27. mars 2016

Allt innan fjölskyldunnar: „Biblía 21. aldarinnar“

Þann 19. október 2007 var ný biblíuþýðing, hin svokallaða „biblía 21. aldar“, kynnt fyrir Íslendingum á miðopnu Morgunblaðsins, sem þá var enn víðlesin meðal landsmanna. Þar söfnuðust saman ýmsir framámenn til að lofsama hina nýju útgáfu – biskupinn Karl Sigurbjörnsson, útgefandi hinnar nýju biblíuþýðingar fyrir hönd JPV forlags, Jóhann Páll Valdimarsson, og loks tveir nefndarmenn í þýðingarnefndum testamentanna, Sigurður Pálsson og Guðrún Kvaran. Það var auglýst að þennan sama dag skyldu eintök nýju þýðingarinnar afhent forseta, ráðherra og þingmönnum, fyrstum Íslendinga, við hátíðlega athöfn; að vanda gekk íslensk yfirstétt fyrir. Biskup lýsti því yfir að vel hefði tekist við þýðinguna, þótt hann viti að „áreiðanlega muni einhverjir hnjóta um eitthvað í þýðingunni sem þeir hefðu viljað hafa öðruvísi“.

Biskup talaði af reynslu; það var ekki vanþörf á þessari miklu opnuauglýsingu í Morgunblaðinu. Sex dögum áður hafði birst í Lesbók Morgunblaðsins (bls. 10) stórmerkileg grein eftir Jón Sveinbjörnsson prófessor og fyrrum formann þýðingarnefndar Nýja testamentisins. Þar rekur Jón atburðarásina í kringum þýðingarstarf sitt og nefndarinnar og kemur þar margt merkilegt í ljós sem hefur ekki farið hátt síðan, þótt 2007-þýðingin hafi orðið umdeild fyrir aðrar sakir. Raunar er nær ekkert minnst á deilurnar um þýðinguna 2007 í neinu af því mikla kynningarefni sem gefið var út í tilefni af 200 ára afmæli Hins íslenska biblíufélags 2015. Það hvarflar að manni að þær séu eitthvað sem Biblíufélagið vill síst minnast.

Og það skiljanlega. Jón Sveinbjörnsson rekur í greininni hvernig það var stofnað til nýju þýðingarinnar með það að markmiði að nútímavæða tungutak biblíunnar og halda uppi vísindalegum vinnubrögðum: Þýtt skyldi upp úr frummálunum hebresku og grísku og það af fræðimönnum í þeim málum. Gamla testamentið skyldi þýtt allt upp á nýtt, enda hafði það ekki hlotið endurskoðun lengi, en staðan var aðeins flóknari hvað varðaði Nýja testamentið. Með biblíuútgáfunni 1981 höfðu komið út nýjar þýðingar á guðspjöllunum og postulasögunni en bréfin og Opinberunarbókin voru gamlar þýðingar. Eðlilegast hefði verið að gera einfaldlega nýjar þýðingar á þeim og gefa þannig út vel uppfærða biblíu, en Hið íslenska biblíufélag ákvað að fara einfaldari leið: Endurskoða 1981-útgáfuna frekar en að frumþýða, og sérstaklega þá hluta 1981-útgáfunnar sem elstir voru – Pálsbréfin og Opinberunarbókina. Þrátt fyrir þessa ákvörðun var 2007-biblían allstaðar kynnt sem glæný heildarþýðing, sem var ekki allskostar rétt.

Jón var skipaður formaður þýðingarnefndar Nýja testamentisins árið 2001, en með honum þar sátu Guðrún Kvaran og Árni Bergur Sigurbjörnsson, sonur Sigurbjörns Einarssonar fyrrverandi biskups og bróðir Karls Sigurbjörnssonar þáverandi biskups. Árni Bergur veiktist síðan og við tók af honum bróðir hans, Einar Sigurbjörnsson. Sú ætt var vel tengd ferlinu: Sá sem skipaði þýðingarnefndina var formaður Hins íslenska biblíufélags, sem var enginn annar en þriðji bróðirinn, biskupinn Karl Sigurbjörnsson. Boðleiðirnar voru því stuttar milli kirkju, Biblíufélags og þýðingarnefndar.

Þótt markmið þýðingarnefndanna, að færa biblíuna á fræðilegan hátt frá frumtextum yfir á nútímaíslensku, væri afar gott og gagnlegt, þá komu strax upp ýmis konar vandamál og málamiðlanir sem skemmdu alla heildarmynd verksins. Ein kærkomin breyting sem átti að gera var að fjarlægja hinar úreltu orðmyndir vér, oss, yður o.s.fr. úr biblíunni. Sú breyting fór hinsvegar aldrei öll í gegn: Biblíufélagið guggnaði á að henda burt hinum úreltu orðmyndum allstaðar eftir margskonar umkvartanir íhaldsafla innan kirkjunnar. Á endanum var lent á gjörsamlega fáránlegri málamiðlun. Eins og Karl Sigurbjörnsson sagði: „[Okkur þætti] mjög einkennilegt að segja „faðir okkar“ í stað „faðir vor“... [það hefur því] náðst niðurstaða um að slíkar orðmyndir skyldu halda sér í bænatextum og á ljóðrænum stöðum, en að öðru leyti stuðst við nútímamál.“ Nútímamálið var því valkvætt fyrir þýðendur, og kríteríurnar afar óljósar. Hvað telst „ljóðrænn staður“ og hvað ekki? Þetta er túlkunaratriði hvers og eins, og eins og notkun Karls á faðirvorinu sýnir, þá varð niðurstaðan meira og minna sú að fræg vers hafa vér og oss en minna fræg eru á nútimaíslensku. Þetta er gríðarlegur ljóður á texta 2007-þýðingarinnar, sem aldrei getur ákveðið sig hvort hann sé á nútímaíslensku eða ekki.

Sigurbjörnsniðjar taka yfir 

Þetta voru ekki einu afskipti kirkjunnar manna og Biblíufélagsins af því fræðistarfi sem biblíuþýðing ætti að vera. Jón, formaður þýðingarnefndar Nýja testamentisins, vildi skýra og umorða guðfræðilegt tungutak sem almenningi var illskiljanlegur, hvað þá helst í Rómverjabréfinu, þar sem fyrir koma setningar svo sem „Ég álít að maðurinn réttlætist af trú án lögmálsverka“ [Róm. 3:28). Þetta skilja þeir sem hafa guðfræðimenntun (ég er ekki þar á meðal), en aðrir ekki, og vildi Jón gera hugmyndirnar sem að baki stóðu skýrari með umorðunum, og fylgdi þar ákveðnum umdeildum kenningum innan guðfræðinnar. Þegar stjórn Biblíufélagsins fékk veður af þessu tók hún það hinsvegar ekki í mál og ályktaði að „kjarnatextar um réttlætingu af trú verði almennt ekki umorðaðir“.

Deilur upphófust þá milli Jóns og Biblíufélagsins sem gengu svo langt að þeir síðarnefndu hættu að senda þýðingartillögur Jóns til utanaðkomandi umsagnaraðila og fóru að úrskurða um þær á eigin spýtur. Lokaorðið lá ekki lengur hjá þýðendunum heldur hjá formanni Biblíufélagsins – Karli Sigurbjörnssyni biskup. Ástæður þessa algjörlega ófræðilega verklags hefur þó ekki aðeins legið í guðfræðilegum ágreiningi. Árið 2004 gerði Biblíufélagið samning um útgáfu nýju þýðingarinnar við JPV-forlagið (fjölskyldufyrirtæki, rétt eins og kirkjan á þessum tíma) og samdist þeim um að endanleg skil handritsins til útgefanda ætti að fara fram í janúar 2005. Þessi ákvörðun var tekin án samráðs við formann þýðingarnefndar Nýja testamentisins og ekkert tillit tekið til þess hvort slíkur asi væri gerlegur eða æskilegur.

Jón svaraði með því að segja upp starfi sínu, enda taldi hann tímann alltof nauman, en restin af nefndinni – Einar Sigurbjörnsson og Guðrún Kvaran – samþykkti að þeyta þýðingunni út fyrir þann tíma. Ákvað Jón því að halda áfram að vinna með nefndinni til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. En biskup og Biblíufélag höfðu engan áhuga á því að hlusta á Jón lengur. Formála Jóns að kynningareintaki þýðingar sinnar var hafnað af biskupi og skrifaði biskup innganginn í staðinn sjálfur; eins og Jón segir, þá „er það einsdæmi að þýðandi og formaður þýðingarnefndar fái ekki að rita formála að þeirri þýðingu sem hann hefur unnið að“! Ekki nóg með það heldur var hugmyndum Jóns um umorðanir á guðfræðilegum hugtökum allstaðar hafnað og var sagt í umsögn að „menn [hafi verið] samhljóða“ um það – sem var alls ekki rétt.

Jóni var ýtt meira og meira til hliðar eftir því sem skiladagur nálgaðist; hætt var að bera nokkrar breytingar undir hann og allt eftirlátið hinum nefndarmönnunum, Einari og Guðrúnu. Loks tók stjórn Biblíufélagsins (þ.e. Karl Sigurbjörnsson) sér allt vald yfir lokaákvörðunum um form textans. Steininn tók úr þegar bróðir hans, nefndarmaðurinn Einar Sigurbjörnsson, lauk við þýðingu Rómverjabréfsins á eigin spýtur, og hafði við það starf fengið yfirlestur frá aðeins einum manni – föður hans og biskupsins, Sigurbirni Einarssyni!

Sem sagt: Þegar hér var komið við sögu þýddi Einar Sigurbjörnsson Nýja testamentið, lét föður sinn fara yfir þýðingar sínar, og sendi það skjal svo til lokasamþykkis hjá bróður sínum. Málið var einfaldlega leyst innan Sigurbjörnsklansins sem öllu réði innan bæði kirkjunnar og Biblíufélagsins; fræðilegri nálgun var varpað fyrir róða. Þetta var ekki eini skandallinn hjá þýðingarnefndunum. Þótt ekki hafi hann skrifað greinar um upplifun sína var aðalþýðandi Gamla testamentisins, Sigurður Örn Steingrímsson, sömuleiðis ósáttur við útkomuna og þvoði hendur sínar af biblíunni 2007 (Clarence E. Glad, „Ný þýðing biblíunnar?“ Lesbók Mbl., 16.2.2008, bls. 13).


Sælgætingar og gígólóar 

En með flugeldasýningunni á útgáfudaginn virðist hafa tekist að kæfa algjörlega niður gagnrýni Jóns; hún kom ekkert meira til tals. Deilur fóru hinsvegar að hefjast um eitthvað allt annað. Þann 16. nóvember 2007, rétt rúmum mánuði eftir útgáfuna, var haldið málþing í Skálholti um hvernig til tókst og hlaut þýðingin þar gagnrýni, ekki fyrir óeðlileg áhrif Sigurbjörnsniðja, heldur fyrir íslenskt málfar annnarsvegar og nokkur þýðingaratriði hinsvegar. Var þeirri gagnrýni svarað af hörku af Guðrúnu Kvaran (Mbl. 19. nóv. 2007, bls. 15), en gagnrýnendurnir voru ekki af baki dottnir: þeir áttu allir eftir að skrifa gagrýnar greinar í blöðin og birtust þær greinar svo í lengra formi í Glímunni, óháðu tímariti guðfræðinema (árg. 2008).

Leiðandi í þessari gagnrýni var Jón Axel Harðarson prófessor sem gagnrýndi nýju biblíuna harkalega fyrir ýmsar sakir, bæði hvað varðar þýðingarfræðileg efni, íslenskt málfar og „pólitíska rétthugsun“ (Lesbók Mbl., 9.2.2008, bls. 10). Jóni Axel var það eitur í beinum hvernig málfræðilegu kyni var oft breytt frá grískunni; þegar hópur fólks af báðum kynjum er ávarpaður á forngrísku er hann ávarpaður í karlkyni (rétt eins og á rómönsku málunum í dag, til dæmis), en þýðendur biblíunnar höfðu ákveðið að breyta þessu jafnan í hvorugkyn fleirtölu, eins og íslenskan leyfir. Það er skiljanlegt, en Jón Axel bendir á að þetta hafi verið gert oftar en góðu hófi gegnir, líka þegar grískan gerir það augljóst að aðeins karlmenn voru ávarpaðir.

Þetta telur Jón Axel „pólitíska rétthugsun“ og sér hana víðar í 2007-þýðingunni, sérstaklega í þýðingunni á 1. Kór. 6:9-10, þar sem Páll postuli fordæmir karlmenn sem sofa hjá karlmönnum, eða „samkynhneigða karlmenn“ eins og Jón orðar það (ranglega, eins og ég mun skýra að neðan). Þessi kafli er eldfimur fyrir „frjálslynda“ kirkju nútímans og telur Jón Axel (sem og Gunnar í Krossinum í lesendagrein í Mbl., 20.4.2005, bls. 29) það skýra hina nýju þýðingu sem 2007-útgáfan stakk upp á: Það sem árið 1981 voru „kynvillingar“ er árið 2007 „karlmaður sem lætur nota sig eða notar aðra til ólifnaðar“. Pólitísk rétthugsun! hrópa Jón Axel og Gunnar. Endurskoðun á niðrandi orðum! hrópaði leiðarahöfundur Morgublaðiðsins. (Mbl. 13.4.2005, bls. 26). Þetta varð að miðpunktinum í umræðu um 2007-þýðinguna þareftir, enda er hér snert á miklu pólitísku hitamáli, spurningunni um kirkju gegn samkynhneigð; Karl Sigurbjörnsson biskup var enda nýbúinn að úttala sig um að með giftingu samkynheigðra væri verið að „kasta hjónabandinu á sorphauginn“ og var því mikið undir.

En svo vill til að 2007-þýðingin þýðir nokkuð vel 1. Kór. 6:9-10 og það er Jón Axel (sem og leiðarahöfundur Mbl.) sem misskilur. Í þessum kafla fordæmir Páll postuli ýmsa hópa fólks sem lifir kynlífi sem er honum ekki að skapi, þar á meðal arsenokoitai og malakoi. Arsenokoitês (ft. –ai) er orð sem Páll virðist jafnvel búa til sjálfur (það er hvergi varðveitt á undan honum) og þýðir orðsifjafræðilega „sá sem fer í rúmið (koitê) með karlkyni (arsên)“. Þó verður að skilja orðið nánar útfrá næsta hópi sem hann fordæmir, þá sem hann kallar malakoi, „mjúka menn“.

Páll postuli segir skoðun sína á hinum mjúku mönnum.
Ólíkt arsenokoitai er vel þekkt hverjir hinir „mjúku menn“ voru. Í hinum forna rómversk-gríska menningarheimi sem Páll skrifaði í skiptist kynlíf ekki niður í kynhneigðir – sú hugmynd var þeim heimi gjörsamlega framandi – heldur í kynhlutverk, sem voru tvö: Hlutverk gerandans (sá sem ríður) og hlutverk þolandans (sá sem er riðið). Hið fyrra hlutverk tilheyrði alltaf karlmanni; hið síðara hvoru sem var, konu eða karlmanni, en viðkomandi átti allajafna að vera yngri og/eða af lægri stétt en gerandinn og var talinn kvenlegur sökum hlutverksins; talinn „mjúkur“, og það sérstalega ef hann var „þolandinn“ (þ.e. undir eða bottom) í endaþarmsmökum. Það sem hér er fordæmt af Páli postula er því hin hefðbundna forna drengjaást eða sveinaást (gr. paiderastia), og vísar malakoi til „þolandans“ í því sambandi og arsenokoitês til „gerandans“. Til forna taldist það vissulega skammarlegt að vera „hinn mjúki“ í slíku sambandi, en hið nýja í máli Páls er að gerandinn sé alveg jafn bannfærður og þolandinn; þetta gengur gegn almennu áliti meðal heiðinna manna í fornöld.

Það er sem sagt skýrt að hér er ekki verið að nota auðþýðanleg hugtök, hvað þá að hér sé talað um „samkynhneigð“ í okkar nútímamerkingu. Íslenskir þýðendur höfðu notað ýmis misgóð ráð til að þýða þessi orð í gegnum tíðina, og má segja að þýðingin 1540 nái hinum fornu hugmyndum hvað best: arsenokoitai eru þar „þeir sem skömm drýgja með karlmönnum“ en malakoi eru „sælgætingar“, sem er stórmerkileg þýðing og vísar beint í grísku drengjaástarhefðirnar. En í síðari þýðingum er eins og skilningur á hinni fornu drengjaástahugmynd snarminnki og sú þróun nær ákveðnum botni með þýðingunni frá 1981, þar sem „kynvillingar“ er notað sem samheiti yfir bæði arsenokoitai og malakoi. Sú þýðing er fráleit og þurfti svo sannarlega að breyta. Lausn 2007-þýðingarinnar, „karlmaður sem lætur nota sig eða notar aðra til ólifnaðar“, er því nokkuð snjöll. Með þessari þýðingu er eftirhaldið hinni fornu hugmynd um þolandann („sem lætur nota sig“) og gerandann („notar aðra“), sem og hina nýfundnu fordæmingu Páls („til ólifnaðar“) og það er því engin „pólitísk rétthugsun“ sem hér ræður ríkjum heldur tryggð við frumtexta og skilningur á samhengi hans.

Jón Axel bendir þó réttilega á að orðið arsenokoitês birtist einu sinni aftur í öðru bréfi Páls, til Tímóteusar (1:10), og þar flaskar þýðingarnefndin á að viðhalda samræmi: þar er það þýtt sem „karlar sem hórast með körlum“, sem er arfavond þýðing. Líklega hefur nefndin látið gamla þýðingarvillu afvegaleiða sig: Í þýðingunni 1981 var arsenokoitai hér þýtt sem „mannhórur“, Gunnari í Krossinum án vafa til ánægju.

Í kjölfar þessa upphófst mikil umræða um nákvæma merkingu forn-grískra orða í íslenskum dagblöðum, sem er afar kómískt aflestrar í dag; maður sér ekki fyrir sér að blöðin árið 2016 myndu nokkru sinni tíma plássi frá auglýsingunum til að fjalla um annað eins sérfræðiefni. Umræðan fór aðallega fram í Morgunblaðinu. Clarence E. Glad guðfræðingur skrifaði mikla grein í næstu Lesbók (16. feb. 2008, bls. 12-13) og eyðir miklu púðri í að ræða arsenokoitai og malakoi, en ruglar verulega í umræðunni með því að halda því fram að malakoi væru karlmenn sem stunduðu mikið kynlíf og ætti að þýða sem „fjöllyndir menn“ eða „gigoló“ (!) Skemmst er frá því að segja að þetta álit stenst enga skoðun. Sömuleiðis gagnrýndu ýmsir fræðimenn og áhugamenn málfar nýju biblíunnar.

Vörnin 

Forsvarsmenn þýðingarnefndanna tóku þá til varna gegn gagnrýnendum og nýttu þar afskaplega sniðuga taktík: Að vísa í þau erfiðu skilyrði sem umboðsbréf Biblíufélagsins gerði nefndunum sér til afsökunar og fókusera síðan sérstaklega á þær umkvartanir sem auðveldast var að verjast gegn (vanhugsað kvabb um hvað ætti að teljast „gott íslenskt mál“). Þannig lituðu þau mikilsverðari umkvartanirnar dökkum litum án þess að svara þeim almennilega, og minntust ekki einu sinni á þær ásakanir sem alvarlegastar voru, þ.e. um óeðlileg afskipti biskups af þýðingu Nýja testamentisins og þá staðreynd að báðir aðalþýðendur beggja testamenta hröktust á endanum frá vinnunni og þvoðu hendur sínar af afrakstrinum. Furðulegar kenningar Jóns Axels og Clarence E. Glad um merkingu arsenokoitês og malakoi voru aldrei reknar almennilega ofan í þá, svo ég hafi séð, hvað þá fabúleringar þeirra Jóns Axels og Gunnars í Krossinum um pólitíska rétthugsun í sama máli. 2007-biblían fékk því afskaplega vel úthugsaða en engu að síður innihaldslausa vörn.

En þótt erindisbréf þýðingarnefndanna hafi talað fjálglega um að „ný íslensk biblíuþýðing [muni] móta íslenskt málfar um komandi tíma“, þá ollu viðtökur 2007-biblíunnar miklum vonbrigðum. Í nýjasta hefti B+, blaðs hins íslenska biblíufélags, skrifar Egill Jóhannsson, útgefandi hjá JPV, að „í stuttu máli sagt hefur salan [á 2007-biblíunni] ekki staðist væntingar okkar... [hún var] ekki eins og við höfðum lagt upp með og vænst þegar við ákváðum að ráðast í þetta verkefni með Biblíufélaginu.“ Egill skýrir þetta annarsvegar með gagnrýninni sem þýðingin fékk, sem „má segja að okkur, og öðrum aðstandendum útgáfunnar, hafi ekki gengið nægjanlega vel að svara fyrir“. En mikilvægara er að „kirkjan [hefur] auðvitað verið með storminn í fangið í allri almennri umræðu á undanförnum misserum og árum, og má nánast segja að það hafi verið í tísku að pönkast á kirkjunni og öllu er henni tengist“. Þetta „gerir okkur erfiðar fyrir og þá sér í lagi þegar kemur að markaðsstarfi“ (Egill Jóhannsson, „Biblíuútgáfur og framtíðin“. B+, árg. 2016, bls. 6.)

Það er leitt að hryllilegar nauðganir Ólafs Skúlasonar biskups, yfirhylming þeirra af hendi eftirmanns hans Karls Sigurbjörnssonar og fyrirlitning þess sama eftirmanns á trúlausum og samkynhneigðum hafi gert markaðsstarfi JPV erfitt fyrir. Raunar á ég erfitt með að trúa því að gegndarlausir skandalar þjóðkirkjunnar hafi haft mikil áhrif á sölu 2007-biblíunnar, og raunar ekki gagnrýnin heldur (markaðsfræðingar vita nú að illt umtal selur.) Staðreyndin er frekar sú að biblían er ekki það sem hún var. Það var einfaldlega stórlega ofmetið hversu mikla sölu hún ætti inni á Íslandi (fyrsta prentun var upp á 20.000 eintök!). Biblían var þá þegar til á flestum heimilum alls ólesin og lítil ástæða til að kaupa nýtt eintak nema handa einhverju vesalings fermingarbarni.

Auk þess verður ekki séð að aðalmarkmiði hinnar nýju þýðingar, að koma biblíunni út á „tungutaki samtímans“, hafi tekist. Vér og þér og yður birtast út um hvippinn og hvappinn og langar bollaleggingar Páls á réttlætingu trúarinnar og mikilvægi fórnarinnar fæla hvern óreyndan lesanda sem reynir á brott. Ef vandamálið var að biblían trekkir engan að til trúarinnar nú til dags þá breytir 2007-útgáfan engu þar um. Raunar tilheyrir hún fortíðinni á afar sterkan hátt: Hún er flekkuð af alls ófræðilegri ritstýringu þjóðkirkjunnar sem var á þeim tíma rekin eins og fjölskyldufyrirtæki; útgáfa hennar var einkavædd eins og 2007 sæmir og fengin í hendur JPV, annars alræmds fjölskyldufyrirtækis; að henni prentaðri var hún strax fengin í hendur forseta, ráðherra og þingheims í afar gamaldags tjónkun við valdið. 

Markmið þýðingarinnar í upphafi voru góð – að þýða á fræðilegan hátt úr frumtextum yfir á íslenskt nútímamál – en þeim góðu markmiðum var ekki fylgt vel eftir sökum fáránlegra afskipta kirkjunnar á öllum stigum málsins. Það er kominn tími til að átta sig á því að biblían er safn fornra texta og þýðingar þeirra eiga ekki að lúta neinum öðrum lögmálum en þýðingar á t.d. Platon eða Saffó; það sem þarf er róttæk þýðing sem brýtur sig undan völdum Biblíufélags og biskups og þýðir á fræðilegan og aðgengilegan hátt fyrir almenna nútímalesendur. En miðað við sölutölur 2007-biblíunnar veit ég ekki hvenær slíks væri að vænta.


Þorsteinn Vilhjálmsson

1 ummæli:

  1. Þessi feðgaþrenning er samt ósköp kristileg í þessu samhengi, þótt hún sé kannski ekki sú fræðilegasta.

    Eru þetta ekki bara faðir, sonur og heilagur þýðandi?

    SvaraEyða