðlegi spjalltónn, og svo vitaskuld annað sem er algjört pönk, eins og Sjötta bjartsýnisljóð. Ég man þegar ég heyrði fyrst geisladiskinn með honum að lesa ljóðin sín og hugsaði „nú já, mega ljóð líka vera svona?“. Auk þess sem hann vann mikilvægt en vanmetið starf sem ritstjóri Tímarits Máls og menningar, skrifaði þar merkilegar pólitískar greinar sem oft gleymast í umræðum um hann og þýddi sjálfur í blaðið greinar eftir róttæka hugsuði úti í heimi. En að nota þessa tilvitnun í Jóhannes er nú hálfgerður aulabrandari af minni hálfu, eitthvað sem mér fannst kallast skemmtilega á við upptalningarljóðið sem ég var að tjasla saman. Þessi pæling um að segja hið ósegjanlega er auðvitað klassískt deiluefni á vinstri vængnum, þ.e. hvernig eiga skáld að yrkja ef þau eru samfélagslega sinnuð og vilja gagnast einhverjum málstað? Með öðrum orðum hvort og hvernig eigi að sameina framsækin þjóðfélagsviðhorf og framsækna fagurfræði.

En ég held að það sé engin spurning að aðstæður frá tímum Sigfúsar og Jóhannesar séu gjörbreyttar. Menningarlegt samhengi kalda stríðsins er auðvitað löngu horfið út í veður og vind. Við erum að tala um nánast algjört forræði kapítalismans í um þrjátíu ár. Ég er fæddur á svipuðum tíma og Reagan og Thatcher komast til valda og þekki því varla annað en nýfrjálshyggjuna. Tíundi áratugurinn var síðan þessi algjöra auðn „endaloka sögunnar“ og ég held að það hafi verið mjög mótandi fyrir mig að hafa verið unglingur þá, í því tómarúmi. En segja má að sagan hafi snúið aftur á síðustu árum, með kreppunni og öðru sem hefur gengið á í heiminum, og titill bókarinnar minnar er m.a. hugsaður sem vísun til þess: nei, sögunni er alls ekki lokið. Ég held síðan að það sem gerst hefur á þessum þrjátíu árum eða svo, er að kerfið hefur í æ ríkari mæli mótað það hvernig fólk á Vesturlöndum upplifir sjálfan veruleikann, eins og Adorno og fleiri voru þegar farnir að segja löngu fyrr. Við slíkar aðstæður verður einmitt mikilvægt að reyna að segja hið ósegjanlega, því það merkir í raun að orða og upplifa veruleikann á nýjan hátt, sbr. það sem ég sagði hér áðan um að hafna boðskiptahlutverki tungumálsins.

Ljóðin þín snúast ekki bara um mátt og vanmátt á stórum skala heldur líka smáum, persónulegum, eins og kemur vel fram í síðasta hluta bókarinnar, Skyggnur gegn sögunni, sem inniheldur prósaljóð skrifuð frá sjónarhorni unglings í bæ úti á landi. Þar fléttast saman athugasemdir um persónulega upplifun, um samfélag, félagslega og efnahagslega skipan þess, og það sem kalla má fremur nöturlegar þéttbýlisnáttúrulýsingar þar sem óhugnaðurinn marar undir. Ég þykist vita að í þessum öguðu og markvissu ljóðum sækirðu meðal annars til bandaríska ljóðskáldsins Lyn Hejinian og sjálfsævisögulegs ljóðverks hennar, My Life. Hvað er það sem heillar þig við þennan stíl, þetta form, og hvernig kallast það á við efniviðinn, þessar endurminningar um ungdómsár á tilteknum stað? 

Mikið rétt, bæði My Life eftir Hejinian og líka Albany eftir Ron Silliman. Eins og kunnugt er hafa þau bæði jafnan verið kennd við „Language poetry“, róttæka framúrstefnuhreyfingu sem kom fram í Bandaríkjunum á 7. og 8. áratugnum og var undir áhrifum bæði frá nýja vinstrinu og nýjum kenningum í hugvísindum, hinum alræmdu póstmódernisma og póststrúktúralisma. Þetta snýst held ég mikið til um hina ljóðrænu sjálfsveru eða súbjekt, sem hefur verið fremur illa þokkuð í skáldskap undanfarin ár, að minnsta kosti í sumum kreðsum, samhliða uppgangi konseptúalismans. Ég var hins vegar ekki alveg tilbúinn til að gefa súbjektið upp á bátinn. Það er nógu slæmt að heimurinn vilji helst gera okkur öll að eins konar búðargínum án þess að listin sé í vitorði með honum. Þessi verk Hejinian og Silliman eru á einhverjum mörkum, þau ættu ekki að hafa ljóðræna sjálfsveru en þó er eins og hún sé þarna samt. Mér virtist þetta því forvitnileg aðferð til að fjalla um mótun sjálfsmyndar, en um leið útiloka ýmsar klisjur og óhóf sem hefur lengi loðað við „ég“-skáldskap, ef svo mætti kalla. Þessi collage- og non sequitur-aðferð er auk þess opin og lýðræðisleg. Það er ekkert stigveldi innan textans, allar setningar skipta jafn miklu máli, og lesandanum gefst meira færi á að taka þátt í sköpun merkingarinnar.

Eins og ég nefndi áðan varð bókin mín til á löngum tíma. Í yngstu ljóðunum mætti kannski tala um einhvers konar endurhvarf til ljóðrænu sjálfsverunnar og það held ég að sé bara í takt við alþjóðlegar hræringar í ljóðlist, sérstaklega í Bretlandi og Bandaríkjunum. Ég sé ekki betur en að fram séu að koma mörg skáld sem hafna mjög afráttarlaust þeim konseptúalisma sem var í tísku um og upp úr aldamótunum, og er það vel. En auðvitað er konseptúalismi alla vega og ég hef miklar mætur á ýmsum höfundum sem stunda hann.

Þú ert líka með eina ljóðaþýðingu í bókinni, á ljóðinu Stíflan eftir bandaríska skáldið Muriel Rukeyser, en lokakafli þess kallast skemmtilega á við titil bókarinnar, Ekkert tekur enda. Hvers vegna ákvaðstu að hafa þýtt ljóð með og hvers vegna þetta ljóð? 

Í fyrsta lagi tel ég einfaldlega að ljóðaþýðingar séu mikilvægar en jafnframt er stundum eins og þær eigi hvergi athvarf og séu kannski ekki teknar alvarlega. Það er t.d. erfitt að gefa út safn ljóðaþýðinga, nema kannski ef þýðingarnar eftir eftir einhverja mjög þekkta og virta höfunda. Að hafa þýðingu svona í bók innan um frumsamið efni allt annars höfundar hefur auðvitað oft verið gert áður og mér virtist það góð leið til að gera þýdda ljóðinu hærra undir höfði en ella, kannski auka líkurnar á að því veitist þegnréttur, ef svo má segja, í íslensku bókmenntarými. Í öðru lagi uppfyllir þetta ljóð ákveðnar kröfur sem ég hafði í huga, þ.e. mér fannst það flott og mig langaði að velja eitthvert ljóð úr gamla róttæka vinstrinu, módernískt og eftir konu. Í þriðja lagi fannst mér ljóðið á vissan hátt tala inn í íslenskt nútímasamhengi því það vakti hugrenningatengsl við byggingu Kárahnjúkavirkjunar, sem ég held að sé að miklu leyti óuppgert mál. Og í síðasta lagi tengist þetta viðhorfi mínu til uppbyggingar ljóðabóka; mér finnst ofmetið að þær verði að hafa einhvern heildarsvip og sé ekki hví þær mega ekki samanstanda af alls konar textum, kannski bara eins og samfélagið samanstendur af alls konar einstaklingum. Svo er bara að vona að mér hafi tekist sæmilega upp!

Þú býrð í Berlín og hefur tekið þátt í ljóða- og listasenunni þar undanfarin ár, ekki satt? Hvernig er stemmningin þarna úti? Hvaða tilfinningu hefurðu fyrir stöðunni í ljóðaheiminum á Íslandi þegar þú horfir á hann frá Berlín?

Stemningin er fín. Hér er talsverð deigla og ég hef verið svo lánsamur að kynnast ýmsu skemmtilegu og áhugaverðu fólki sem hefur kynnt mig fyrir nýjum bókum og höfundum. „Senan“ er samt vitaskuld misjöfn, sumt er gott og annað ekki eins og gengur. Ég gæti nefnt gríðarvel sótta upplestraröð sem ungt fólk hér heldur úti og nefnist Kabeljau und Dorsch; þau kvöld byrjuðu á litlum bar í Neukölln en sprengdu hann utan af sér, fluttu á miklu stærri bar sunnar í Neukölln en fylla hann líka alveg út að dyrum. Sjálfstæða menningarrýmið Altes Finanzamt, einnig í Neukölln, hefur verið til fyrirmyndar. Lettrétage í Kreuzberg stendur líka vel að upplestrum og er með góðan sal. Hér er enginn skortur á góðum kaffihúsum, börum og allra handa menningarrýmum sem henta vel fyrir upplestra. Það myndi seint gerast hér sem einu sinni kom fyrir mig í Reykjavík, þegar ég reyndi að skipuleggja upplestur á Næsta bar en skíthællinn sem rak þann bar á þeim tíma tvíbókaði staðinn, þannig að við þurftum að lesa á sama tíma og eitthvert fínt matarboð stóð yfir, með tilheyrandi skvaldri og glamri í glösum og hnífapörum. Það er tvímælalaust mín versta upplestrareynsla og ein ástæða þess að ég varð lengi afhuga öllu svona vafstri.

Hér í Berlín eru allra þjóða kvikindi sem skipuleggja alþjóðleg ljóðakvöld og ber þar helst að nefna upplestraröðina artiCHOKE. Hér eru líka góðar bókabúðir og lítil forlög sem gefa út fallegar bækur, sumt af því kannski óþarflega fínt og fágað, en það tíðkast ekki síður að fólk hendi bara út hráum „chapbooks“, pdf-skjölum eða hreinlega bara samanheftum A4-blöðum. Ég er mjög hrifinn af þessum do-it-yourself anda. Annars er merkilegt hvað senan virkar stundum lítil í raun – sumt af því fólki sem er áberandi hér var kannski líka gestir á Nýhílhátíðum í gamla daga. Satt að segja hef ég takmarkaða tilfinningu fyrir stöðunni í ljóðaheiminum á Íslandi. Ég missi náttúrlega af öllum þessum spennandi ljóðakvöldum og les ekki það margar nýjar íslenskar ljóðabækur, utan við það sem vinir mínir gera og vissa höfunda sem ég fíla. Stundum fæ ég á tilfinninguna að það sé frekar lítil gerjun í gangi, en svo kemur kannski eitthvert snilldarframtak eins og ljóðagalleríið 2015 er gildra, sem sýndi svart á hvítu að það er ýmislegt um að vera.

Og talandi um tungumálið og hlutverk þess - hvernig er að búa annars staðar, í öðru samfélagi og málumhverfi, en yrkja og gefa út ljóð á íslensku á Íslandi? Yrkirðu á íslensku vegna þess að það er móðurmál þitt, málið sem stendur þér næst, eða vegna þess að þú yrkir inn í íslenskt samhengi, vegna þess að erindi þitt er við íslenskt samfélag? 

Klárlega vegna þess að það er móðurmál mitt, og ég er alveg sáttur við það. Ég hef enga sérstaka komplexa yfir að skrifa á máli sem fáir skilja, það er bara stór hluti af því hver ég er og eitthvað sem ég vil gera til að finnast ég frekar vera heilsteyptur einstaklingur og sjálfum mér samkvæmur. Að búa úti skerpir þessa tilfinningu frekar en hitt. Auk þess er ég mjög hlynntur þýðingum og finnst skemmtilegri tilhugsun að einhver annar þýði mig yfir á ensku eða önnur mál og búi þannig til eitthvað nýtt – að textarnir æxlist. Auðvitað hefur það ýmsa praktíska ókosti að gefa út á Íslandi en búa sjálfur annars staðar, sérstaklega fyrir grasrótarforlög eins og Deigma, sem tveir félagar mínir og ég vorum að stofna. Aðeins einn okkar býr á Íslandi og því lendir margt á honum sem ég myndi annars sjá um sjálfur. Ég get heldur ekki fylgt bókinni eftir með eðlilegum hætti, ekki tekið þátt í upplestrum né reynt að troða mér að í Víðsjá eða Kiljunni.

Enska tungumálið og ég eigum í undarlegu sambandi. Þótt ég kunni það ágætlega og skrifi stundum á því, sérstaklega ef ég er beðinn um það, yrði alltaf dálítið þvingaðra. Auk þess spyr ég sjálfan mig hvaða utanaðkomandi, sögulegu skýringar séu á því að enskan er svona miðlæg í mínu lífi. Valið á tungumáli hefur stóra pólitíska vídd og mér finnst alls ekki sjálfgefið að taka upp enskuna gagnrýnilaust. Reyndar er ég aðeins farinn að yrkja á ensku en lít á það sem eitt stakt, skýrt afmarkað verkefni.

Druslubækur og doðrantar þakka Kára Páli kærlega fyrir spjallið og birta með góðfúslegu leyfi eitt ljóð í viðbót úr nýju bókinni - í þetta sinn texta án titils úr síðasta kafla bókarinnar, Skyggnur gegn sögunni.

Veldi á fallanda fæti. „Jesús lifir“ skrifað með eldletri í fjallshlíðina. Strákar geta hjólað á sandi. Úrsérsprottið. Kexið linast upp í mjólkurglasinu. Dofnandi minning um stað sem var eins og dofnandi minning. Ekki er öllum gefið að bakka með kerru. Maður á að hunsa sársaukann, segja þeir, nógu lengi til að koma með mótbragð og þannig vinnur maður slag. Illgresið þrýstir sér út um munninn. Slegið, rakað, troðið í svartan ruslapoka. Utan garðs. Ræting: upp og inn. Þyrnótt persóna, skóluð í grimmd.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli